15.12.1954
Efri deild: 34. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 162 í B-deild Alþingistíðinda. (280)

13. mál, aðstoð við togaraútgerðina

Bernharð Stefánsson:

Herra forseti. Ég hef skrifað undir nál. sjútvn. á þskj. 296 fyrirvaralaust. Og af því leiðir að sjálfsögðu, að ég mun greiða frv. því, sem hér liggur fyrir, atkv. óbreyttu. Ég hef því ekki neina sérstöðu í n., sem ég þarf að gera grein fyrir. Samt sem áður þykir mér þörf á því að segja hér örfá orð og þá fyrst og fremst til að taka það fram, áður en þetta frv. gengur hér í gegnum hv. d., að ég lít á þetta sem hreint neyðarúrræði, og það gera líklega flestir. En ég sé ekki, að neitt annað sé hægt að gera nú á elleftu stundu, ef togaraútgerðin á ekki að stöðvast eftir áramótin, með ófyrirséðum afleiðingum, en að minnsta kosti slæmum afleiðingum fyrir land og þjóð. Hins vegar er mér það alveg ljóst, að þá braut, sem verið er á að því er atvinnuvegina snertir, verður ekki hægt að halda til langframa öðruvísi en að illa fari.

Hv. 10. landsk. þm. flutti hér brtt. og talaði fyrir þeim og einnig um málið almennt. Ég ætla ekki að svara hans ræðu, það hefur hæstv. forsrh. gert. Og ef hv. frsm. n. þykir þörf á að svara þeirri ræðu að einhverju leyti fyrir n. hönd, þá mun hann að sjálfsögðu gera það. En þó eru það ein eða tvær athugasemdir, sem ég vildi gera.

Hv. þm. tók það réttilega fram, að n. hefði haft lítinn tíma til þess að athuga þetta frv. Þess ber þó að gæta, að þm. yfirleitt hafa haft allt þingið til þess að íhuga málið, því að málið var lagt fyrir þingið fljótt eftir setningu þess, og meira að segja áður en þing kom saman var það öllum þm. og landslýð vitanlegt, að á þessu máli þyrfti að taka á Alþingi.

Eitt af því, sem hv. 10. landsk. þm. kvartaði um í þessu sambandi, var það, að ekki hefði gefizt tími til þess að tala við forsvarsmenn togaraútgerðarinnar og vita, hvort þeir teldu þá hjálp, sem í frv. fælist, fullnægjandi. Í þessu sambandi dettur mér í hug fjvn. Ef fjvn. hefði þann hátt á að kalla þm. hvers kjördæmis og segja: Ég hef nú hugsað mér að leggja til, að þitt kjördæmi fengi hálfa milljón í hinar og aðrar framkvæmdir, telur þú það fullnægjandi? — ja, ég er ákaflega hræddur um, að fæstir þm. mundu svara því játandi, að þeir teldu það fullnægjandi. Og eins og tíðarandinn er orðinn, þá hygg ég, að það séu ákaflega fáir, sem eygja einhver fríðindi, að þeir játi því í byrjun, að það, sem þeim er boðið, sé fullnægjandi og þeir séu ánægðir með það, meðan þeir kunna að hafa von um að fá meira. Ég held því, að þetta hafi ekki beinlínis verið neitt þjóðráð. Hitt var auðvitað annað mál, að ef n. hefði sjálfstætt getað rannsakað líklegar tekjur og gjöld togaranna og myndað sér sjálfstæðar skoðanir um það, hvað mikla hjálp togaraútgerðin þyrfti að fá, þá hefði það verið gott. Það gat sjútvn. Ed. ekki gert vegna tímaskorts. En eins og hér hefur komið fram og hæstv. forsrh. margtekið fram, þá starfaði að þessum málum n. í sumar, sem rannsakaði hag togaraútgerðarinnar óhlutdrægt, og frv. er einmitt á hennar till. byggt.

Hv. 10. landsk. þm. minntist hér á gengislækkunina og taldi hana síður en svo hafa orðið til bjargar atvinnuvegum þjóðarinnar, heldur væri hún það þungbærasta, sagði hann, sem á þá hefði verið lagt. Það má að vísu endalaust deila um þetta, en ég hygg, að margir skynbærir menn líti þannig á, að eins og þá var ástatt, þegar gengislækkunin var gerð, ef ekki hefðu komið ófyrirséðar breytingar á verðlagi og öðru slíku, þá hefði hún verið fullnægjandi fyrir útflutningsatvinnuvegina, til þess að þeir gætu orðið reknir með sæmilegum árangri. En það komu fljótt eftir gengislækkunina ófyrirséðir atburðir, einkum voru þeir í tvennu fólgnir. Annað var öllum Íslendingum ósjálfrátt, það var verðlækkun á útlendum mörkuðum. Hitt var í raun og veru stjórn og þingi sjálfrátt, a.m.k. að nokkru leyti, og það var, að ekki var haldið við gengislögin eins og þau voru, heldur heyktist bæði þing og stjórn á því að framfylgja þeim ráðstöfunum, sem í fyrstu voru í gengislögunum gerðar.

