16.02.1955
Sameinað þing: 36. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 574 í D-deild Alþingistíðinda. (2875)

107. mál, breytta skipun strandferða

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hafði ekki ætlað mér að hafa afskipti af þessu máli, a. m. k. á þessu stigi, en get ekki stillt mig um, eftir að hafa hlustað á hina löngu ræðu hv. 1. flm., þm. Barð., að gera hér athugasemdir vegna einstöku atriða í ræðu hans, sem nauðsynlegt er að gera athugasemdir við.

Hv. þm. sagði meðal margs annars, að ríkið eða Skipaútgerðin þyrfti að greiða háa fjárhæð í skaðabætur vegna olíuflutningaskipsins Þyrils, ég held hann hafi nefnt 900 þús. kr., og hv. þm. vildi kenna forstjóra Skipaútgerðar ríkisins um, að svo hefði farið, sagði, að þetta sýndi verzlunarhyggindi þessa ágæta manns. Ég vil upplýsa í þessu sambandi, að þær skaðabætur, sem hér féll dómur um, voru vegna sölusamnings, sem þáverandi sölunefnd setuliðseigna hafði gert við norskan mann um sölu á skipinu Þyrli, en síðan gekk til baka, vegna þess að það var þá ekki leyfður útflutningur á skipinu úr landi héðan. Skipaútgerð ríkisins kom ekkert nálægt þessu máli eða forstjóri þeirrar stofnunar. Það var þessi þáverandi sölunefnd setuliðseigna, sem gerði þá samninga, sem málið reis út af og síðan skaðabótagreiðslan. Hér fer því hv. þm. algerlega með rangt mál.

Vafalaust er það ýmislegt fleira, sem ástæða væri til að leiðrétta í hans ræðu, þó að ekki verði hér farið langt út í það. Hann var eins og stundum fyrr með sleggjudóma um fyrrverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar, sem nú er látinn, bæði í ræðu sinni og eins í þeirri grg., sem hann og félagi hans hafa látið fylgja þessari tillögu. En að dómi allra sanngjarnra manna, sem fylgdust með störfum fyrrverandi forstjóra Skipaútgerðarinnar, var viðurkennt, að hann hefði rækt með árvekni og samvizkusemi þau störf, sem hann hafði þar með höndum, og staðið prýðilega í stöðu sinni. Hv. þm. Barð. heldur því fram, að hann hafi stjórnað fyrirtækinu sem einvaldsherra. Þetta er ein af villum hv. þm., því að vitanlega var yfirstjórn fyrirtækisins þá eins og nú og alltaf í höndum Alþingis og ríkisstjórnar. Þar var enginn einvaldsherra við stýrið á þeim tíma frekar en endranær.

Ég hef ekki lesið rækilega grg. með þeirri till., sem hér er til umræðu, en ég býst við, að það sé ýmislegt þar, sem ástæða gæti verið til að gera athugasemdir við, fleira en það, sem ég hef nefnt. T. d. hef ég ekki heyrt það eða séð fyrr en ég sé það í þessu plaggi, að skip Eimskipafélagsins, sem Goðafoss hét, hafi strandað árið 1915. Það má segja, að það skipti ekki miklu máli í þessu sambandi, þó að farið sé rangt með um þetta skipsstrand, en það gefur bendingar um það, að sá þáttur Íslandssögunnar, sem hv. þm. Barð. hefur verið að flytja, bæði á þessu þskj. og í ræðu sinni, sé ekki sem allra traustastur.