20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 519 í D-deild Alþingistíðinda. (2820)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Flm. (Sigurður Bjarnason):

Herra forseti. Það er öllum hv. þm. kunnugt, að árin áður en gerðar voru ráðstafanir til aukinnar verndar íslenzkra fiskimiða, fór afli hér suðvestanlands hjá bátaflotanum mjög þverrandi ár frá ári. Af þessu leiddi svo það, að hlutir sjómanna fóru lækkandi og öll afkoma þeirra og útgerðarinnar versnaði með hverju árinu sem leið. Síðan hins vegar að flóunum hefur verið lokað hér, Faxaflóa og Breiðafirði, hefur þetta á skömmum tíma snúizt við. Fiskigengd hefur aukizt á grunnmið vélbátaflotans og aflinn á þeim tveimur árum, sem liðin eru síðan flóunum var lokað, aukizt mjög verulega. Hlutir sjómanna hafa hækkað og aðstaða útgerðarinnar batnað.

Að sjálfsögðu hlýtur öll þjóðin að fagna þessari þróun í fiskveiðamálunum hér í þessum landshluta. Fyrir dyrum stóð ekkert annað en eyðilegging þessara einhverra fiskisælustu miða við strendur landsins. Löng barátta hafði verið háð fyrir friðun Faxaflóa, barátta, sem hafði verið studd fyllstu rökum, en engu að síður hafði svo að segja engan árangur borið.

En jafnhliða því sem þessi þróun hefur gerzt hér við Faxaflóa og við Breiðafjörð, að fiskigengd hefur aukizt á mið vélbátaflotans og afkoma hans og sjómanna hans batnað, hefur annar landshluti sérstaklega orðið fyrir stórfelldu áfalli. Það eru Vestfirðir. Á sama tíma sem hinum stóra erlenda togaraflota, sem sótti á miðin hér suðvestanlands, hefur verið stuggað þaðan burt af miðum vélbátaflotans, hefur honum svo að segja verið hleypt í túnið hjá vestfirzkum sjómönnum og útgerð. Ásókn innlendra og erlendra togara hefur stóraukizt á fiskimiðin fyrir Vestfjörðum. Hún hefur aukizt svo, að á aðalvertíðinni, vetrarvertíðinni, má segja að togaraflotinn hafi myndað vegg úti fyrir norðanverðum Vestfjörðum. Þó að komið hafi fiskigöngur í nokkra daga og góður afli verið á miðum vestfirzka vélbátaflotans, hefur hann þorrið svo að segja í einu vetfangi. Togaraflotinn hefur uppurið þessa fiskigengd upp á grunnmiðin fyrir Vestfjörðum, og vélbátaútgerðin hefur orðið að búa við þrengri kost en nokkru sinni fyrr.

Þetta er staðreynd, sem ekki verður gengið á snið við. Því er þannig háttað, að á sama tíma sem stórum svæðum af fiskimiðum vélbátaflotans hér suðvestanlands hefur verið lokað fyrir botnvörpuveiðum með fyrrgreindum friðunarráðstöfunum, hafa fiskveiðitakmörkin færzt sáralítið út fyrir Vestfjörðum. Þar hafa ekki verið neinir stórir flóar til þess að loka með sömu reglu og beitt hefur verið hér við Suðvesturland. Fiskveiðitakmörkin hafa víðast hvar aðeins færzt út um eina sjómílu, og af því hefur, eins og að líkum lætur, orðið hverfandi lítið gagn.

Málin horfa þá þannig við, að í stað þess að friðunarráðstafanirnar hafa fært sjómönnum hér suðvestanlands stórfelldar kjarabætur og bætta aðstöðu, hafa þær leitt til þess, að útgerð Vestfirðinga hefur orðið fyrir stórfelldu skakkafalli, svo miklu skakkafalli, að það er ekki orðum aukið, að við borð liggi landauðn í þeim landshluta, ef ekki verða gerðar sérstakar ráðstafanir til þess að hlaupa undir bagga með útgerðinni þar. Því miður er þetta ekki of djúpt tekið í árinni, enda er líka svo komið, að á einstökum vertíðum hafa Vestfirðingar orðið að flýja sínar eigin verstöðvar og sín eigin mið hingað til Suðvesturlandsins.

