20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í D-deild Alþingistíðinda. (2821)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Magnús Jónsson:

Herra forseti. Þessari till., sem hér liggur fyrir, mun væntanlega verða vísað til n. og gefast kostur á að ræða hana nánar, eftir að hún kemur þaðan, en mig langaði þó við þessa umr. til þess að segja nokkur orð í framhaldi af þeirri ræðu, sem hv. 1. flm., þm. N-Ísf., flutti.

Till. þessi ræðir að vísu aðeins um vandamál útgerðarinnar á Vestfjörðum, en hér er þó ekki um að ræða nema hluta af miklu stærra vandamáli, eins og frsm. líka kom nokkuð inn á. Það er alveg rétt hjá honum, að útgerð fyrir Vestfjörðum hefur átt við mikla erfiðleika að stríða vegna þess, að togarar hafa safnazt þar mjög á miðin, og kannske meiri erfiðleika af þeim sökum en víða annars staðar á landinu. En hins vegar er því ekki að leyna, að víða um land er um svipaða erfiðleika að ræða, þótt af öðrum orsökum kunni að vera. Og ástæðan til þess, að ég stend hér upp, er fyrst og fremst sú, að hv. frsm. vék einmitt.að einni nauðsynlegri ráðstöfun, sem hann taldi vera, og kannske þeirri mikilvægustu, til þess að aðstoða útgerðina á Vestfjörðum og efla þar og halda uppi nauðsynlegu atvinnulífi, en þá ráðstöfun tel ég að þurfi að gera miklu víðar um land. Hann minntist á það, að hér hefði verið áður til meðferðar í þingi till. um það að veita ríkisábyrgð til kaupa á togurum fyrir nokkra staði. Meðal þeirra staða, sem þar var um að ræða og ég sérstaklega þekki til, voru Ólafsfjörður og Dalvík í Eyjafirði, sem óskuðu eftir eða lagt var til að veitt yrði hliðstæð aðstoð öðrum bæjarfélögum í þessu efni. En þannig vildi til um þessa staði, að þegar nýju togararnir tíu voru seldir, þá höfðu þeir sameiginlega óskað eftir því að fá einn togara keyptan og boðið til þess fulla greiðslu, svo sem tilskilið var, en hins vegar var ekki talið fært að verða við þeirri ósk, heldur voru togararnir látnir á aðra staði og það enda þótt þar kæmi lítil sem engin greiðsla á móti. Ég skal ekki út af fyrir sig lasta þá ráðstöfun. Hún hefur vafalaust verið þörf að því leyti til, að þessir staðir hafi haft mikla nauðsyn fyrir það að fá þessi afkastamiklu framleiðslutæki, en hinu er þó ekki að leyna, og reynslan hefur sýnt það síðar, að það var ekki síður þörf fyrir þá staði, sem ég minntist á, að fá svipaða aðstoð og fyrirgreiðslu.

Það er alveg rétt, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, að þótt að vísu atvinna sé nú mjög mikil víða og þá sérstaklega hér suðvestanlands, þá horfa þannig sakir varðandi ýmis útgerðarpláss á landinu, að þar er við mjög mikla atvinnuörðugleika að stríða. Bæði kemur þar til greina hið svokallaða árstíðabundna atvinnuleysi, sem alltaf fylgir útgerðinni, þ. e. a. s. bátaútgerðinni, og enn fremur hitt, að síldveiði hefur gersamlega brugðizt nú um heilan áratug, en margir staðir hafa að verulegu leyti byggt afkomu sína einmitt á síldveiðum. Þetta veldur því, að við er að stríða mikla erfiðleika á ýmsum þessum stöðum að halda gangandi þar atvinnulífi, sem veitt geti íbúum staðanna fulla atvinnu, þannig að fólk hefur í stórum stíl þurft að leita burt til annarra staða. Það liggur í augum uppi, að ráðstafanir, sem gerðar eru til þess að tryggja svokallað jafnvægi í byggð landsins, hljóta fyrst og fremst að miða að því, að full atvinna geti verið á öllum þessum stöðum víðs vegar um land, þannig að fólk þurfi ekki að leita frá heimkynnum sínum til annarra staða. Það er auðvitað ekki hægt við það að ráða, þótt aflabrestur verði, hvort sem það er á síldveiðum eða öðrum veiðum, en það kann þó að vera hægt að gera ýmsar ráðstafanir til að bæta úr þessu.

