17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 475 í D-deild Alþingistíðinda. (2793)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Gylfi Þ. Gíslason:

Herra forseti. Ég varð satt að segja alveg hissa, að hv. 5. þm. Reykv. skyldi grípa til þess að segja tölur þær, sem ég fór með um gjaldeyrisástandið, rangar, sérstaklega þegar hann nefndi, er hann var að vefengja mig, einmitt um það bil sömu tölurnar og ég hafði nefnt. Hann fór með sínar tölur eftir minni, og þær voru því ekki alveg réttar hjá honum, skakkaði svolitlu, en mínar tölur eru nákvæmlega skrifaðar upp úr skýrslum, sem hann á að hafa fyrir framan sig á skrifstofuborði sínu í bankanum, sem hann stjórnar. Ég hafði sagt, að brúttó-inneignin í lok síðasta mánaðar væri 88.8 millj. kr. Hann minnti, að hún væri um 80 milljónir. Mín tala var 8.8 millj. hærri og nákvæmlega rétt, eins og hann getur gengið úr skugga um, þegar hann kemur í skrifstofu sína að loknum þingfundi. Hins vegar ber frá þessari tölu að draga ábyrgðarskuldbindingar. Þannig er gjaldeyrisaðstaðan ávallt gerð upp. Þær nema 68 millj. kr., þannig að nettó-inneignin er 20.8 millj., eins og ég sagði áðan. Hann sagði, að sig minnti, að hún væri 25 millj. Þar skakkaði 4.2 millj. hjá honum, og lái ég honum það ekkert. Það er ekki von, að hann hafi þessar tölur allar saman í huganum. En með tilliti til þessa, að hann nefndi einmitt sömu tölurnar og ég hafði farið með, var það vissulega furðulegt, að hann skyldi viðhafa svo stór orð sem það er að segja, að annar maður fari með rangar tölur.

Hitt er svo annað mál, að ég taldi söguna ekki alla sagða með því að segja, að Íslendingar ættu 20.8 millj. kr. nettó-inneign erlendis. Ég sagði að hér þyrfti að taka tillit til þess, að greiðsluloforð bankanna vegna innflutnings til landsins samkv. frílista, algerlega skuldbindandi greiðsluloforð. hefðu um síðustu mánaðamót verið 31.8 millj. kr., og ef tekið væri tillit til þess, þá vantaði 11 millj. á, að aðstaðan væri jákvæð, þ. e. þá væri hún neikvæð um 11 millj. kr. Enn fremur bætti ég við, að ef jafnframt væri tekið tillit til greiðsluskuldbindinganna í sambandi við bátagjaldeyriskerfið, sem næmu hvorki meira né minna en 42.6 millj., þá væri aðstaðan neikvæð um 53.9 millj. kr.

Þetta eru þær staðreyndir, sem ég fór með í ræðu minni, og enga af þeim, enga þessara talna, er hægt að vefengja. Það getur hv. þm. gengið úr skugga um í skrifstofu sinni eftir klukkustund eða svo, þegar hann kemur þangað.

Það er svo auðvitað aukaatriði í þessu máli, að hv. þm. lét þess getið, þó að ég sjái nú ekki, hvaða erindi það átti inn í þessar umr., að hann vonaði, að ég hefði ekki þurft að greiða svartamarkaðsverð fyrir nýjan bíl, sem ég ek í, og það er alveg rétt hjá honum. Ég þurfti ekki að gera það, því að ég flutti bílinn inn á algerlega löglegu leyfi, eftir að ég hafði greitt öll lögboðin gjöld af því leyfi, og getur hv. þm. auðvitað gengið úr skugga um það hjá hlutaðeigandi yfirvöldum, hvenær sem honum þóknast. Þetta er þó aukaatriði, sem ekki snertir þetta mál.

Hæstv. fjmrh. mælti nokkur orð áðan, og voru þau að vísu miklu færri en við hefði mátt búast af manni, sem þó gegnir fjmrh.-stöðu í íslenzka ríkinu. Erindi hans í ræðustólinn var ekki að skýra það, hvað hafi valdið hinu óburðuga ástandi, eða afsaka það á einhvern hátt, sem þó hefði verið full ástæða til, hvernig á því stendur, að gjaldeyrisástandið er jafnhörmulegt og það er, með tilliti til hinna miklu góðæra, sem Ísland hefur notið nú undanfarið. Nei, hann átti ekki það erindi í stólinn að skýra þetta eða færa fram einhverjar afsakanir fyrir því, ekki heldur það að skýra frá því, hvað stjórnin hygðist gera á næstu árum til þess að snúa málum til betri vegar. Nei, erindi hans í stólinn var að spyrja, hvaða ráðstafanir ég vildi gera til þess að bæta úr þessu og minn flokkur.

