17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 461 í D-deild Alþingistíðinda. (2788)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Þegar gildandi löggjöf um innflutningsskrifstofu var til umræðu hér á hinu háa Alþ. í fyrra, þá flutti ég sem minni hl. fjhn. brtt. við frv. um það, að allur innflutningur til landsins skyldi gefinn frjáls, og jafnframt, að bankarnir skyldu afhenda öllum þeim, sem um gjaldeyri bæðu til innflutnings, þennan gjaldeyri. Með þessu vildi ég sannprófa, hvort hæstv. ríkisstj. í raun og veru trúði á þá stefnu sína, að unnt væri að gefa allan innflutning frjálsan. Það reyndist ekki. Hv. stjórnarflokkar trúðu ekki sínum eigin orðum um, að það væri hægt eða rétt að gefa allan innflutning til landsins frjálsan, því að þessar till. mínar voru felldar.

Nú er hér komin fram till. um að gefa einn ákveðinn vöruflokk, sem enn er háður leyfisveitingum, bifreiðar, frjálsan, — og viðaukatillaga um það, að bankarnir skuli afhenda þeim, sem óska eftir gjaldeyri til innflutnings á þessum vörum, þann gjaldeyri, sem um er beðið. Við þm. Alþfl. munum greiða atkv. með báðum þessum till.

Ef hæstv. ríkisstj. telur gjaldeyrisástandið vera þannig, að unnt sé að rýmka enn verulega um innflutning, þá viljum við ekki standa í vegi fyrir því, að hún framkvæmi stefnu sína að þessu leyti. Hins vegar fannst mér lýsing hv. frsm., hv. 5. þm. Reykv., á framkvæmd þessa málaflokks, sem hér er um að ræða, þ. e. úthlutun bifreiða, vera næsta ófögur. Hann lýsti því, að í þessum málum hefði undanfarin mörg ár þróazt gífurleg spilling. Ég hygg mig muna það rétt, að hann hafi sagt, að um það bil 15% eða allt að því sjötta hvert leyfi fyrir bifreið hafi lent á svörtum markaði og þar með orðið þeim, sem þau fengu, að féþúfu. Þetta er ljót lýsing, ef sönn er, á þessum þætti framkvæmdavalds íslenzka ríkisins. En hverjir eru það, sem hér hafa haldið á málum? Það eru einmitt fyrst og fremst flokksbræður hv. frsm., hv. 5. þm. Reykv., og að svo miklu leyti sem þeir hafa ekki getað ráðið úrslitum, hafa það verið flokksmenn þess flokks, sem Sjálfstfl. hefur nú samvinnu við um stjórn landsins. Það hafa verið fulltrúar Sjálfstfl. og Framsfl., sem átt hafa a. m. k. fjóra af fimm og upp á síðkastið alla þá embættismenn, sem hér hafa um fjallað. Og þessir menn fá nú þann dóm af hálfu frsm. Sjálfstfl., að þeir hafi innt þetta starf sitt af hendi þannig, að það hafi orðið undirrót svika og brasks í þjóðfélaginu, þar sem ekki hundruð þúsunda, heldur líklega milljóna braskgróði hefur lent í höndum einstakra „spekúlanta“, manna, sem misnotað hafa aðstöðu sína á hinn herfilegasta hátt.

Það hefur verið höfuðatriði í stefnu núverandi ríkisstj. eða réttara sagt í stefnu þeirra flokka, sem undanfarin 4–5 ár hafa farið með stjórn landsins, að verzlunin skyldi verða frjáls og koma ætti á jafnvægi í fjármálum þjóðarinnar. Hvað er frjáls verzlun? Rétt er að vísa í því sambandi í skilgreiningu helztu ráðunauta núverandi stjórnarflokka, þá skilgreiningu, sem þeir gáfu á því, hvað frjáls verzlun væri, í álitsgerð þeirri, sem þeir létu fylgja frv. því til breytingar á gengi krónunnar, sem lagt var fyrir þing 1950, en þar segir svo, orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Höfuðskilyrði frjálsrar verzlunar er, að greiðslurnar séu frjálsar, þ. e. a. s., að hægt sé að greiða erlendis, ef íslenzkir peningar eru fyrir hendi. Þegar greiðslurnar eru ekki lengur frjálsar, torveldast viðskiptin.“