Hv. 10. landsk. þm. sagði, að það væri öllu stefnt í voða, ef ekki yrðu gerðar sérstakar ráðstafanir til bjargar. Ég býst við, að þetta sé rétt, ef svo horfir um afkomu aðalatvinnuvegar þjóðarinnar sem verið hefur, að þá sé öllu stefnt í voða. En hver á að gera þessar ráðstafanir? Frá hans sjónarmiði sjálfsagt þing og stjórn. Og það er orðinn hugsunarháttur í landinu, að það opinbera, ríkisvaldið, eigi að bjarga öllu við og sjá um allt. Það á sem sagt að þjóðnýta töp á öllum atvinnurekstri, en að vísu ekki að þjóðnýta hagnað, ef einhver yrði. Ég verð nú að segja það hreint eins og það er, að ég veit ekki, hvar þetta lendir, og skil ekki, að það lendi í öðru en öngþveiti. Og ég sé ekki, hver getur haft gagn af því til lengdar, þegar allir þjóðfélagsþegnarnir lifa að meiru og minnu á styrkjum. Þá gengur það þannig fyrir sig, svo að tekið sé einfalt dæmi, að hv. 10. landsk. rekur atvinnu og fær til þess styrk, sem ég borga. Ég rek aðra atvinnu og fæ til þess styrk, sem hann borgar. Ég sé ekki, hvaða gagn við tveir höfum af þessu. Meðan það eru ein eða tvær þjóðfélagsstéttir, sem fá styrk og reka sína atvinnu með styrkjum, þá getur verið gagn að því, og hinir borga. Og nú er það einmitt með togarana, að það voru bjartar vonir bundnar við þá, að það væri nú það eina, sem öruggt væri. En svo er komið, að þeir þurfa að fá styrk. Og vitanlega er þetta allt af einum og sama toga spunnið. Það er ekki gengisfallinu að kenna. Það er þeirri kröfupólitík, sem í raun og veru allar stéttir þjóðfélagsins reka nú á dögum, sem þetta er að kenna.

Ég held, að það væri tími kominn til að gera ráðstafanir til frambúðar, þó að nauðsynlegt sé að samþykkja þetta frv. nú. En ég held, að þær ráðstafanir yrðu tryggastar og beztar þannig, að þjóðfélagsstéttirnar gerðu þessar ráðstafanir sjálfar með sanngjörnum allsherjarsamningum um það, hvernig afrakstri af vinnu þjóðarinnar yrði sanngjarnlega skipt. Og ég sé ekki annað, ef slíkir samningar geta ekki komizt á, en að þá muni og verði fyrr eða síðar að koma einhvers konar valdboð í því efni, annars geti þjóðfélagið alls ekki staðizt.

Þetta eru nú aðeins hugleiðingar, sem ég vildi láta fylgja því, að ég sjálfur neyðist til að greiða þessu frv. atkvæði nú, af því, eins og ég tók fram í upphafi, að þegar þingið er nú að skilja fyrir jólin og verður töluvert þinghlé, þá er ekkert annað ráð fyrir hendi. Ráðstafanir til frambúðar, hvort sem þær væru gerðar með frjálsum samtökum eða með valdboði, þurfa auðvitað mikinn undirbúning og íhugun, og er ekki um þær að ræða nú eða til þess að bjarga togaraútgerðinni á næstu vertíð.

Um brtt. hv. 10. landsk. þm. skal ég ekki ræða. Hæstv. ráðh. hefur rakið þær og gert grein fyrir ástæðunum til þess, að hvað sem um hverja einstaka þeirra má segja, þá eru ekki ástæður til þess nú að rugla málið með því að samþ. neina þeirra. En út af einni þeirra, till. um það, að frjáls skuli vera innflutningur á þeim bifreiðum, sem togaraskatturinn er lagður á, skal ég geta þess, að sams konar till. liggur fyrir Alþ. og er til meðferðar í n., sem ég sjálfur á sæti í, og ég hef ekki orðið annars var, þó að sú nefnd hafi ekki afgr. málið enn, en að það væru allir nm. sammála um að afgreiða þá till. jákvætt, þó að það sé ef til vill ágreiningur um einstök atriði, sem þó er ekki komið skýrt í ljós. Ég held, að ég megi fullyrða það, að Alþ. fær tækifæri til þess á sínum tíma, þegar það kemur aftur saman, að greiða atkv. um það, hvort allur bifreiðainnflutningur á að vera frjáls, eða þá sá bifreiðainnflutningur, sem hér um ræðir, og ekki þurfi því að samþykkja till. hv. þm. um þetta atriði, jafnvel ekki af þeim, sem eru því mjög fylgjandi að gefa bifreiðainnflutning frjálsan.