Þetta er því ömurlegra sem það er vitað, að úti fyrir Vestfjörðum eru ein fiskisælustu mið landsins, mið, sem ausið hefur verið upp af óhemjuafla á undanförnum áratugum, ekki aðeins af innlendum og erlendum togurum, heldur og af vestfirzkri vélbátaútgerð og vestfirzkum sjómönnum. Það er af þessari lýsingu, sem ég hef gefið hér í fáum orðum af áhrifum friðunarinnar, augljóst, að ekki verður hjá því komizt að gera sérstakar ráðstafanir til þess að hlaupa undir bagga með atvinnulífinu á Vestfjörðum. Til þess eru að áliti okkar flm. þessarar þáltill. ýmsar leiðir. Ég skal ekki fara út í að rekja þær ýtarlega hér. Ég vil aðeins drepa lauslega á nokkrar þeirra.

Sú, sem liggja ætti beinast við að farin yrði, útfærsla fiskveiðitakmarkanna lengra út, virðist í bili vera ógreiðfær, ef ekki gersamlega ófær. Öll þjóðin veit, hversu erfiðlega hefur gengið að fá viðurkenndar þær ráðstafanir, sem íslenzka þjóðin hefur þegar gert til verndar fiskimiðum sínum. Hversu miklu erfiðara yrði þá ekki að halda lengra áleiðis á þeirri braut nú þegar? Að sjálfsögðu er það skoðun mín eins og allra annarra, að í þá átt beri auðvitað að stefna, að í framtíðinni verði fiskveiðitakmörkin enn færð út, og að lokatakmarkið í þeim efnum sé ekkert annað en friðun alls landgrunnsins. En því miður, Vestfirðingar og aðrir landsmenn verða að átta sig á staðreyndum, þeim staðreyndum, að það stendur óbilgjörn klöpp í veginum fyrir frekari útfærslu fisveiðitakmarkanna í bili. Og ég held, að það sé ekki að líta raunsætt á málin að byggja meginvonir sínar um lagfæringu í þessum efnum á frekari útfærslu fiskveiðitakmarkanna fyrir Vestfjörðum, a. m. k. í bili, þó að ég sé sammála þeim mönnum, sem markað hafa stefnuna: friðun alls landgrunnsins, og þá einnig úti fyrir Vestfjörðum.

En hvað annað kemur þá til greina, fyrst þessi leið virðist því miður ekki vera fær í bili? Fyrst og fremst tvennt, að mínu viti: Að styðja vestfirzka útgerð til þess að eignast stærri skip og betri framleiðslutæki, þannig að hún geti sótt björg í bú á þau mið, sem er verið að þurrausa fyrir augunum á henni. Vestfirzkir sjómenn og útgerðarmenn þurfa m. ö. o. að fá fleiri stór og fullkomin veiðiskip, sem sótt geti út á djúpmiðin. Ég á hér að sjálfsögðu fyrst og fremst við togara og skip af öðrum stærðum, eftir því sem reynslan kynni að leiða í ljós að hentug væru.

Vestfirðingar hafa á undanförnum árum gert út nokkra togara, flesta þeirra nýja, og ég hygg, að það sé ekki ofmælt að segja, að af útgerð þeirra hefur orðið stórkostleg atvinnubót. Þar sem ég þekki bezt til, á norðanverðum Vestfjörðum, við Ísafjarðardjúp, hygg ég að hefði dunið atvinnuleysi og hálfgert hallærisástand yfir almenning kaupstaða og sjávarþorpa, ef ekki hefði verið hafin þar togaraútgerð.

En Vestfirðingar þurfa að fá fleiri slík stór og fullkomin veiðiskip til þess að geta sótt á eigin mið. En jafnhliða þurfa þeir að skapa sér bætta aðstöðu til þess að geta unnið afla þessara skipa. Það er öllum kunnugt, að síðan togararnir hættu að sigla til Bretlands, hefur orðið stórkostleg atvinnubót að löndun afla þeirra hér í landi. Frystihúsin hafa fengið stórum aukið hráefni, og rekstrartími þeirra hefur lengzt að miklum mun. Vitanlega hlýtur það að verða þannig, að þessi dýru iðnfyrirtæki, hraðfrystihúsin, starfi svo að segja allt árið. Það er ekkert vit í því, að svo dýr framleiðslutæki séu ekki rekin nema kannske rúmlega hálft árið eða svo og síðan gangi almenningur um atvinnulítill við vegg þessara framleiðslutækja þess í milli. Að því verður þess vegna að stefna, að unnt sé að reka þessi dýru tæki allt árið, en það verður ekki gert nema með því, að togurunum sé fjölgað. Ég hygg þess vegna, að þó að togaraútgerðin hafi í bili átt erfitt uppdráttar, þá sé það raunhæfasta leiðin til atvinnubóta víðs vegar um land um þessar mundir, að hið opinbera styðji einkaframtakið og einstök byggðarlög til þess að eignast fleiri togara, þannig að varanlegri atvinnu verði haldið uppi við fiskiðnaðinn í kaupstöðum og kauptúnum á allri strandlengju landsins.