M. ö. o.: Það er ekki um að ræða frjáls viðskipti, ekki um að ræða frjálsa verzlun, ef gjaldeyrisgreiðslurnar eru ekki frjálsar. Eru gjaldeyrisgreiðslurnar frjálsar hér á Íslandi núna? Er hverjum þeim kleift að fá gjaldeyri, sem óskar eftir honum, til þess að flytja inn vörur, sem eru á frílista? Það vita allir, sem til þekkja, að þessari spurningu verður að svara neitandi. Gjaldeyrisgreiðslurnar eru ekki frjálsar. Það liggja fyrir í bönkunum beiðnir, að upphæð tugir milljóna, fyrir vörum, sem eru á frílista, en bankarnir neita að afhenda gjaldeyri fyrir, a. m. k. slá á frest, um ekki aðeins margar vikur, heldur marga mánuði, og fjölda beiðna er jafnvel aldrei sinnt, hefur ekki verið sinnt, frá því að þær voru lagðar inn fyrir mörgum árum.

Hæstv. ríkisstj. hefur því ekki tekizt að framkvæma þessa stefnu sína, að koma á frjálsri verzlun, ef með frjálsri verzlun er átt við það, sem hagfræðingarnir Benjamín Eiríksson og Ólafur Björnsson sögðu að eiga ætti við, þegar talað væri um frjálsa verzlun.

Hinn meginþátturinn í stefnu ríkisstj. átti að vera að koma á jafnvægi í fjármálum þjóðarinnar. Hefur það tekizt að koma á jafnvægi í fjármálum þjóðarinnar? Hvað mundi vera átt við, þegar talið er jafnvægi í fjármálum þjóðarinnar? Fyrst og fremst það, að verðlag haldist stöðugt og að hvorki sé um að ræða verðbólgu né heldur verðhjöðnun. Er slíkt jafnvægi nú í fjármálum Íslendinga? Um það er rétt að leiða til vitnis Fjármálatíðindi Landsbankans, sem enginn ætti að þurfa að væna um hlutdrægan dóm um þessi efni, en þar segir svo í grein eftir hagfræðing Landsbankans, með leyfi hæstv. forseta: „Undanfarið ár hefur verið vaxandi þensla í efnahagskerfinu, og henni hafa fylgt vinnuaflsskortur, gífurleg gjaldeyriseyðsla og erfiðleikar fyrir útflutningsframleiðsluna.“ Slíkt ástand er einmitt það, sem allir eru sammála um að kalla jafnvægisleysi í fjármálum þjóðarinnar. Fleiri vitni má leiða um þetta. T. d. hefur nýafstaðið þing Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, þar sem annar helzti ráðunautur hæstv. ríkisstj. um efnahagsmál er forseti, og hefur hann væntanlega haft mikil áhrif á að móta till. þingsins, gert ályktun um dýrtíðarmál, þar sem segir m. a., með leyfi hæstv. forseta:

„16. þing Bandalags starfsmanna ríkis og bæja varar við afleiðingum þeirrar verðbólguþróunar, sem nú á sér stað í efnahagsmálum landsins, en þær hljóta að verða nýtt kapphlaup milli kaupgjalds og verðlags, ef ekki er spyrnt við fæti. Heitir Bandalagið stuðningi sínum við hverjar þær ráðstafanir, sem til þess eru fallnar að stöðva þessa óheillavænlegu þróun.“

Þau samtök, sem annar helzti sérfræðingur ríkisstj. eða ráðunautur stjórnarflokkanna um efnahagsmál hefur forsæti í og hefur væntanlega mótað till. fyrir, lýsa því yfir, að hér hafi átt sér stað og eigi sér nú stað verðbólguþróun, og undirstrika, að hún sé mjög varhugaverð og hana þurfi að stöðva. Þetta er vissulega rétt, hvert orð í þessu er rétt, en það sýnir, að hæstv. ríkisstj. hefur ekki náð þeim tilgangi sínum, sem hún hefur lýst og margundirstrikað, að koma á jafnvægi í fjármálum landsins. Hvorugt markmiðið hefur náðst, hvorki frjálsa verzlunin né jafnvægi í fjármálum þjóðarinnar.

