20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í D-deild Alþingistíðinda. (2828)

22. mál, rányrkja á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Við 1. umr. fjárlaganna í Sþ. um daginn gat hæstv. fjmrh. þess, að það sé sannarlega ástæða til þess að gleðjast yfir því, að allir hafi nú atvinnu og að menn í þessu landi búi nú almennt við kjör, sem þoli fyllilega samanburð við það, sem sé annars staðar. Ég verð að segja það, að ég varð undrandi yfir þessum ummælum hæstv. ráðh. Ég taldi mig það kunnugan a. m. k. atvinnuástandi í Norðlendingafjórðungi, að þessi ummæli hæstv. ráðh. hafa hlotið að verka á norðlenzkt verkafólk, sem nú gengur atvinnulaust í hundraðatali, sem hrein og bein fjarstæða, svo að ekki sé meira sagt. Annaðhvort er, að hæstv. fjmrh. hefur mjög óglöggt yfirlit yfir atvinnuástand hinna ýmsu kaupstaða og kauptúna á Vestur-, Norður- og Austurlandi, eða hitt, að ráðherrann hefur ekki viljað viðurkenna staðreyndir. En staðreyndirnar eru þær, að í öllum þessum landsfjórðungum hefur verið og er enn, því miður mjög alvarlegt atvinnuástand.

1952 skipaði ríkisstj. atvinnumálanefnd ríkisins. Þessi n. skyldi rannsaka atvinnuástand hinna ýmsu staða, aðallega á Norður- og Vesturlandi. Það var mjög mikið verkefni, sem þessari n. var falið að vinna, og hún lauk ekki störfum eða sendi ekki frá sér skýrslu um sín störf fyrr en í marz s. l. vetur. Í þessari skýrslu, sem ég tel að sé mjög fróðlegt plagg, eru margar, miklar og merkilegar upplýsingar. Það liggja fyrir frá nefndarinnar hálfu skýrslur frá að mig minnir 44 kauptúnum og kaupstöðum á landinu. Á öllum þessum stöðum vantar tilfinnanlega atvinnutæki, svo sem skip, hraðfrystihús, beinamjölsverksmiðjur og margt og margt fleira. Á sumum af þessum stöðum er eitthvað af þessum tækjum til, víða eru þau mjög úr sér gengin. Það, sem er áberandi og sérstaklega kemur víða fram í nefndarálitinu, er það, að víðast hvar vantar rekstrarfé, svo að hægt sé að reka þau atvinnutæki, sem til eru. N. virðist hafa tekið þetta starf sitt allalvarlega, og hún gerir till. til úrbóta fyrir alla þessa staði.

Maður skyldi nú ætla, þegar ríkisstj. hefur skipað n. í ákveðnum tilgangi, að þá sé það ekki gert til þess aðeins að sýnast, aðeins til að slá ryki í augun á fólkinu, aðeins til þess að svæfa það í bili frá því að gera ákveðnar kröfur til úrbóta á vandræðum sinum. En a. m. k. það sem af er þessu þingi hefur verið ótrúlega hljótt um störf þessarar n., og ekkert liggur hér fyrir um það, hvað ríkisstj. hyggst gera og hváð hún ætlar sér að taka upp af þeim till., sem atvinnumálanefndin gerði til úrbóta á atvinnuástandi hinna ýmsu staða. Nú má vel vera, að hæstv. ríkisstj. sé ekki búin að ganga frá því, sem hún ætlar sér að leggja til að gert verði til úrbóta á atvinnuástandi hinna ýmsu staða. Færi betur að svo væri og að við mættum eiga von á að fá einhverjar till. frá hennar hálfu í þessa átt.

