17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í D-deild Alþingistíðinda. (2900)

124. mál, Austurvegur

Flm. (Sigurður Ó. Ólafsson):

Herra forseti. Milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins eru þrjár leiðir, sem þjóðvegur er lagður um, þ. e. Hellisheiði, Þingvallaleið og Krýsuvíkurleið. Vegurinn um Svínahraun og Hellisheiði er stytztur þessara vega, 59 km, miðað við Reykjavík–Selfoss, enda þessi leið eingöngu farin, nema þegar hún er ófær af snjó. Þingvallaleið, um Mosfellsheiði, Þingvelli. austan Þingvallavatns og niður með Sogi, er 92 km að Selfossi. Þessi leið hefur reynzt litlu færari en Hellisheiði í snjóalögum á vetrum, og ræði ég hana því ekki sem vetrarleið á milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins.

Krýsuvíkurleið, um Hafnarfjörð, Krýsuvík, með sjó fram til Selvogs, yfir Selvogsheiði, um Ölfus að Selfossi, er 102 km.

Vegurinn um Hellisheiði var lagður fyrir síðustu aldamót. Var staðsetning hans og gerð eðlilega miðuð við þau samgöngutæki, sem þá voru til, þ. e. hestinn. Lautir og lægðir voru þræddar, eftir því sem mögulegt var, forðazt allar meiri háttar brekkur og hæðir. Afleiðing þessa var vitanlega sú, að vegurinn lagðist undir snjó strax á haustin og losnaði ekki úr þeim viðjum fyrr en á vordögum. Einkum átti þetta við um Hellisheiði sjálfa og ýmsa staði í Svínahrauni. Þetta kom ekki svo mjög að sök í fyrstu, en þegar hestvagnarnir komu til sögunnar og síðar bifreiðarnar, sem ollu byltingu í samgöngum og umferð á þessari leið sem öðrum, aukin mjólkurframleiðsla á Suðurlandsundirlendinu, sem leiðir af hinum miklu áveituframkvæmdum þar og aukinni túnrækt, hinn daglegi mjólkurmarkaður í Rvík og yfirleitt stóraukin flutningaþörf á þessari leið, allt þetta krafðist öruggra samgangna milli Suðurlandsundirlendisins og Rvíkur. En þegar svona var komið, var fyrst verulega ljóst, hver þröskuldur snjórinn á Hellisheiði gat orðið á veturna. Kom þar til hvort tveggja lega vegarins og hæð Hellisheiðar, en hún er um 370 m yfir sjávarmál. Liggur því snjór á henni langan tíma, þótt snjólaust sé á láglendi. Getur meira að segja verið svo vikum saman, að bílfært sé frá Rvík upp í Hveradali, þótt heiðin sjálf sé ófær, og kemur þar til hinn sífelldi skafrenningur, sem fyllir allar brautir, svo að þar verður oft mestur snjórinn, sem mest er mokað.

Þegar í ljós var komið, að flutningar máttu helzt ekki stöðvast á þessari leið einn dag, var farið að athuga aðrar leiðir. 1932 samþykkti Alþingi lög um nýjan veg frá Lækjarbotnum austur í Ölfus. Segir í 1. gr. þeirra laga, að leggja skuli nýjan veg af Suðurlandsbraut hjá Lækjarbotnum, sunnan við Lyklafell. um svonefnd Þrengsli og Eldborgarhraun, niður í Ölfus vestanvert, allt að Suðurlandsbraut nálægt Reykjum. Þá segir í 3. gr. þessara laga, að sérstaklega skuli gæta þess við lagningu vegarins og gerð, að hann verjist sem bezt snjó. Í þessu sambandi er rétt að geta þess, að á þessum tíma var enginn lagður vegur til vestur um Ölfus, en núverandi þjóðvegur var þar lagður í sambandi við Krýsuvíkurveginn. Því var með þessum lögum ákveðið, að hinn nýi vegur skyldi ná, eins og þar segir, að Suðurlandsbraut nálægt Reykjum. Með þessum lögum er því slegið föstu, að á þessum stað skuli hinn nýi vegur milli Reykjavíkur og Suðurlandsundirlendisins liggja og vera öryggisleið fyrir alla flutninga, þegar Hellisheiðin væri ófær vegna snjóa. Lá þessi leið töluvert lægra en Hellisheiði og því nokkurn veginn vissa fyrir því, að hár vegur þarna yrði miklum mun snjóléttari en vegurinn yfir Hellisheiði, en heldur var þetta lengri leið.

Ekkert varð úr framkvæmdum með þessa vegagerð, en nokkrum árum eftir að lögin voru sett, var Krýsuvíkurleiðin tekin í þjóðvegatölu og þegar byrjað á að leggja þann veg, en mörg ár tók að fullgera hann. En síðan lokið var lagningu hans, hefur hann verið notaður sem vetrarleið, þegar Hellisheiði hefur verið ófær vegna snjóa.