Í þessu sambandi er líka rétt að víkja svolítið að ástandinu út á við eða ástandinu í gjaldeyrismálum þjóðarinnar. Að því hafa einstakir málsvarar ríkisstj. nokkrum sinnum vikið hér í umr. á Alþingi og ekki alltaf á þann hátt, að ég telji, að algerlega hlutlaust hafi verið með farið, en það er sérstök ástæða til þess að gera sér grein fyrir gjaldeyrisástandi þjóðarinnar nú, þegar verið er að ræða um það að auka frelsið í gjaldeyrisverzlun landsmanna og sérstaklega þegar þær till. koma frá fulltrúum hv. stjórnarflokka sjálfra.

Við lok síðasta mánaðar var inneign Íslendinga í erlendum gjaldeyri 88.8 millj. kr. brúttó. Þar frá verður að draga ábyrgðarskuldbindingar bankanna, að upphæð 68 millj., svo að nettóinneign Íslendinga í erlendum gjaldeyri nam um síðustu mánaðamót 20.8 millj. kr. Þetta er ekki mikil upphæð, þegar það er haft í huga, hvernig árað hefur fyrir Íslendingum undanfarið ár, og mun ég síðar víkja að því. En sagan er þó langt frá því öll sögð með þessu. Gjaldeyrisaðstaðan er að sjálfsögðu fólgin í margs konar inneign eða skuld, og eru þar helztu þættirnir dollaraaðstaðan, aðstaðan í gjaldeyri greiðslubandalags Evrópu og í vöruskiptagjaldeyri. Um síðustu mánaðamót var aðstaðan þannig, að Íslendingar áttu allmikið fé inni í dollurum, 186.5 millj. kr., en þeir skulduðu í gjaldeyri greiðslubandalags Evrópu 75.6 millj. kr., og þeir skulduðu í vöruskiptagjaldeyri 22.2 millj. kr. Á s.l. ári hefur meira að segja skuldin við sjálft greiðslubandalag Evrópu vaxið um hvorki meira né minna en 55 millj. kr.

Sagan er þó enn langt frá því að vera öll sögð með þessu. Það er fyrst og fremst inneignin í dollurum, sem gerir það að verkum, að heildaraðstaða landsins gagnvart útlöndum í erlendum gjaldeyri er hagstæð, þótt um mjög lága upphæð sé, 20.8 millj. kr. Á öllum öðrum sviðum, gagnvart öllum öðrum löndum, skuldar Ísland verulegar fjárhæðir, samtals tæpar 100 millj. kr. En með því að segja, að nettóinnstæðan gagnvart útlöndum sé 20.8 millj. kr., er ekki allt sagt, því að hér verður að taka tillit til þess, að bankarnir gefa út ýmis greiðsluloforð, algerlega skuldbindandi greiðsluloforð í erlendum gjaldeyri, sem standa í sambandi við kerfið, sem upp hefur verið tekið við afgreiðslu á frílistavörum. Bankarnir þurfa að gefa yfirlýsingar um það til innflytjenda, að þeir muni innleysa innheimtureikninga, þegar þeir koma, fyrir vörur, sem fluttar eru inn samkv. frílista, því að með öðrum hætti hefur innflytjandinn ekki heimild til þess að gera á þeim endanlega pöntun. Bankarnir skrá þessi greiðsluloforð, sem eru algerlega skuldbindandi og jafngilda því í raun og veru gjaldeyrisgreiðslum. Við síðustu mánaðamót námu þessar gjaldeyrisskuldbindingar, þessi greiðsluloforð, 31.8 millj. kr., þ. e. meira en 10 millj. meira en nettógjaldeyrisinnstæðan nam. Í raun og veru má segja, að landið sé í meira en 10 millj. kr. skuld út á við.

