17.11.1954
Sameinað þing: 15. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 484 í D-deild Alþingistíðinda. (2798)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Hæstv. forseti leyfði hér hv. þm. V-Húnv. að gera stutta athugasemd samkv. þingsköpum, en hann notaði allan tíma sinn til þess að gera eftir mætti tilraun til þess að gagnrýna og ráðast á framkvæmd viðskiptamálanna í þeirri stjórn, sem hann ekki einungis hefur átt sæti í, heldur og styður. Annar hv. þm. Framsfl. hefur einnig notað þetta tækifæri til þess að ræða um þá till., sem hér liggur fyrir, til þess að koma sams konar gagnrýni að. Ég hef út af fyrir mig ekkert á móti því, að menn gagnrýni framkvæmdir stjórnarinnar yfirleitt, en ég vildi gjarnan spyrja: Hvað mundi hæstv. fjmrh. segja, ef Sjálfstfl. tæki nú upp á því að gagnrýna hér hans gerðir, eftir því sem hann þættist hafa ástæðu til, og fara þar rangt með allt, eins og hv. þm. V-Húnv. gerði nú? Mundi honum þykja það bera vott um mikið fylgi frá samstjórnarflokknum, ef sá háttur væri tekinn upp? Ég held, að hæstv. fjmrh. ætti að reyna að þjálfa svo sína menn, á meðan þeir sitja í stjórn með öðrum flokki, að þeir séu ekki að stinga augun hvor úr öðrum og fara hér með alls konar ósannindi í sambandi við framkvæmdir málanna. Ég held, að það væri ákaflega hollt fyrir hann að venja þá á slíka siði. Skal ég svo snúa mér að málinu sjálfu.

Ég geri ráð fyrir því, að þessi till. fari til n. og umr. verði frestað. Benti hv. þm. N-Þ. á hér áðan, að það væri ýmislegt, sem æskilegt væri að hv. n. athugaði í sambandi við þetta mál, og vil ég gjarnan taka undir það. Hann minntist hér á, hvort ekki ætti að leyfa frjálsan innflutning á byggingarvörum, bátum, skipum og vélum, beltisdráttarvélum og krönum, saumavélum og læknistækjum og ýmsu öðru. Í sambandi við þetta vildi ég þá gjarnan spyrja hv. þm., hvort ekki væri rétt, að n. athugaði þá einnig, hvort hún vildi skipa þessum vörum undir sömu tollflokka á eftir og hugsað er að skipa þeim vörutegundum, sem hér um ræðir. Sannleikurinn er sá, að hæstv. ríkisstj. hefur farið inn á þá leið að reyna að gefa sem mest frjálsan innflutning á vörum, sem eru ekki taldar jafnnauðsynlegar og þær vörur, sem hér voru taldar upp af hv. þm., en því hefur fylgt sá böggull, að af þessum vörum, sem settar eru á frílista, hefur orðið að greiða gífurlega hátt innflutningsgjald, sem síðan er notað til þess að framleiða nýjan gjaldeyri, sem hefði ekki annars verið framleiddur í landinu. Það á m. ö. o. að fá með þessari ráðstöfun nýtt framlag af gjaldeyri, sem a. m. k. er jafnmikið og sá gjaldeyrir er, sem eytt er fyrir þessa vöru, og kannske miklu meiri.

Ef þannig ætti að fara með alla vöruflokka í landinu, svo sem byggingarvörur og þær vörur aðrar, sem hv. þm. N-Þ. talaði um, er bezt að spyrja um það um leið: Vill hann, að þessi böggull sé líka látinn fylgja rýmkun á innflutningi á þessum vörum? Ég vildi gjarnan heyra álit hv. n. um það atriði, þegar frá henni kemur nál.

En það er ýmislegt fleira, sem þarf að athuga í þessu máli. Það hafa verið færð fram rök fyrir því hér. að það séu mjög mikil líkindi til þess, að bílainnflutningurinn verði ekki meiri en hann hefur orðið á þessu ári, þó að hann verði gefinn frjáls. En hver er þá ástæðan fyrir því, að hér hafa risið upp þrír hv. þm. úr Framsfl. og mótmælt því, að þannig yrði farið að? Í því sambandi vil ég benda á, að síðan fjárhagsráð var lagt niður, hefur úthlutun bílanna verið í höndum tveggja manna, þeirra Odds Guðjónssonar frá Sjálfstfl. og Jóns Ívarssonar frá Framsfl. Það hefur líklega ekkert mál skapað jafnmikla óánægju meðal landsmanna og þetta mál. Hér kennir hvor öðrum um. Hér er sagt af Framsfl., að það sé að kenna Oddi Guðjónssyni, og Framsfl. lætur sitt blað mjög taka undir það, samtímis því sem það gerir árásir á hæstv. viðskmrh. fyrir það, að það sé hann, sem eigi sökina á þessu ástandi öllu og allri þeirri óánægju, sem því fylgir. Hins vegar eru ýmsir aðrir menn, sem þykjast hafa eins mikla ástæðu til þess að segja, að þetta sé eins mikið eða meira að kenna Jóni Ívarssyni og að hann með Framsfl. á bak við sig eigi alla sök á þessu. Á þetta ætla ég ekki að leggja neinn dóm, en það væri ákaflega gott, að einmitt hv. form. allshn., sem ég hygg að sé hv. 1. þm. Eyf., leiti um þetta upplýsinga hjá ráðuneytinu, hvað sé satt í þessum ummælum. Það getur vel verið, að það gæti eitthvað skýrt málið, þegar það kemur aftur hér til umr.

