20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í D-deild Alþingistíðinda. (2824)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Jónas Rafnar:

Herra forseti. Ég vil ekki dæma um möguleikana fyrir því að færa út fiskveiðitakmörkin fyrir Vesturlandi. Ég geri ráð fyrir því, að þegar fiskveiðilandhelgin var færð út, þá hafi okkar færustu sérfræðingar gengið þar eins langt og þeir þorðu. Hins vegar er ljóst, að þetta mál verður að athugast mjög gaumgæfilega og hiklaust að ganga eins langt og frekast er kostur á.

En að þessu atriði slepptu er það augljóst, að það verður sem allra fyrst að gera einhverjar ráðstafanir til þess að hjálpa útgerðinni á Vesturlandi og Norðurlandi. Útgerðin í þessum landshlutum hefur á síðustu árum orðið fyrir hverju áfallinu af öðru. Ofan á síldveiðibrestinn, sem á okkur hefur dunið eftir sumarið 1944, hefur hvað eftir annað orðið stórkostlegur aflabrestur á togveiðunum fyrir Norðurlandi.

Það hefur verið bent á það hér í umræðunum, að öruggasta leiðin til úrbóta fyrir þessa staði væri að fá togara, sem geta leitað út á djúpmiðin og fært þaðan björg í búið. Þetta er alls kostar rétt, að þessum stöðum verður áreiðanlega ekki bjargað nema með aukinni togaraútgerð, en í því sambandi vil ég leyfa mér að benda á eitt atriði, sem ég tel engu síður mikilsvert, og það er, að þessum stöðum séu skapaðir möguleikar til þess að nýta aflann. Það hafa verið færð rök fyrir því á óyggjandi hátt, að togaraútgerðinni sé langsamlega bezt borgið með því, að togaraútgerðarmenn eða útgerðarfélögin vinni sjálf úr aflanum, og mér er þetta sérstakt áhugamál, þar sem í mínu kjördæmi eru núna reknir 5 togarar, en við höfum ekki enn þá haft aðstöðu til þess að vinna aflann í landi með öðrum hætti en að hengja hann upp í fiskhjalla til þurrkunar eða þá að salta hann. Það er því engu síður þýðingarmikið, að gerðar verði ráðstafanir til þess að skapa þessum útgerðarstöðum einmitt aðstöðu til þess að nýta aflann.

Það mun liggja fyrir, að ríkisstj. hafi gert ráðstafanir til þess að útvega erlendis frá fé til ýmissa framkvæmda hér á landi. Nú er svo háttað, að ýmsir landshlutar, eins og Norðurlandið og Vesturlandið, hafa orðið ákaflega hart úti. Við höfum orðið fyrir mörgum skakkaföllum í sambandi við síldveiðibrest og aflabrest á þorskveiðum, og ofan á allt þetta hefur það skeð, að aðrir landshlutar hafa fengið óvenjulega mikla möguleika til þess að draga fólkið að sér. Ofan á þá vinnu, sem hér sunnanlands er í sambandi við varnarliðið, hefur verið hér mikil síldveiði í Faxaflóa, og ýmsir bjargræðisvegir opnast hérna fyrir fólkið, sem áður kvað ekki eins mikið að.

Það má því segja, að Norðlendingar og íbúar Vesturlandsins séu í sérstakri hættu staddir, og ég vil bókstaflega gera kröfu til núverandi ríkisstj., að hún noti það fé, sem e. t. v. kann að fást, einmitt til þess að byggja upp þessa staði. Það er nauðsynlegt, að þetta sé gert fyrr en siðar, því að dráttur í þessum efnum skapar eingöngu aukna örðugleika, og fram hjá því verður aldrei gengið, að það verður að skapa fólkinu í þessum landshlutum engu síður möguleika til þess að bjargast heldur en þeim, sem búa hér við Faxaflóa.