20.10.1954
Sameinað þing: 4. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 545 í D-deild Alþingistíðinda. (2835)

30. mál, hagnýting vinnuafls

Flm. (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Þáltill. sú, sem hér um ræðir og prentuð er á þskj. 30, fjallar um það, að skipuð verði fimm manna nefnd til að gera allsherjaráætlun um hagnýtingu vinnuafls í þágu íslenzkra atvinnuvega, með sérstöku tilliti til þess, að unnt verði að veita þeim stóra hópi Íslendinga, sem nú starfa á vegum erlends herliðs í landinu, arðbæra atvinnu við þjóðnytjastörf. Við flm. þessarar till. lítum svo á, að hér sé hreyft við afar mikilvægu máli, sem ekki megi slá á frest að taka til alvarlegrar athugunar, ef ekki á að bíða í aðgerðaleysi og sinnuleysi eftir því, að þúsundir Íslendinga verði skyndilega atvinnu- og staðfestulausar.

Skoðanir okkar Íslendinga á herstöðvasamningnum við Bandaríkin og dvöl hins erlenda herliðs í landinu eru sem alkunnugt er ákaflega skiptar. Margir — og þeir gerast æ fleiri — eru sömu skoðunar og við flm. þessarar till., að herstöðvar útlends herliðs í okkar fámenna landi séu mikið böl og tefli þjóðinni í bráðan og augljósan háska. Aðrir segja, að hervarnarsamningurinn hafi að vísu verið réttlætanlegur, þegar hann var gerður árið 1951, vegna þess að þá hafi ófriðvænlega litið út í heiminum. Sumir þessara manna telja heimsástandið hafa tekið þeim breytingum síðan, að þær forsendur, sem í þeirra augum réttlættu svonefnda hervernd hér fyrir hálfu fjórða ári. séu með öllu brostnar.

Enn hafa aðrir látið þá skoðun í ljós, að þó að viðsjár í heiminum hafi minnkað allverulega hin síðustu missiri, sé tæplega enn tímabært, eins og þeir orða það, að segja upp herstöðvasamningnum, en viðurkenna hins vegar, að það beri að gera strax og friðarhorfur eru að þeirra dómi sæmilega öruggar. Þó að slíkt orðalag sé að vísu í óákveðnara lagi, virðist mér augljóst, að þeir menn, er þessu halda fram, telji aðeins tímaspursmál, hvenær við eigum að segja upp samningnum og losna við allan her úr landinu. Þá eru enn ríkjandi þau sjónarmið hjá ýmsum og þá einkum forustumönnum núverandi stjórnarflokka og hinum þægustu fylgjendum þeirra, að herstöðvar skuli vera hér og herlið um óákveðinn tíma, en jafnvel þeir menn, sem þannig líta á málin, viðurkenna, a. m. k. í orði kveðnu, — hvað þeir hugsa í leynum hjartans, velt ég ekki, — að herstöðvar hér á friðartímum og erlent herlið sé tímabundið ástand, en ekki varanlegt. Enn sem komið er hef ég engan ábyrgan Íslending heyrt halda því fram, að hér eigi að sitja útlendur her um aldur og ævi.

Það mun því leitun á þeim manni, sem fæst til að viðurkenna, að hann líti á vinnu Íslendinga á vegum erlends herliðs í landinu sem annað en tímabundið fyrirbæri, er hljóti að hverfa úr sögunni fyrr eða síðar, og sem betur fer fjölgar stöðugt þeim, er mundu vilja bæta við, að það ástand ætti að hverfa fyrr en síðar. Og jafnvel þó að svo kunni að vera, að þeir menn séu til hér á landi, er hafa slíka rótgróna ótrú á íslenzku þjóðinni, atvinnuvegum hennar og afkomumöguleikum, að þeir telja hana ekki geta komizt af án ameríska gullsins, og kynnu að vilja fórna sæmd hennar. svo að sá gullstraumur megi halda áfram, þá er engan veginn víst, að þeim verði lengi að þeirri ósk sinni. Sú stund mun trúlega renna upp án tillits til þess, hvað Íslendingar vilja og gera, að Bandaríkin hætti hér hernaðarframkvæmdum. Því getur margt valdið: breytt ástand í alþjóðamálum, breytt hernaðartækni, sem drægi mjög úr mikilvægi herstöðva hér á landi í augum Bandaríkjamanna, eða einfaldlega sú staðreynd, að þeir teldu sig hafa búið hér nægilega rammlega um sig og álitu frekari framkvæmdir óþarfar. Allt ber því að sama brunni: Íslendingar hljóta að líta á vinnuna á vegum herliðsins sem tímabundið fyrirbæri.