Ég sé nú í sannleika sagt ekki, að önnur ráðstöfun sé líklegri til að bæta þennan vanda, eins og sakir standa, heldur en að auka útgerð togara. Það er að vísu svo, að togaraútgerðin á við erfiðleika að stríða hvað snertir hennar rekstur, en það breytir ekki þeirri staðreynd, að með togurum er hægt að hafa nokkurn veginn trygga útgerð og það meginhluta ársins, þannig að ef afli er lagður á land, þá er um að ræða nokkuð samfellda vinnu. Þessi staðreynd veldur því, að ég hygg, að það verði naumast um aðra heppilegri ráðstöfun að ræða og ráðstöfun, sem jafnframt verði raunverulega ódýrari fyrir ríkisvaldið, en þá að reyna að hlutast til um, að þeir staðir, þar sem aðstaða á annað borð er fyrir hendi til þess að nýta afla togara, fái aðstöðu til að fá slíkan afla til vinnslu. Og þess vegna er það, að þessi hjálp, sem hér hefur verið bent á að kæmi mjög til greina varðandi vestfirzka útgerð, kemur vitanlega einnig til greina víðs vegar annars staðar um land, t. d. norðanlands, þar sem afkoma manna hefur að verulegu leyti byggzt á síldveiðum og bátaútgerð og veiði hefur verið tiltölulega mjög lítil. Ef halda á þar við byggð í því formi, sem hún hefur verið, og koma í veg fyrir, að fólkið flytji þaðan burt, þá sýnist ekki annað tiltækilegra ráð fyrir hendi en reyna að stuðla að því, að þaðan geti verið útgerð togara eða að togarar leggi þar upp sinn afla. Þetta held ég að verði raunhæfasta leiðin til þess að leysa þetta mikla vandamál, og ég held, að það verði ógerlegt að komast hjá því lengur að gera einhverjar ráðstafanir í þessa átt, vegna þess að það er engum efa bundið, að ef það er ekki gert, þá er fyrir hendi mjög alvarlegur flutningur fólks úr ýmsum sjávarplássum úti um land til staða hér sunnan- og suðvestanlands, þar sem atvinna er nægileg og þar sem meira að segja atvinna er það mikil, að það er frá því sagt í útvarpsfréttum, að fólk geti þar unnið svo að segja eins lengi og það getur á fótum staðið og að skip verði jafnvel að bíða heila sólarhringa eftir afgreiðslu. Það gefur að skilja, að þegar slíkar fréttir berast, sem ekkert er nema gott um að segja, þá verkar það þannig á það fólk, sem annars staðar á landinu á við mikla örðugleika að stríða, að því sýnist, að hér sé um slikt gósenland að ræða hér syðra, að það vilji fremur hingað fara, ef ekki er eitthvað til þess gert að efla atvinnulíf á viðkomandi stöðum.

Ég ætla ekki að eyða um þetta frekari orðum, en að gefnu tilefni frá hv. flm. í hans glöggu og vel athuguðu ræðu vildi ég láta þetta sjónarmið koma fram, áður en málið færi til meðferðar í nefnd, að hér er um ráðstafanir að ræða, sem vissulega hafa mjög mikilvæga þýðingu fyrir ekki aðeins Vestfirðinga, heldur hljóta einnig að koma mjög til álita varðandi atvinnuaukningu á fleiri stöðum á landinu. Því hlýtur það að koma mjög til athugunar í sambandi við þetta mál, hvaða ráðstafanir almennt væri hægt að gera og nauðsynlegt að gera til þess að koma í veg fyrir, að um verði að ræða óeðlilega jafnvægisröskun byggðarinnar, og komið yrði í veg fyrir það, að ýmis útgerðarpláss, sem annars eru að mörgu leyti mjög vænleg til útgerðar og geta orðið það síðar meir, jafnvel þó að erfiðleika sé við að etja nú, meðan ekki er nema að nokkru leyti kominn sá árangur, sem vonir standa til með stækkun landhelginnar, að þá verði í bili einmitt gerðar einhverjar ráðstafanir til að tryggja, að þessi pláss fari ekki að meira og minna leyti í auðn vegna þess, að þar sé um stundarsakir við slíka erfiðleika að stríða. Það eru vissulega einnig vonir manna, sem ekki er ástæða til að halda að séu alveg út í bláinn, að þó að síldveiði hafi brugðizt í einn áratug, þá séu líkur til þess, að svo muni ekki verða um alla framtíð, heldur að hér sé um eitthvert millibilsástand að ræða og að því geti vel svo farið, að þeir staðir, sem nú eiga við erfiðleika að stríða af þeim sökum, geti unnið sitt mikilvæga starf síðar í framleiðslu þjóðarinnar, ef úr rætist með þessa útgerðargrein.

Það er engum efa bundið, að þetta er stórt og mikilvægt mál, sem er gott að hreyft hefur verið hér á hinu háa Alþingi og ég tel, að nauðsynlegt sé, að tekið sé til sem allra rækilegastrar yfirvegunar, og ekki aðeins það, heldur til sem skjótastrar úrlausnar.