Ég get tekið undir flest eða öll þau ummæli, sem hér hafa komið fram hjá þeim hv. þm., sem hafa kvatt sér hljóðs um þá þáltill., sem hér liggur fyrir. Reyndar hafa umræðurnar ekki eingöngu snúizt um þáltill. sjálfa sem ráðstafanir vegna vaxandi rányrkju á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum, heldur snúizt upp í það að verða umræður um atvinnuástandið almennt, og það bregður svo við, að þeir af þm. úr stjórnarflokkunum, sem hér hafa talað, segja ástandið allt öðruvísi í atvinnumálunum en hæstv. fjmrh. vildi vera láta í útvarpsræðu hér við 1. umr. fjárlaganna. Hv. þm. N-Ísf. lýsir því með mjög sterkum orðum, hvað atvinnuástandið sé örðugt og erfitt í sínu kjördæmi og í Vestfirðingafjórðungi almennt. Hv. þm. Ak. gerði slíkt hið sama og hv. þm. Eyf. gerði líka slíkt hið sama. Ég veit, að þessir menn eru mjög kunnugir í sínum kjördæmum og þeir vita alveg um, hvernig ástandið er. Það gleður okkur þm. sósíalistanna alveg sérstaklega, að þessir þingmenn skuli nú hafa kveðið upp úr með það hér á Alþ., að það sé hin mesta nauðsyn, að þing og ríkisstj. taki þessi mál til alvarlegrar íhugunar og aðgerða. Í tíu ár hafa t. d. síldveiðarnar brugðizt fyrir Norðurlandi. Þessi atvinnuvegur, síldveiðarnar, hefur verið aðalundirstaðan undir lífsafkomu heilla byggðarlaga, sem telja svo að skiptir þúsundum íbúa. Þegar aðalatvinnuvegurinn hrynur svo gersamlega eins og hér er raun á, þá geta menn sett sig inn í það, hvernig aðstaða þessa fólks muni hafa verið og sé, enda er svo komið, að frá fjölmörgum stöðum á Norðurlandi og sjálfsagt á Vestfjörðum líka er stöðugur straumur af fólki hingað til Suðvesturlandsins. Það er út af fyrir sig fullkomið áhyggjuefni, ef sú þróun á að verða áfram í atvinnumálum okkar, að heil byggðarlög þurfa máske að leggjast í eyði fyrir það, að fólkið fær ekki atvinnu. Við höfum séð, hvernig byggðarlög hafa lagzt í auðn, m. a. á Vestfjörðum, fyrir það að það opinbera var ekki nóg á verði fyrir því að bjarga fólkinu frá því að þurfa að flýja bú sín og heimili til annarra staða. Það flytur enginn frá öðrum eða hinum staðnum frá eigum sínum, nema það telji þess fulla þörf, sjái ekki möguleika til að geta lifað á þeim stað, þar sem það hefur í upphafi myndað heimili og ætlað sér að eiga heima áfram.

Ég vil alveg sérstaklega undirstrika ummæli, sem hv. þm. Ak. viðhafði hér áðan. Hann sagðist krefjast þess af ríkis stj., að veitt yrði fjármagn til uppbyggingar atvinnuveganna í Norðlendingafjórðungi og á öðrum þeim stöðum á landinu, þar sem atvinnuleysi væri nú. Ég vil alveg sérstaklega undirstrika þessi ummæli. Og ég veit, að hann hefur mjög sterka aðstöðu einmitt til þess að láta þessi ummæli verða meira en orðin tóm. Hann er m. a. stuðningsmaður núverandi ríkisstjórnar. Hér hafa fjórir þingmenn, sem allir eru stuðningsmenn núverandi ríkisstj., kvatt sér hljóðs og krafizt aðgerða fyrir þessi byggðarlög og önnur þau, sem búa við hið alvarlega atvinnuleysi.

Ég get líka undirstrikað það, sem kom hér fram hjá hv. þm. A-Húnv., að mér finnst of langur sá frestur, sem getið er um hér í lok þessarar þáltill., að n., sem talað er um að kjósa, skuli hafa lokið störfum og skilað áliti til ríkisstjórnarinnar fyrir 1. marz 1955. Ég hefði talið sjálfsagt, að þessi n. skilaði áliti nú þegar á þessu þingi. Við erum búnir að fá meira en nóg af því, að það séu skipaðar og kosnar nefndir, sem telja sig þurfa svo og svo langan tíma til rannsókar á þeim verkefnum, sem viðkomandi nefndum eru falin. Því miður hafa framkvæmdir á því, sem nefndirnar leggja til, ekki orðið eins hraðar og æskilegt væri.

Er skemmst að minnast á atvinnumálanefndina, sem ég minntist á í upphafi máls míns, þar sem ekkert er farið að heyrast frá núverandi ríkisstj., hvað hún hyggst gera við þær till., sem þar liggja fyrir.

Ég skal svo ekki fjölyrða um þetta mál frekar. Ég vildi aðeins nota tækifærið, úr því að þetta mál barst hér á góma í hv. Alþ., að lýsa mínum stuðningi við allar þær ráðstafanir, sem fram eru komnar eða fram kunna að koma og gætu orðið til þess að draga úr því neyðarástandi, sem ég tel að ríki í vissum landshlutum hvað atvinnu snertir. Við þm. sósíalista munum á þessu þingi flytja frv. í sambandi við ráðstafanir, sem við teljum að sé nauðsynlegt að nú þegar verði gerðar í þessum málum.