02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 500 í D-deild Alþingistíðinda. (2804)

76. mál, frjáls innflutningur bifreiða

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Eftir að ég hafði tekið hér til máls við þessa umr. fyrir nokkrum dögum, stóð hæstv. fjmrh. upp og mælti þessi orð, með leyfi hæstv. forseta:

„Það eru aðeins fáein orð út af því, sem hv. þm. Barð. sagði. Hann gat ekki stillt sig um að koma hér inn í þingsalinn með róg um Sambandið, sem maður er nú orðinn svo vanur að heyra úr herbúðum sjálfstæðismanna. Það er enginn hissa á því lengur, þó að eitthvað heyrist úr þeirri átt svipað því, sem hv. þm. sagði hér áðan.“

Svo hélt hæstv. ráðh. áfram að tala mjög ósmekklega og óþinglega og óráðherralega um alls konar gróusögur og alls konar Gróur, sem voru í pilsum og buxum eða pilslausar og buxnalausar, í sambandi við þetta mál.

Nú vildi ég segja hæstv. ráðh. það í fullri einlægni og í fullri vináttu, að hann bætir ekkert málstað S. Í. S., þó að hann sé að koma með slíkar fullyrðingar hér á Alþingi. Það hefði verið miklu nær fyrir hann að taka undir þá till. mína að láta þingnefnd, hv. þingmenn, athuga þessi mál, eins og ég benti á, heldur en að vera að hafa hér svo óþinglegar og hálfleiðinlegar fullyrðingar eins og hann hafði um þetta mál, sem honum er nú ekki að jafnaði eiginlegt. Allur þingheimur og öll þjóðin þekkir þá haftastefnu, sem Framsfl. er alþekktur af. Hann hefur barizt fyrir henni árum saman, og það er ekki neitt nýtt, að hann vill ekki losa um verzlunarhöftin í landinu. Þetta er baráttumál, sem ekki þarf að hafa um neinar slíkar fullyrðingar eins og hæstv. ráðherra hafði hér um daginn í sambandi við þetta mál. Nú er liðin sú tíð, og það er öllum hv. alþingismönnum og öllum Íslendingum kunnugt, að Íslendingar máttu aðeins verzla við ákveðna aðila að viðlagðri hýðingu, og það þýðir ekkert fyrir hv. Framsfl. eða yfirleitt neina hv. þm. að ætla að sveigja málin inn á þessa braut aftur, eins og hvað eftir annað hefur mátt skilja á þeim till., sem Framsfl. hefur borið fram í viðskiptamálum þjóðarinnar undanfarin ár m. a. eins og þegar hann barðist fyrir því að gera öll innflutningsleyfin að innkaupaseðlum o. s. frv. Og það er einnig viðurkennt, og það skal viðurkennt af mér hér að gefnu tilefni, að S. Í. S. gegnir svo mikilvægu og merkilegu hlutverki, að gagnrýni á þau samtök og opinberar umræður um Sambandið og þá starfsemi verður ekki talið neinn rógur, siður en svo, heldur bein og sjálfsögð afleiðing af áhrifum þessara samtaka á afkomu þjóðarinnar. Þess vegna á hæstv. ráðherra, sem situr nú, að ég hygg, jafnvel í stjórn eða a. m. k. mjög framarlega í þessum félagsskap, að taka öllum slíkum umræðum með geðprýði, en ekki að þjóta upp á nef sér, eins og hann gerði hér um daginn út af þessu máli. Ég vil í sambandi við það leyfa mér að benda á, að Framsfl. hefur leyft sér slíka gagnrýni á annað félag hér í þessu landi, Eimskipafélag Íslands, og ekki dregið neitt úr því, og það hefur engum manni dottið í hug að vera að halda, að hann væri þar sem Gróa á Leiti pilslaus eða buxnalaus. Hann hefur aðeins verið að gagnrýna það, sem honum hefur þótt miður fara í framkvæmd þess félagsskapar, af því að þetta er félagsskapur allra landsmanna. — Slíkt og þvílíkt er ekki frambærilegt í lýðfrjálsu landi, þar sem bæði ríkir ritfrelsi, málfrelsi og skoðanafrelsi. Maður skyldi halda, að hæstv. ráðherra hefði verið nýkominn úr skóla frá hv. 2. þm. Reykv., er hann þýtur upp með svona orðbragð að tilefnislausu.