Ég minnist þess, að fyrir ég hygg tveimur árum flutti ég ásamt nokkrum fleiri hv. þm. frv. hér á Alþ. um það að heimila ríkisstj. að styðja tvö byggðarlög á Vestfjörðum, Ísafjarðarkaupstað og Bolungavík, til þess að eignast 2 togara til viðbótar þeim togaraflota, sem þegar er gerður út við Ísafjarðardjúp. Þessu máli var vel tekið hér á hv. Alþingi. Því miður varð reyndin sú, að svo margir höfðu áhuga á því að koma sínum byggðarlögum á framfæri í sambandi við afgreiðslu þess, að málið var orðið það viðamikið, að ekki þótti tækt að afgreiða það. Mig minnir, að það hafi verið búið að samþykkja að heimila ríkisstj. stuðning við ein sex eða átta kauptún og kaupstaði til kaupa á togurum. Nú er ég sannfærður um það, að flest þessi byggðarlög, ef ekki öll, hafa þurft á þeirri atvinnubót að halda, sem í því fólst, að útgerð togara yrði hafin þar. En ég hygg, að heppilegri háttur í þessum efnum væri sá, að ákveðið væri, að ríkið beitti sér fyrir því, að tvö eða þrjú togskip yrðu byggð á ári til atvinnubóta og atvinnujöfnunar við sjávarsíðuna, heldur en að ákveðið yrði með einum lögum, að byggður skyldi t. d. tugur slíkra skipa. Ég held, að það væri skynsamlegt, að Alþ. og ríkisstj. beittu sér fyrir því nú, að ákveðið yrði, að á næstu fimm árum t. d. yrðu byggðir tveir togarar af hentugri stærð á ári fyrst og fremst með það fyrir augum að úthluta þeim til þeirra staða, sem hafa orðið fyrir barði atvinnuerfiðleika af völdum friðunarinnar hér suðvestanlands, — og þar á ég við Vestfirði, — og enn fremur til þeirra byggðarlaga, sem nú standa uppi í algerum vandræðum eftir tíu ára síldarhallæri. Ég held, að þetta sé mál, sem fyllilega er þess vert, að því sé hreyft einmitt í sambandi við þá till., sem hér liggur fyrir.

En það er ekki nóg, að greidd verði gata vestfirzkra sjómanna og útgerðarmanna til þess að eignast stærri skip. Það þarf jafnframt að stuðla að auknum fiskiðnaði á ýmsum þessum stöðum, þannig að unnt verði að hagnýta allan þann afla, sem veiddur er á vestfirzkum fiskimiðum, hvort sem hann er fluttur að landi á togurum eða vélbátum. Ég sé á þessu stigi málsins ekki ástæðu til þess að fara miklu fleiri orðum um þessa till., en ég vil aðeins undirstrika það, að þessar ráðstafanir verður að gera. Það er ekki hægt, með þá geysilegu atvinnu, sem nú er hér við Faxaflóa, m. a. af völdum landvarnaframkvæmda, að ætlast til þess, að fólk uni úti á landi í atvinnulitlum sjávarbyggðum. Það er þýðingarlaust að tala um jafnvægi í byggð landsins, ef ekkert verður að gert í þessum efnum.

Með till. þessari er lagt til, að ríkisstj. láti í samráði við sýslu- og bæjarfélög á Vestfjörðum fara fram skjóta athugun á því, hvernig við skuli brugðið í þessum málum. Að slíkri athugun lokinni kæmi það síðan í hlut þings og stjórnar að bera fram till. um raunhæf úrræði til þess að leysa þann vanda, sem heilum landshluta hefur borið að höndum vegna þeirra ráðstafana, sem gerðar hafa verið og öll þjóðin fagnar, til verndar fiskimiðunum í kringum allt landið, þó að þannig hafi til tekizt með fiskimið Vestfirðinga.

Ég leyfi mér, herra forseti, að óska þess, að till. verði að lokinni þessari umr. vísað til 2. umr. og hv. allshn.