Sagan er enn ekki öll sögð, vegna þess að bankarnir hafa í raun og veru tekið á sig enn meiri gjaldeyrisskuldbindingar en kemur fram í þessu, og standa þær í sambandi við bátagjaldeyriskerfið svonefnda. Það hefur verið gefið út allmiklu meira af svonefndum A-skírteinum en nemur upphæð þeirra B-skírteina, sem afgreidd hafa verið. Þau greiðsluloforð, sem bankinn veit að hann verður að inna af hendi, eru 42.8 millj. kr., þ. e. öruggt er samkv. þeim A- og B-leyfum, sem eru í umferð, að bankarnir verða að svara út 42.8 millj. kr. í erlendum gjaldeyri vegna bátagjaldeyriskerfisins.

Heildarniðurstaðan er því sú, að nettóinneign bankanna í erlendum gjaldeyri er 20.8 milljónir. Greiðsluloforð bankanna eru 31.8 milljónir, svo að þau eru 11 millj. kr. umfram nettógjaldeyrisinneignina, og ef maður bætir við öruggum og kunnum gjaldeyrisskuldbindingum bankanna vegna bátagjaldeyriskerfisins, þá verður útkoman í raun og veru gjaldeyrisskuldbinding eða neikvæð gjaldeyrisaðstaða gagnvart útlöndum um 53.9 millj. kr.

Þetta verður ekki talið glæsilegt gjaldeyrisástand, og það er sérstaklega athyglisvert, að þetta skuli vera svona þrátt fyrir hið óvenjulega góðæri, sem verið hefur hér undanfarin ár. Í þessu sambandi verður að minnast þess, að í fyrra, árið 1953, höfðu Íslendingar 213 millj. kr. gjaldeyristekjur vegna varnarliðsframkvæmdanna í Keflavík. Til ágústloka í ár höfðu þessar gjaldeyristekjur frá Keflavík numið 123 millj. kr., og má gera ráð fyrir því, að þær verði um 200 millj., heldur minna en í fyrra. Þrátt fyrir þetta og þrátt fyrir það að útflutningurinn hefur á þessu ári verið hagstæðari en líklega nokkurn tíma áður vegna hinna miklu sölusamninga við Sovétríkin, þá er ástandið í gjaldeyrismálunum ekki burðugra en þetta. Hinar miklu gjaldeyristekjur af Keflavíkurframkvæmdunum og hið mikla góðæri í utanríkisverzluninni hefði að eðlilegum hætti átt að verða til þess, að Íslendingar söfnuðu gífurlegum gjaldeyrisvarasjóðum erlendis, að þeir söfnuðu hundruðum milljóna í gjaldeyrisvarasjóðum erlendis, ef vel og skynsamlega hefði verið á haldið og ef jafnvægi hefði verið í fjármálum þjóðarinnar inn á við, en þrátt fyrir allt er niðurstaðan sú, að í raun og veru er gjaldeyrisaðstaðan, ef tillit er tekið til allra skuldbindinga, neikvæð um tæpar 54 millj. kr.

Og enn er sagan ekki öll sögð með þessu, vegna þess að hér þarf líka að taka tillit til þeirra birgða, sem Íslendingar eiga nú af gjaldeyrisvörum, og bera þær saman við þær birgðir, sem þeir áttu á sama tíma í fyrra. Ef það kæmi í ljós, að birgðirnar hefðu minnkað, þá hefði það auðvitað að öðru jöfnu átt að valda því, að Íslendingar hefðu safnað erlendum gjaldeyri, sem því svaraði. En hver skyldi vera niðurstaðan af þessu? Hún er sú, og eru þessar tölur miðaðar við 15. okt. nú í ár og 15. okt. í fyrra, að birgðir af saltfiski eru nú minni en þær voru í fyrra um 41.3 millj.; birgðir af skreið eru minni en í fyrra um 26.1 millj.; birgðir af freðfiski hafa hins vegar vaxið um 18.2 millj.; birgðir af saltsíld eru minni en í fyrra um 0.7 millj.; birgðir af lýsi eru hins vegar nokkru meiri, um 1.1 millj.; birgðir af síldar- og fiskimjöli eru einnig heldur meiri, um 1.4 millj., og af ull og gærum um 2.4 millj. Ef heildarniðurstaðan er athuguð, þá kemur í ljós, að birgðir af útflutningsvörum eru nú í haust minni en þær voru á sama tíma í fyrra um 48.8 millj. kr., svo að hin lélega gjaldeyrisafkoma á sannarlega ekki, eins og þó stundum áður, rót sina að rekja til þess, að það hafi safnazt fyrir birgðir af óseldum eða kannske illseljanlegum útflutningsafurðum. Þvert á móti; salan hefur gengið greiðar en nokkru sinni fyrr, og birgðirnar eru nú næstum 50 millj. kr. minni en áður. Samt sem áður er gjaldeyrisaðstaðan ekki burðugri en þetta.