Þessi leið er, eins og áður er sagt, 102 km, eða 43 km lengri en leiðin um Hellisheiði. Liggur því í augum uppi, hversu gífurlegan kostnaðarauka það hefur í för með sér að þurfa að aka svo miklu lengri leið með allan þann flutning, sem um þessa leið fer daglega. Mun ég víkja að því nokkuð síðar.

1944 var skipuð mþn. til að rannsaka samgöngumál Suðurlandsundirlendis. Skilaði n. áliti í nóv. 1945 og var sammála um að leggja til, að vegur yrði lagður um Þrengslin eða að mestu á sama stað og lögin frá 1932 ákváðu. Á þann hátt yrðu samgönguvandamál Suðurlandsundirlendisins bezt leyst. Á áliti þessarar n. voru síðan byggð lögin um Austurveg, sem sett voru á Alþingi 1946. Samkvæmt þeim lögum skyldi leggja nýjan veg, steinsteyptan, frá Lögbergi, um Þrengslin, austur um Ölfus að Selfossi. Veg þennan skyldi leggja á næstu sjö árum frá gildistöku laganna, en hefja skyldi framkvæmdirnar á því að leggja kaflann frá Suðurlandsbraut neðst í Svínahrauni, um Þrengslin og á Ölfusveg nálægt Þurá. Skyldi þessi kafli gerður sem malarvegur í fyrstu. Þetta ákvæði laganna er mjög þýðingarmikið, því að víst er, að strax og þessi hluti vegarins væri gerður, væri vandamálið um vetrarleiðina að miklu leyst. Hár malborinn vegur um Þrengslin mundi hvergi verða hærri en Svínahraun, eða um 120 m lægri en Hellisheiði. Þá yrði þessi leið, þegar vegurinn væri fullgerður. rúmum 2 km lengri en Hellisheiðarleið, en með því að gera aðeins hinn fyrirhugaða malborna kafla munaði um 7½ km á þessum tveimur leiðum. Er það 35½ km styttri leið en vegurinn um Krýsuvík.

Þessi lög um Austurveg voru sett, eins og áður segir, 1946. Stjórninni var heimilað að taka lán til framkvæmdanna, en úr framkvæmdum hefur ekki orðið, þó að öllum megi vera ljóst, hversu mikið hagsmunamál hér er um að ræða fyrir alla aðila. sem ég mun nú sýna fram á.

Vegamálastjóri segir í bréfi, sem hann skrifaði samgmrn. 25. júní 1951, þar sem hann fer fram á að fá fé til Austurvegar, sem hann hefur reyndar gert á hverju ári undanfarið, að mestu án árangurs, með leyfi hæstv. forseta:

„Á s.l. vetri var Krýsuvíkurvegurinn aðalflutningaleiðin í rúmlega 100 daga. Er talið. að frá Kaupfélagi Árnesinga og Mjólkurbúi Flóamanna muni hafa farið alls á þessu tímabili um 1220 bifreiðar með 4–6 tonna hlass hvora leið og sérleyfisbifreiðar um 160 ferðir samtals. Hér við bætast verulegir aðrir flutningar. Samkvæmt talningu umferðar fram hjá Skíðaskálanum undanfarna vetur, er Hellisheiði hefur verið greiðfær, hafa farið þar að meðaltali nálægt 100 bílar daglega. hér af um 60 vörubifreiðar og 40 stórar og litlar mannflutningabifreiðar. Færri í jan.-febr., en fleiri í desember og marz–apríl. Vegalengdarmunurinn á þessum vetrarleiðum, þ. e. Þrengslaleið og Krýsuvíkurleið, er 35½ km, og sé miðað við meðalhlass vörubifreiða, 3 tonn, sem er sízt of hátt, þá nema vöruflutningar á dag um 180 tonnum, talið báðar leiðir. Flutningskostnaðurinn eykst nokkuð nærri hlutfallslega við vegalengd, en miðað við núverandi verðlag er ekki of lágt að áætla í þessu sambandi, að hver ekinn tonnkílómetri kosti kr. 1.25, en auglýstur taxti er nokkru hærri, jafnvel þó að miðað sé við flutning báðar leiðir. Mismunurinn á vegalengdum á þessum leiðum er, eins og áður segir, 35½ km. Verður þá beinn sparnaður á vöruflutningum.um 8 þús. kr. á dag, en með nokkuð vaxandi umferð er sízt of hátt að miða við 10 þús. kr. á dag. Hér við bætist tilsvarandi kostnaður við akstur fólksbifreiða, sem áætla má að nemi helmingi á móts við vöruflutningana. Kemur að þessu athuguðu í ljós, að væntanlega hefði mátt spara jafnvel allt að 1½ millj. kr. þessa rúmlega 100 daga, sem fara varð Krýsuvíkurleiðina á s.i. vetri, sem að vísu var alveg óvenju erfiður að þessu leyti, enda varð að verja nær 100 þús. kr. til þess að halda Krýsuvíkurleiðinni opinni í vetur.“ — Og enn segir vegamálastjóri: „Þar sem hér er um mjög mikinn árlegan kostnað að ræða, sem vonir standa til að komast megi hjá, ef nýr vegur verður byggður um Þrengslin, er augljóst, að sú vegagerð er öllum hlutaðeigendum mikið hagsmunamál.“

