22.10.1954
Sameinað þing: 6. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í D-deild Alþingistíðinda. (2846)

44. mál, friðunarsvæði fyrir Vestfjörðum

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Í byrjun þessa fundar fór fram atkvgr. um till. um ráðstafanir vegna vaxandi rányrkju á fiskimiðum fyrir Vestfjörðum. Það mætti því ef til vill ætla, að þessi till., sem einnig var flutt á síðasta þingi, sé nú orðin óþörf við tilkomu hinnar till. Svo er þó ekki að mínu áliti, því að hin áðurnefnda till. fjallar aðeins um skipun n., sem ekki er þó ætlað að hafa lokið störfum fyrr en um það leyti, sem ætla má að þessu þingi ljúki, eða jafnvel kannske nokkrum vikum eftir að þetta þing hefur lokið störfum. Verkefni þeirrar n., sem sú till. gerir ráð fyrir, átti þó ekki að vera annað en að reyna að opna leiðir til útvegunar stærri skipa handa vestfirzkum útgerðarmönnum, en hins vegar er það viðurkennt í grg. með þessari umræddu till., að sú leið, sem ætti að liggja beinast við til aukinnar friðunar á vestfirzkum fiskimiðum, sé að færa út friðunarlínuna, eins og lagt er til í þessari till. minni og hv. þm. V-Ísf. (EirÞ), sem hér er nú til umr.

Aðalrök þessa máls eru sem nú skal greina: Samkvæmt lögum nr. 44 frá 5. apríl 1948, um vísindalega verndun fiskimiðanna, er sjútvmrn. heimilað að ákveða með reglugerð takmörk verndarsvæða við strendur landsins innan endimarka landgrunnsins, þar sem allar veiðar skulu háðar íslenzkum reglum og eftirliti.

Á grundvelli þessara lagaákvæða var einmitt sett reglugerð þann 19. marz 1952, og þar var ákveðið, að friða skyldi fjögurra sjómílna belti kringum allt landið fyrir hvers konar botnvörpuveiði, erlendra og íslenzkra skipa. Víð þessa ráðstöfun lokuðust mikil flóasvæði suðvestanlands, og þessi mikla aukna friðun hefur nú leitt til verulega aukins fiskimagns við Faxaflóa og Breiðafjörð. Fyrir Vestfjörðum friðaðist hins vegar aðeins einnar sjómílu breið ræma, en vegna sérstakra staðhátta fyrir Vestfjörðum jókst jafnframt ágangur botnvörpuskipa á veiðisvæðunum þar vestur frá. Þetta var einmitt afleiðing þess, að góð veiðisvæði togveiðiskipa lokuðust við friðunarráðstafanirnar annars staðar við landið.

Afleiðing af þessum aukna ágangi og hinni litlu friðun fyrir Vestfjörðum er augljóslega sú, að dregið hefur úr aflamagni á Vestfjörðum frá ári til árs svo mjög, að útgerðarmenn þar eru nú hver á fætur öðrum að gefast upp við vélbátaútgerð, og eins og áður hefur verið sagt af öðrum en mér, lítur út fyrir, að fullkomlega liggi við landauðn af þessum sökum.

Ég var nýlega staddur vestur á Ísafirði, og kom þá að máli við mig annar bankastjórinn á staðnum og sagði mér, að nú horfði svo, einkanlega eftir hina aumu útkomu síðastliðins vetrar og síðustu vorvertíðar, að ef til vill yrði enginn vélbátur gerður út á þessu hausti frá Ísafirði og sennilega ekki heldur frá nálægum verstöðvum, Súðavík og Hnífsdal. Hlutirnir hefðu verið svo lágir undanfarnar vertíðir — og lægstir seinustu vertíðirnar — að meira að segja bátsformennirnir, sem hafa tvo hluti, séu með sama aflamagni mun hlutarlægri en háseti á togara, og séu formennirnir því flestir búnir að ráða sig á togara, þar sem þeir kjósi heldur að vera þar hásetar. Af því, sem nú er sagt, er augljóst, að hlutur háseta á vestfirzkum vélbátum er þannig, að vestfirzkir sjómenn leita heldur til Faxaflóahafna, Breiðafjarðarhafna, til Vestmannaeyja og annarra þeirra staða, sem nú njóta þeirrar friðunar, sem fékkst með reglugerðinni frá 19. marz 1952, og leita sér atvinnu annars staðar en á Vestfjörðum. Hvaða úrræði eru þá fyrir hendi, þegar svona er ástatt í heilum landshluta? Ég fæ ekki séð, að þar geti verið um neitt annað að ræða en að grípa til aukinnar friðunar, þar sem hún nú er bersýnilega ófullnægjandi. Um það byggjum við á ótvíræðri reynslu frá þeim landshlutum, þar sem friðunin varð meiri og þar sem ágangur hefur orðið minni á grunnmiðin.