Ef athugaðar eru þær breytingar, sem hafa orðið á gjaldeyrisaðstöðunni síðan í fyrra, þá kemur í ljós, — og það er sú tala, sem nokkrum sinnum hefur heyrzt í umræðum hér á hinu háa Alþingi, — að brúttóinneignin hefur vaxið um um það bil 20 millj. En sökum þess, að ábyrgðir hafa minnkað verulega, hefur nettóinneignin vaxið um 43 millj. kr. En í sambandi við þessar staðreyndir verður að leggja sérstaka áherzlu á, að öll aukning gjaldeyrisaðstöðunnar á rót sína að rekja til aukningar á dollarainnstæðunni. Dollarainnstæðan hefur vaxið um 70.7 millj. kr. á s.l. ári, þó að gjaldeyristekjurnar frá Keflavík hafi numið á þriðja hundrað millj. kr. á árinu. Hins vegar hefur aðstaðan í gjaldeyri greiðslubandalags Evrópu versnað og aðstaðan í vöruskiptagjaldeyri stórversnað. Það hefur verið um nettóskuldasöfnun að ræða í Evrópugreiðslubandalagsgjaldeyri um 4.1 millj., og það hefur verið um skuldasöfnun að ræða á s.l. ári í vöruskiptagjaldeyri um hvorki meira né minna en 46.1 millj., þ. e. a. s., það hefur sigið stórkostlega á ógæfuhlið, bæði hvað snertir viðskiptin við vöruskiptalöndin og löndin í Evrópu. Það, sem hefur bjargað þessu að nokkru leyti, eru hinar miklu dollaratekjur af framkvæmdunum á Keflavíkurvelli. Það eru þær, sem valda því, að þrátt fyrir um það bil 50 millj. kr. skuldasöfnun í öðrum gjaldeyri en dollaragjaldeyri hefur orðið 43 millj. kr. aukning á heildargjaldeyriseigninni.

Þessar tölur tala skýru máli um það, að hæstv. ríkisstj. hefur haldið illa á málum, að í raun og veru er hér um að ræða glæfraspil hið mesta. Stefna ríkisstj. er glæfrastefna. Það verður ekki kallað annað en glæfrastefna, þegar það gerist í mestu góðærum, sem yfir Ísland hafa gengið, samtímis því sem Íslendingar hafa um það bil 200 millj. kr. sérstakar gjaldeyristekjur á ári tvö ár í röð, að gjaldeyrisaðstaðan gagnvart útlöndum skuli vera neikvæð í raun og veru og ekki takast að bæta gjaldeyrisaðstöðuna út á við nema um einar 40 millj. kr., því að hún var enn þá verri í fyrra um þetta leyti en hún er núna.

Ég hygg því, að það væri vel, ef þessar umr. um þá till. fulltrúa tveggja þingmanna Sjálfstfl. að gefa bifreiðainnflutninginn frjálsan gætu orðið til þess að vekja menn til umhugsunar um það, að eins og nú horfir er stefnt út í bráða ófæru. Ef ekki verður snúið við á þeirri óheillabraut, sem hæstv. ríkisstjórn hefur verið að ganga, þá fer illa fyrir fjárhagskerfi Íslendinga og það áður en langt um liður.