Þessi athugun vegamálastjóra er frá 1951, en síðan hefur magn flutninga og önnur umferð aukizt að miklum mun á þessari leið. Munu nú vera flutt 40–50 tonn af mjólkurafurðum á degi hverjum frá Selfossi til Reykjavíkur. Af því magni eru 30–40 þús. lítrar oftast af mjólk, sem þarf að vera komin í búðirnar til sölu kl. 8 á hverjum morgni. Við þetta bætast allir aðrir flutningar, sem á þessari leið fara fram. Aðeins af þessu eina dæmi er ljóst, hversu geysimikla þýðingu það hefur, bæði fyrir framleiðendur austan fjalls og neytendur í Rvík, að tryggð verði samgönguleiðin á milli þessara staða eins og mögulegt er og valin hin stytzta leið.

Framleiðendur eystra hafa haft opin augun fyrir þessu, sem sjá má á því, að undanfarin ár hefur á hverjum sýslufundi í Árnessýslu verið gerð ályktun, þar sem skorað er á Alþingi að veita fé til Austurvegar og koma honum fram. Ályktanir í sömu átt hafa verið samþykktar á aðalfundi Mjólkurbús Flóamanna og víðar.

Það skal tekið fram, að mikil samgöngubót var að lagningu Krýsuvíkurvegarins á sínum tíma, en sá höfuðgalli var þar á, hve leiðin er löng. Þá má og benda á, að vegurinn er ekki heppilega lagður, miðað við snjóþyngsli á þessari leið. Má benda á leiðina frá Vatnsskarði með Kleifarvatni allt til Krýsuvíkur. Á þessari leið er í sumum áttum mjög hætt við ófærð af snjó. Þá má einnig benda á leiðina meðfram Hlíðarvatni og um Selvogsheiði. Alla þessa staði hefði mátt forðast og leggja veginn annars staðar, hefðu menn haft opin augu fyrir snjóhættunni, sem átti þó að útiloka með þessari leið. En það hefur ekki tekizt nógu vel, og eru þar til sönnunar ummæli vegamálastjóra, sem ég hef vitnað til, að snjómokstur þarna kostaði 100 þús. kr. veturinn 1951. Það voru eingöngu þeir kaflar vegarins, sem ég nú minntist á, sem moka þurfti næstum daglega í langan tíma. Og þegar þessi kostnaður kemur til viðbótar þeim, sem orsakast af hinni miklu vegalengd, verður augljóst, hve geysidýr þessi leið er.

Ég get ekki skilið svo við Krýsuvíkurveginn að minna ekki á, hvernig hann er gerður. Hann er svo mjór, að bílar geta ekki mætzt á honum nema á þeim stöðum, þar sem hann er breikkaður í þessu skyni, og verður þá annar bíllinn ávallt að bíða, meðan hinn fer fram hjá. Og vegna þess, hve mjór hann er, er hann stórhættulegur fyrir hina miklu umferð, sem á honum mæðir, þegar til hans þarf að taka. Þegar snjór er yfir öllu, myrkur og e. t. v. bylur, er erfitt fyrir bifreiðarstjóra að halda veginum, en engu má muna, ef ekki á illa að fara. Má benda á, að í vetur missti þaulvanur bílstjóri bíl sinn, sem var tankbíll, fullur af mjólk, út af veginum með þeim afleiðingum, að honum hvolfdi, og var sérstök mildi, að bifreiðarstjórinn stórslasaðist ekki. Er af þessu ljóst, að hreint neyðarúrræði er að þurfa að beina hinni mjög svo miklu umferð á Krýsuvíkurveginn í hvert sinn sem Hellisheiðarvegurinn verður ófær.