Ég hygg nú, að hæstv. fjmrh. sé svo áhugasamur maður um stjórnmál, að hann viti svona um það bil, hvað stendur í stefnuskrá flokks míns, stefnuskrá Alþýðuflokksins. Ég hygg líka, að hann sé það áhugasamur maður um stjórnmál, að hann hafi fylgzt svolítið með því, hvaða ályktanir voru gerðar um landsmál á nýafstöðnu þingi Alþýðuflokksins. Það er þó ekki nema rúmur mánuður síðan það var haldið. Ályktanir þess voru mjög ýtarlegar og birtar í blaði flokksins, og maður skyldi halda, að hann hafi lesið þær, og þá hefði hann ekki þurft að spyrja slíkra spurninga sem þessarar. Hitt er annað mál, að ef hæstv. ráðh. vill endilega eitthvað frá mér heyra um þessi efni, þá skal ég gjarnan gera honum það til eftirlætis — þó ekki nema á örfáum mínútum — að nefna fáein atriði, sem ég teldi nauðsynleg og teldi æskilegt, að ekki stæði á honum og hans flokki að hrinda í framkvæmd.

Ég vil t. d. nefna nauðsynina á því að afnema einokunaraðstöðuna og svindlið í útflutningsverzluninni. Ég man ekki betur en hv. Framsfl. hafi fyrir nokkrum þingum einmitt flutt frv. um að afnema einokunaraðstöðuna í útflutningsverzluninni og haft þá stór orð um það, að í skjóli þessarar einokunaraðstöðu væri rekið mikið svindl, það væri haft stórfé af íslenzkum útvegsmönnum og sjómönnum einmitt með því skipulagi, sem væri á útflutningsverzluninni. Ég geri ekki ráð fyrir því, að það muni standa á stjórnarandstöðunni að ljá því máli fylgi. Ef Framsfl. flytti það aftur núna, þá yrði það samþ. þegar í stað, það er ég handviss um, og þá mundi sú ráðstöfun verða gerð, sem að dómi flokksins þá átti að hafa mikla þýðingu til þess að bæta fjárhagsástandið í landinu. En hví er þetta ekki lagað? Hví er ekki afnumin einokunaraðstaðan í útflutningsverzluninni? Það strandar á Framsfl., það strandar á því, að hann er í herleiðingu hjá Sjálfstfl.

Ég skal nefna annað. Það bæri brýna nauðsyn til þess að endurskipuleggja vinnslu sjávarafurða með samvinnusniði til þess að tryggja sjómönnum og útvegsmönnum sannvirði aflans og tryggja þeim jafnframt verzlunarhagnaðinn af ýmsum nauðsynjum útvegsins. Hví er þessu skipulagi ekki komið á? Hví hefur því ekki þegar verið komið á? Ég fullyrði: Það mundi ekki standa á stjórnarandstöðunni að ljá því lið, að þessi breyting yrði gerð. Á hverjum strandar það þá? Enginn býst við, að Sjálfstfl. muni ljá því lið, en hví ljær Framsfl. því ekki lið? Hví stuðlar hann ekki að því að endurskipuleggja vinnslu sjávarafla með samvinnusniði? Það væri hægt, ef Framsfl. mannaði sig upp í það að ljá því fylgi eða leggja það til. En hví hefur hann ekki gert það? Af því að hann er í herleiðingu hjá íhaldinu.

Ég skal nefna hið þriðja. Það væri hægt og bæri brýna nauðsyn til að afnema óhófskostnaðinn og okrið í innflutningsverzluninni. Til þess mætti gera margar ráðstafanir og margvíslegar. Áður fyrr hafði Framsfl. mörg orð um nauðsynina á slíkum ráðstöfunum og hafði uppi tillögur um það. Hví hefur þessari breytingu ekki verið komið á? Ég fullyrði enn: Það mundi ekki standa á stjórnarandstöðunni í þeim efnum. Á hverjum strandar þá? Á Framsfl. Og af hverju? Af því að hann er í herleiðingu hjá Sjálfstfl.

Ég skal nefna hið fjórða. Það þyrfti að gerbreyta skattakerfinu, þannig að skattarnir hættu að vera eins og þeir eru nú, skattar á launamenn einvörðungu og neyzlu almennings, þannig að þeir yrðu raunverulegir skattar á hina tekjuháu og ríku. Margir minnast þess, að einu sinni hafði hæstv. fjmrh. og flokksbræður hans um það mörg orð, að slíkar ráðstafanir þyrfti að gera. Ég fullyrði enn: Það mundi ekki standa á núverandi stjórnarandstöðu að ljá slíkri breytingu á skattakerfinu lið. En hví er henni ekki komið á? Það strandar enn á Framsfl. Og enn spyr ég: Af hverju? Ástæðan er alltaf sú sama: Af því að hann er í herleiðingu hjá Sjálfstfl.