En það er fleira en þetta, sem þarf að athuga. Það ganga mjög miklar sögur um það, kannske sannar að einhverju leyti, kannske að öllu leyti, — ég skal ekkert um það segja, — en þær eru a. m. k. mjög háværar, og ég veit, að það er þó nokkur fótur fyrir því, að mörg undanfarin ár hafi úthlutunarlistinn legið hjá stærsta bílainnflytjanda landsins, Sambandi íslenzkra samvinnufélaga, löngu áður en hann var gerður opinber, svo að með þessu fyrirkomulagi hafi þessi innflytjandi getað verið búinn að flytja svo og svo mikið af þessari vöru til landsins á undan öðrum, sem ekki vissu jafnsnemma, hvort þeir fengju nokkur leyfi eða ekki. Og það væri ákaflega gott, ef n. vildi rannsaka, hvað satt er í þessu. Og það er enn fremur haft í hámælum, að þessi sami innflytjandi hafi látið liggja orð að því, að hann væri fær um að geta komið í gegn leyfum fyrir þessa sömu aðila, sem leyfin voru búnir að fá. Ef þetta er svo, þá er ákaflega skiljanlegt, að þeir vilji ekki láta breyta fyrirkomulaginu. Væri ákaflega gott og fróðlegt fyrir landsfólkið að fá að heyra eitthvað um þessi atriði.

Og það er enn fleira, sem þarf að athuga. Það þarf að athuga hvað mikið sé rétt í þeim orðrómi, að Samband íslenzkra samvinnufélaga, sem eins og ég tók fram áðan er einn stærsti bílainnflytjandinn í ár, liggi sí og æ með svo og svo miklar birgðir af bílum hér í Reykjavík án þess að hafa getað selt þær fyrr en leyfin eru afhent. Hvernig eru þær fluttar inn, og með hvaða gjaldeyri eru þær greiddar? En það er vitanlegt, að þeir hafa aukið stórkostlega sölu á bifreiðum vegna þeirrar aðstöðu, sem þeir hafa haft þannig, að geta haft hér óátalið svo og svo mikið af bifreiðum liggjandi og geta selt þær fyrirvaralaust.

Og það þarf enn fleira að athuga en þetta hér. Þegar hæstv. viðskmrh. og hæstv. ríkisstj. ákvað, að það skyldi lagður sérstakur skattur á innflutning bíla til þess að bjarga útveginum á þessu ári og að enginn bíll skyldi afhentur fyrr en búið væri að borga inn allt fob-verð bílanna, eins og þegar hefur verið upplýst, — hvað skeður þá? Þá skeður það, að Sambandið, — og nú mæli ég ekki af því að ég hafi heyrt þessa sögu, heldur af því að ég veit það, — sem hefur haft á þessu ári um 47% af öllum innflutningi bílanna, býður viðkomandi kaupanda að leggja fram sem lán í 18 mánuði fob-verð bílanna og upphefur þar með þá ráðstöfun, sem hæstv. ríkisstj. gerði til þess, að þetta yrði ekki til verðþenslu í landinu, því að þetta var vitanlega gert til þess, að þeir einir gætu nú pantað bíla, sem hefðu féð handbært til þess að kaupa þá. Og ef svo þessi sami aðili fer niður í Landsbanka til þess að auka þar yfirdrátt sinn til þess að geta lánað þetta fé eða tekur þetta fé einhvers staðar annars staðar frá að láni, þá held ég, að það sé ekki verið að gera þjóðinni neinn greiða með slíkri ráðstöfun. En þetta veit ég að er satt, vegna þess að aðrir innflytjendur bíla hópuðu sig saman á eftir, þegar þannig átti að taka frá þeim allan bílainnflutninginn, og neyddu Sambandið til þess að skrifa undir samning um að falla frá þessu aftur. En það var ekki Sambandinu að þakka. Og ef það liggur á bak við andstöðu framsóknarmanna hér í þinginu að halda þessu kerfi, þá get ég vel skilið ræður þeirra.

Allar þessar upplýsingar, sem ég er að ræða um hér, ættu að liggja fyrir, áður en málið kemur til framhaldsumræðu, og þó einkum ef svo skyldi fara, að málið næði ekki fram að ganga á þessu þingi.

Þá vildi ég enn beina einni fyrirspurn til hv. n., hvort ekki sé rétt, ef málið verður afgreitt frá henni á einn eða annan hátt, að setja það í þál., að þessum viðskiptum bæri frekar að beina til vöruskiptalandanna, þ. e. til þeirra landa, sem við höfum vöruskiptasamning við, heldur en til þeirra annarra landa eins og Ameríku, sem hafa engan vöruskiptasamning. — Þetta þótti mér rétt að láta koma fram hér við umr.