Í þessari till. okkar hv. þm. V-Ísf. er lagt til, að breytt verði 1. gr. reglugerðarinnar frá 19. marz 1952 á þann veg, að friðunarlínan fyrir öllum Vestfjörðum verði dregin þannig, að hún liggi 16 sjómílum utar en grunnlínupunktar þeir, sem hún er nú miðuð við, þ. e. a. s. grunnlínupunktarnir nr.43–47 í reglugerðinni, en það eru punktarnir, sem dregnir eru um Kögur, Straumnes, Barða, Kópanes og Bjargtanga.

Þá kemur að því, hvort það sé heimilt að breyta þeirri friðunarlínu, sem ákveðin var með reglugerðinni 19. marz 1952. Var þar ekki farið eins djarflega í sakirnar og nokkrar heimildir eru til? Um það verður ekki deilt, að samkv. lögunum um vísindalega verndun fiskimiða landgrunnsins er sjútvmrn. heimilað að ákveða með reglugerð, hvaða friðun sé nauðsynleg, og er því enginn vafi á því, að íslenzk lög standa ekki í vegi fyrir því, að þessi breyting, sem hér er farið fram á, sé gerð.

Þá er hin spurningin: Rekst það þá ekki á alþjóðalög að ákveða friðunarlínuna utar en 4 sjómílur frá yztu nesjum? Ég hef ekki heyrt nokkurn mann halda því fram, að nein alþjóðalagaákvæði séu til um þetta, enda hafa margar þjóðir farið margvíslegar leiðir í þessum efnum og sumar þegar ákveðið hjá sér friðun og landhelgi miðaða við miklu rýmra svæði en 4 sjómílur, allt upp í 50, jafnvel 200 sjómílur, eins og ég gat um í ræðu hér fyrir nokkrum dögum, og eru mörg dæmi alkunn um það einmitt frá seinustu árum. Það eru sem sé engin alþjóðalagaákvæði til um það, að 4 sjómílna landhelgislína og því síður 4 sjómílna friðunarlína sé hámark, sem þjóðum leyfist ekki að fara yfir.

Ég held því þess vegna fram, að hér sé um sjálfsagt mál að ræða, — mál, sem snertir lífsafkomu og atvinnugrundvöll fólksins í heilum landshluta, mál, sem verður ekki kallað annað en lífsnauðsynjamál, sem snertir þúsundir manna. Ég er þeirrar skoðunar, að íslenzk ríkisstj. geti ekki og megi ekki draga frá ári til árs að ráða bót á þessu neyðarástandi og gera nauðsynlegar ráðstafanir. Hún hefur heimildir til þess, það er alveg áreiðanlegt, og ég tel enga lausn á málinu, þó að farin sé sú leið, sem hér var rædd í gær af ýmsum hv. þm., að hjálpa Vestfirðingum til þess að eignast stærri skip, svo að þeir geti farið yfir það veiðisvæði, sem lagt hefur þá verið í auðn, og náð fiski af djúpmiðum með togveiðum. En þannig yrði þá aukin sú rányrkja, sem í heiti þeirrar till. var talað um að draga úr eða afstýra. Það er ekki lækning á þessu máli að stefna meiri togarafans á miðin úti fyrir Vestfjörðum, heldur er það hið eina, sem dugir og verður að gera, að friða línuveiðisvæðin, sem verið er að eyðileggja eða jafnvel búið að eyðileggja.

Ég legg til, að till. verði vísað til hv. sjútvn., og fellst á, að umr. sé frestað.