27.10.1954
Sameinað þing: 7. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 557 í D-deild Alþingistíðinda. (2851)

62. mál, jöfnun raforkuverðs

Flm. (Jörundur Brynjólfsson):

Herra forseti. Ég get látið mér nægja að skírskota til þeirrar grg., er fylgir þessari till. til þál. Við höfum leyft okkur nokkrir að flytja þetta mál inn á hv. Alþingi, og við gerum það í trausti þess, að það fallist á að viðhafa þá afgreiðslu, sem við leggjum til að verði á þessu máli.

Eins og grg. ber með sér, kom þetta mál til meðferðar hér áður í Alþingi, og margir hv. þm. voru því fylgjandi, að þessi háttur yrði hafður á sölu raforkunnar, að til almenningsnota yrði raforkan seld við sama verði, hvar sem er á landinu. Síðan það var hér til meðferðar, hefur þó orðið sú breyting á til enn meira óhagræðis fólkinu víða úti um byggðir landsins, að það þarf að leggja af mörkum enn meira nú í fjármunum til þess að verða raforkunnar aðnjótandi en áður var. Það er hvort tveggja í senn, að þær vörur, sem þarf til þess að koma þessu á, og sú vinna, sem fram fer í sambandi við raflagnir og annað þess konar, kostar miklu meiri fjármuni en áður. Sú breyting, sem varð á gengi íslenzkra peninga, varð þess valdandi, að þær vörur, sem keyptar eru erlendis frá, kosta nú miklu meiri fjármuni en áður var. Í sambandi við þetta varð og gerbreyting — ég ætla alls staðar — á þeim taxta, sem ákvarðaður hafði verið áður, hvað hin einstöku býli skyldu greiða til þess að verða raforkunnar aðnjótandi. Áður mun það hafa verið í gjaldskrám í kringum 30% af fasteignamatsverði jarða og húsa á hinum einstöku býlum, eða það bar mönnum að greiða, ef þeir vildu verða raforkunnar aðnjótandi. Þessu var breytt þannig, að í sumum héruðum a. m. k. var mönnum nú gert að greiða 45% af fasteignamatsverði jarða og húsa auk greiðslu fyrir að tengja rafleiðslurnar við heimilin eða húsin, sem mun vera öllu meiri en áður var.

Allt þetta hefur gert mönnum mjög erfitt fyrir og orðið mönnum dýrt til þess að fá að verða raforkunnar aðnjótandi. Eigi að síður er það augljóst mál, að þar sem nokkrir möguleikar eru á að koma raforkunni til heimilanna, svo að fólkið verði þessa undrakraftar aðnjótandi, er það óhjákvæmilegt. Ef það yrði ekki gert og ef fólkið sæi fram á, að það yrði gersamlega afskipt um þessa hluti, þá mundi það leiða til þess, að svo og svo mikið af sveitabýlum færi í auðn. Ég ætla, að aðstaða til búskapar í þessu landi nú og þess atvinnurekstrar sé slík, að við það starf sé það þungt fyrir fæti, að þó að með þessu móti sé mætt nauðsyn fólksins, þá hafi menn mikla og margvíslega erfiðleika að glíma við samt sem áður. En þetta málefni er þess eðlis, að það er mjög þýðingarmikið, að þarna komist á sem mest jafnræði milli þegna þjóðfélagsins. Nú hefur hv. Alþingi og hæstv. ríkisstj., sem nú situr, gert ákvarðanir um stórvægilegar framkvæmdir í þessum efnum, sem er mjög ánægjulegt að skuli hafa verið gert, en því aðeins getur það þó komið að tilætluðum notum, að fólkinu reynist mögulegt að verða þessara gæða aðnjótandi.

Ég vil mega vænta þess, að hv. alþm. láti þessa nauðsyn og mikilvægi þessa máls ráða, svo að þetta megi takast og fólkinu gert mögulegt að afla sér þessara þæginda, og að ekki standi það í vegi, að mörgum kunni að reynast það ómögulegt með því fyrirkomulagi, sem nú er. Hér er ekki verið, í þessari till., að tala um að draga úr því, sem menn verða að leggja af mörkum við það að fá raforkuna, heldur að þessir menn, sem í strjálbýlinu búa, þurfi ekki að greiða meira fyrir aflið en aðrir, þó að þeir búi í þéttbýli, og það hygg ég, eftir því sem málavextir eru, að geti ekki talizt annað en mjög sanngjarnt mál, að orðið verði við þessum óskum.

Ég sé svo ekki ástæðu í þetta sinn til þess að fjölyrða frekar um málið. Ég vil leyfa mér að leggja til, að málinu verði vísað til síðari umr. og hv. fjvn.