Eins og ég hef áður minnzt á, var svo ákveðið í lögunum um Austurveg, að framkvæmdir skyldu hefjast með því að tengja saman Suðurlandsbraut í Svínahrauni og Selvogsveg í Ölfusi með nýjum vegi um Þrengslin. Þótt þetta sé ekki nema lítill hluti vegarins í heild, mundi þó lagning þessa kafla hans leysa vandamálið um vetrarsamgöngurnar að mjög miklu leyti. Þessi vegarkafli, sem hér um ræðir, er samtals 24 km, miðað við þá leið, sem fyrirhuguð er, en það er að koma á Selvogsveg hjá Þurá í Ölfusi. En þessa leið mætti stytta um 4½–5 km með því að koma á Selvogsveginn hjá Vindheimum í Ölfusi eða nokkru utar. Yrði það þá þannig, að Þrengslavegurinn sjálfur mundi ekki ná lengra en á heiðina fyrir ofan Vindheima, en þar yrði lagður 3 km kafli þvert af aðalveginum á Selvogsveg hjá Vindheimum. Við þetta mundi vinnast tvennt í bili, eins og áður segir: aðalvegurinn styttast um 4½–5 km og þessi 3 km kafli yrði frambúðarvegur til Þorlákshafnar, þar sem hann styttir þessa leið nálega um 7 km, miðað við að fara yrði frá Þorlákshöfn að Þurá til að komast á Þrengslaveginn. Er því sýnt, að þarna er framtíðarvegurinn fyrir Þorlákshöfn, og virðist því sjálfsagt að haga þessu á þennan hátt, enda hefur vegamálastjóri lagt það til á sínum tíma.

Í bréfi því frá vegamálastjóra, sem ég hef áður vitnað til, er nokkuð skýrt frá kostnaði við vegarlagningu þessa. Kostnaðaráætlun hefur verið gerð og endurskoðuð 1951. Nemur hún 5½ millj. kr., miðað við 24 km langan veg, 7 m breiðan og malborinn. En vegamálastjóri bendir á, að með því að stytta leiðina eins og ég hef skýrt frá og malbera veginn ekki í fullri breidd í fyrstu megi lækka kostnaðinn niður í 3.7 millj. kr., og kæmi þó að fullum notum sem vetrarleið.

Sumarið 1951 var lítils háttar unnið að Þrengslaleiðinni með tveim jarðýtum, aðallega til rannsóknar á því, hvernig þeim gengi að vinna hraunið, en á þessari leið er á 16 km kafla um hraun að ræða. Kom í ljós, að ýturnar unnu vel á hrauninu og að kostnaður við uppbyggingu vegarins yrði svipaður og gert hafði verið ráð fyrir, þegar kostnaðaráætlunin var gerð. Þá má og minna á, að nú eru komin til sögunnar enn stórvirkari tæki til vegagerðar, og ætti þá að mega vænta enn hagstæðari vinnubragða við svona vegarlagningu.

Ég hef ásamt fimm hv. þm. flutt þáltill., sem prentuð er á þskj. 267, um, að hefjast skuli nú handa um lagningu Austurvegar með því að leggja malborinn veg úr Svínahrauni austur í Ölfus um Þrengslin. Vegarlagningu þessari, sem er um 20 km löng, skuli lokið á yfirstandandi ári og því næsta. Að svo miklu leyti sem fé verði ekki veitt á fjárlögum til framkvæmdanna, verði notuð heimild í lögunum um Austurveg til lántöku í þessu skyni. Ég þykist hafa sýnt fram á, hver nauðsyn er á, að þetta verði gert. Hver dagur, sem Hellisheiði er lokuð og fara verður um Krýsuvíkurveg, kostar þúsundir króna í auknum flutningskostnaði, sem að mestu leyti er sóun á erlendum gjaldeyri, þar sem eingöngu er um bifreiðanotkun að ræða til allra flutninga.

Á yfirstandandi vetri, sem segja má að hafi verið snjóléttur hér sunnanlands, hefur Hellisheiði verið ófær upp undir 20 daga, þrátt fyrir það að ágæt moksturstæki, ýtur og snjóplógar, hafa verið þar til staðar og rutt veginn meðan við varð ráðið. En á sama tíma hefur ekki fest snjó á veginum frá Reykjavík upp í Hveradali, þ. e. a. s. á þeim stöðum, þar sem hann er hlaðinn upp fyrir umhverfi sitt. En þegar í efri Hveradalabrekkuna kemur og alla leið niður fyrir efstu brekku í Kömbum liggur nú snjór, enda eins og áður segir um 120 m hæðarmun að ræða, miðað við Þrengslaleið og Svínahraun. Væri nú Hellisheiði ófær bifreiðum, ef vegurinn hefði ekki verið ruddur fyrir nokkru. Má fullyrða, að vel upphlaðinn vegur um Þrengslin hefði verið snjólaus í allan vetur, eftir þeim upplýsingum, sem ég hef aflað mér á vegamálaskrifstofunni. Ég efast ekki um, að allir hv. þm. sjái, hversu aðkallandi og nauðsynlega framkvæmd hér er um að ræða, og samþykki því þáltill. okkar á þskj. 267.

Ég vil svo leyfa mér, herra forseti, að leggja til, að till. verði að þessari fyrri umr. lokinni vísað til 2. umr. og hv. fjvn.