17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í D-deild Alþingistíðinda. (2796)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Þegar ég heyrði hér í dag ræðu hv. 1. landsk. þm., þar sem hann sagði það sem sína skoðun, að hér væri ríkjandi verðbólguástand, og hann lýsti því, hvernig ástatt væri í ýmsu tilliti um gjaldeyrisbirgðir og annað þess konar, þá gat ég ekki stillt mig um að spyrja hann að því, af því að hann nefndi það ekki í þeirri ræðu, hvað hann áliti að gera ætti til þess að bæta ástandið. Mér lék hugur á að heyra um þetta frá honum, þar sem hann er hagfræðiprófessor.

Hagfræðingarnir kenna okkur, að verðbólga stafi af því, að peningar í umferð séu meiri en hægt sé að mæta með vöruframboði. Ég hygg, að ekki sé um þetta deilt. Þetta er það, sem hagfræðingarnir kenna okkur að sé undirstaða verðbólgu. Ég hefði þess vegna, finnst mér, mátt gera ráð fyrir því, að hv. þm. hefði farið að ræða um ráðstafanir til þess að minnka peningamagnið í umferð, þar sem hann sér nú verðbólgu. Eftir því, sem hagfræðingar skilja verðbólguástand, þá er það alveg eins og b kemur á eftir a í stafrófinu, að sé verðbólga, þá þarf fyrst og fremst að íhuga aðferðir til þess að draga úr peningaveltunni í hlutfalli við vöruframboðið. Flokksbræður þessa hv. þm. í Danmörku voru ekki í neinum vafa um það, hvað þyrfti að gera, þegar þeim fannst nú fyrir skemmstu sem þar kæmu fram verðbólgueinkenni. Þeir sögðu blátt áfram og berum orðum, að það þyrfti að minnka kaupgetuna, og gerðu ráðstafanir til þess. Ég hefði mátt standa í þeirri meiningu, finnst mér, að hv. þm. reyndi að benda okkur á úrræði frá hagfræðinnar sjónarmiði til þess að ráða bót á ástandinu. Og ég hélt satt að segja, að hann hlyti að verða feginn því að fá þetta tækifæri til þess að láta ljós sitt skína. En í þess stað brást þm. reiður við fyrirspurn minni, fannst hún algerlega ófyrirsynju og svaraði henni út í hött. Nú skal ég játa, að ég vissi fyrir fram, að þetta mundi hann gera, þó að ég spyrði hann. Ég vissi, að hv. þm. mundi svara þessari fyrirspurn út í hött. Í stað þess að ræða hér í alvöru, hvaða ráðstafanir ætti að gera frá hans sjónarmiði til þess að vinna á móti verðbólgu, þá svaraði hann alveg út í hött, fór að ræða hér um það, hvernig skyldi koma fyrir útflutningi á saltfiski, hvernig skyldi haga eignaryfirráðum og rekstraryfirráðum frystihúsa, hvort þau skyldu rekin af útvegsmönnum eða öðrum. Hvort tveggja er stórmerkilegt mál, en þau eiga ekkert skylt við það, sem ég spurði um. Enn fremur fór hann að ræða um, hvort hér skyldi vera verðlagseftirlit eða treysta á samkeppni í vöruinnflutningi. Loks sagði hann, að það ætti að taka til athugunar að breyta skattakerfinu, til þess að bæta framtöl manna. Að vísu mundi það atriði, ef í framkvæmd kæmist, geta hjálpað til að vinna á móti verðbólgu, ef bætt væru skattaframtöl manna. En við höfum rætt áður, ég og hv. þm., um þetta atriði, og þá spurði ég hann sérstaklega, hvaða ráðstafanir hann gæti bent á til þess að bæta skattaframtölin. Þá gat hann ekki bent mér á nein úrræði í þessa átt og gerði það ekki heldur núna, svo að þetta atriði verður líka einskis virði af hendi hv. þm., þegar ræða á um ráðstafanir gegn verðbólgu.

Við erum þess vegna algerlega jafnnær, eins og við mátti búast. En ofur lítið er nú þetta annað en við eigum að venjast, t. d. af þingmönnum úr hliðstæðum flokkum í nágrannalöndunum og þessi hv. þm. fyllir hér, þegar þessi mál ber á góma. Ég hef ekki orðið var við, að þeir skoruðust undan því að ræða þetta efni hreinskilnislega. Mér finnst það satt að segja sitja heldur illa á hagfræðiprófessor að svara út í hött á þann hátt, sem hv. þm. hefur gert, þykjast nánast ekki skilja, hvað átt sé við með orðunum verðbólga og verðbólguástand, því síður að hann telji sig geta bent á, um hvaða úrræði væri að velja til þess að vinna á móti verðbólgu. Loks vil ég skjóta fram: Við skulum hugsa okkur, að hv. þm. hefði lagt þessa spurningu fyrir nemanda í háskólanum: Nú er verðbólguástand í einhverju landi. Hvaða úrræði koma þá til greina til þess að vinna á móti verðbólgunni? — Nemandinn hefði svo svarað eins og þessi hv. þm. svaraði mér hér áðan. Hvaða einkunn halda menn að nemandinn hefði fengið í Háskóla Íslands hjá prófessornum?