Ég leyfi mér því að vísa öllum þessum ummælum hæstv. ráðh. til föðurhúsanna og vænti þess, að hann fallist á, að athugað verði í þingnefndinni, hvort S. Í. S. hafi haft hér nokkur forréttindi fram yfir aðra innflytjendur. Ef svo er ekki, þá má það gjarnan verða heyrinkunnugt, og þá skal ég verða fyrstur manna til þess að viðurkenna það. Hitt er svo vitanlegt, að þessi orðrómur, sem ég minntist á hér, er svo á hvers manns vörum hér, bæði hér í bænum og víðar á landinn, að hann verður ekki kveðinn niður eingöngu með því, þó að hæstv. ráðh. hlaupi upp taugaveiklaður og kalli: Rógur, rógur, rógur!

Ummæli hæstv. ráðh. um vanrækslu tollstjórans í sambandi við þetta mál eru beinlínis sögð út í bláinn og sanna betur en nokkuð annað, að ráðh. var ekki vel ljóst, hvað hann sjálfur var að segja um þetta mál. vegna einhverrar taugaveiklunar, sem jafnan grípur hann, þegar farið er að ræða um Sambandið eða þau mál, sem alveg sérstaklega Framsfl. tileinkar sér.

Væntanlega athugar svo n. öll þessi mál, þegar till. kemur þangað. Ég býst við, að till. fái þar nokkra breytingu, en geymi mér hins vegar allan rétt til þess að gera brtt. við tillöguna, ef hún kemur óbreytt frá nefndinni.

Ég vil þó rétt aðeins að gefnu tilefni frá hv. 2. þm. Reykv. segja hér nokkur orð. Það var ekki að heyra annað á ræðu hans en ég hefði ljóstrað upp einhverjum óttalegum leyndardóm hér í stjórnarsamvinnunni. Hvað sagði ég svo um þetta mál? Ég sagði hér orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Í því sambandi vil ég benda á, að síðan fjárhagsráð var lagt niður hefur úthlutun bílanna verið í höndum tveggja manna, þeirra Odds Guðjónssonar frá Sjálfstfl. og Jóns Ívarssonar frá Framsfl.“

Ég verð að segja: Er þetta nokkuð nýtt fyrir hv. þm.? Er verið að ljóstra hér upp einhverju hneyksli? Var honum ekki kunnugt um þetta? Ég held, að hann hafi lagt í þetta einhvern allt annan skilning en hægt er að lesa út úr þessum orðum, og ég held, að hvaða hv. þm. sem er hefði getað talað þessi orð hér án þess að fá nokkurn sérstakan stimpil um það, að hann talaði djarflega. Ég sé ekki annað en þetta sé það, sem allur almenningur veit í landinu. Hitt get ég svo upplýst, að Oddur Guðjónsson telur sig engan veginn vera fulltrúa sjálfstæðismanna eingöngu í nefndinni, þó að hann sé sendur þangað af sjálfstæðismönnum, síður en svo. Hann hefur einmitt alveg sérstaklega talið sig vera embættismann þjóðarinnar á þessu sviði, og það er þess vegna, að mörgum sjálfstæðismönnum mun hafa fundizt, að gangan væri nokkuð erfið til Odds Guðjónssonar, vegna þess að hann hefur aldrei lagt flokksmælikvarða á sín störf frekar en Magnús Jónsson gerði sem formaður fjárhagsráðs á sínum tíma. Þetta er einnig hv. 2. þm. Reykv. vel kunnugt um.