Frá sjónarmiði okkar þjóðvarnarmanna og annarra þeirra, sem telja lífsnauðsyn, að herstöðvasamningnum sé sagt upp svo fljótt sem lög framast leyfa, og leggja áherzlu á það, að öllum hernaðarviðbúnaði í landinu sé tafarlaust hætt, er það eitt af meginviðfangsefnum næstu mánaða og missira, að íslenzkum atvinnuvegum verði gert kleift að taka við öllu því fólki, sem nú vinnur alls konar störf í þágu hersins, svo að það geti á ný horfið til lífvænlegrar og þjóðnýtrar atvinnu. Hinir, sem ekki hafa enn þá viðurkennt nauðsyn þess, að herinn hverfi nú þegar eða sem fyrst úr landi, ættu þrátt fyrir allt, er á milli ber, að geta orðið sammála um það, að ekki megi láta öllu lengur dragast úr hömlu að hefja undirbúning að því að taka við fólkinu, sem hjá hernum starfar nú, svo að ekki blasi við því algert öngþveiti, þegar þær framkvæmdir dragast saman eða hætta með öllu. Vafalaust er hv. alþm. fyllilega ljóst, að þetta er mikið verkefni og engan veginn auðleyst. Hins vegar verður það að leysast, og við þjóðvarnarmenn a. m. k. erum sannfærðir um það, að hægt er að leysa það farsællega, ef fullur vilji er fyrir hendi og ekki er beðið með undirbúning allan þar til í eindaga er komið. Til margvíslegra úrræða verður að sjálfsögðu að grípa. Núverandi aðalatvinnuvegir þjóðarinnar geta tvímælalaust tekið við nokkrum, ef til vill allmiklum hluta þessa fólks, ef beitt er skynsamlegum aðgerðum í atvinnu- og efnahagsmálum, en auk þess ber vafalaust nauðsyn til að undirbúa rekstur nýrra atvinnugreina, einkum í iðnaði. Á sviði atvinnulífs okkar má engin kyrrstaða verða, heldur ör og stöðug þróun. Landsbúum fjölgar ört, og árlega bætast við þúsundir vinnufúsra handa, sem eiga kröfu á því að geta unnið fyrir sér við íslenzk framleiðslustörf. Það virðist því liggja beint við, að þeir fjármunir, sem nú koma inn í landið vegna hinnar tímabundnu herstöðvavinnu, séu notaðir til eflingar íslenzku atvinnulífi, en ekki í eyðslueyri, svo að hægt sé að mæta áhyggjulítið eða áhyggjulaust þeim viðhorfum, sem hljóta að skapast, þegar hin niðurlægjandi og óæskilega herbúnaðarvinna er úr sögunni.

Við flm. þessarar till. leggjum til, að í þeirri n., sem ráðgert er að skipuð verði til að gera áætlanir um hagnýtingu alls vinnuafls í þágu íslenzkra atvinnuvega, eigi sæti fulltrúar frá öllum stjórnmálaflokkum. Þegar slíkar nefndir eru skipaðar — nefndir, sem eiga að rannsaka og undirbúa stórmál — virðist eðlilegt, að að því sé stefnt, að fram komi sem flest sjónarmið, sem flestum sé gert kleift að bera þar fram ábendingar og tillögur um hagkvæma lausn vandamála. Á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að ræða í einstökum atriðum verkefni þeirrar n., sem við leggjum til að skipuð verði.

Ég vil að lokum leggja ríka áherzlu á nauðsyn þess, að hafizt verði sem fyrst handa í þessu efni og fljótt og vel að málum unnið. Að svo mæltu legg ég til, að þessari till. verði að lokinni fyrri umr. vísað til síðari umr. og hv. fjvn.