Ég skil ákaflega vel þá gremju, sem kom fram hjá hv. þm. um að hafa misst þá aðstöðu að mega ekki vera oddaatkvæði í þeim n., sem fara með mikilsverð mál hér í landinu, því að það væri ekkert óhentugt fyrir stjórnarandstæðinga að geta haft slíka aðstöðu. Hæstv. forsrh. skýrði þetta svo greinilega, að ég þarf ekki að eyða um það mörgum orðum, en vildi þó aðeins spyrja hv. þm. út af ummælum hans: Þætti honum það vera eðlilegt, að hann væri t. d. kjörinn af Alþingi sem form. fjvn., meðan hann er í stjórnarandstöðu, og bæri þar af leiðandi ábyrgð í n. á fjármálaafgreiðslunni, án þess þó að hann vildi bera ábyrgðina fyrir þinginu og þjóðinni? Þætti honum það ákaflega eðlilegt? (Gripið fram í.) Honum þætti víst ákaflega þægilegt að eiga slíka aðstöðu, en hvort honum þætti það eðlilegt, það er annað atriði. Það er nefnilega ákaflega eðlilegt, að þegar menn hafa tekið að sér einhverja ábyrgð og einhver störf, þá séu það þeir, sem fá að ráða þeim málum, en ekki hinir mennirnir, sem aldrei þorðu að taka ábyrgðina og gerðu sig ósamstarfshæfa til þess að hafa ábyrgðina á hendi, eins og þessi hv. þm. og hans flokkur hafa gert nú um langt skeið. Eða hver var ástæðan fyrir því, að breyta varð með þingsköpum skipun utanríkismálanefndar? Var það af því, að hans flokksfulltrúi væri að hugsa um hagsmuni þjóðarinnar eða hagsmuni þess hluta Alþ., sem fór með umboð meiri hluta þjóðarinnar; var það þess vegna, sem varð að breyta þeim? Nei, það var fyrst og fremst vegna þess, að þessir fulltrúar voru að hugsa um hagsmuni allt annarrar þjóðar gegn hagsmunum Íslendinga, að gera varð þetta. Og sama er nákvæmlega að segja um ýmis önnur störf í öðrum nefndum, að það er ekki hægt að trúa neinum óábyrgum manni til þess að hafa oddaaðstöðu í afgreiðslu slíkra mála, enda er það vitað, eins og hæstv. ráðh. tók fram, að Sósfl. og þeirra fulltrúar höguðu sér á engan annan hátt í málunum, meðan þeir fóru með völd. Ég held, að Áki Jakobsson hafi nú ekki alltaf valið sjálfstæðismenn ti1 þess að gegna fulltrúastörfum fyrir sig í hinum ýmsu nefndum og ráðum, þar sem flokkurinn þá hafði aðstöðu til þess að koma mönnum að. Eða kannske það hafi verið þetta, sem vakti fyrir sósíalistunum, þegar þeir studdu Hannibal Valdimarsson sem forseta fyrir Alþýðusambandinu, að þeir hafi verið að hugsa um Alþfl.? Það hefur kannske verið það, sem þeir voru að hugsa um, — eða þeir hafa verið að hugsa um ríkisstjórnina eða þegnana í landinu yfirleitt? Nei, það er alveg áreiðanlegt, að þeir voru fyrst og fremst að hugsa um að reyna að koma að sínum sundrungaráhrifum í þjóðfélaginu. Það var fyrst og fremst, sem vakti fyrir þeim. Og hvenær sem þeir eru að reyna að komast að samkomulagi við Framsfl. um eitthvert mál, sem þeir vita að er andstætt Sjálfstfl., þá er það til þess að reyna að spilla samstarfinu á milli samstarfsflokkanna, þjóðinni til óhagnaðar, en ekki af því, að þeir séu að hugsa um velferð Framsfl. eða Sjálfstfl. út af fyrir sig. Þeir eru eingöngu að hugsa um að koma spillingunni að í stjórnmálalífinu. Þetta ætti hv. þm. að hugsa betur um, áður en hann heldur svo snjalla ræðu um þessi mál eins og hann hélt áðan.