17.02.1955
Sameinað þing: 37. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 593 í D-deild Alþingistíðinda. (2917)

144. mál, stækkun á Vestmannaeyjaflugvelli

Flm. (Jóhann Jósefsson):

Herra forseti. Ég gat ekki um fyrirhugaðar framkvæmdir sérstaklega í sumar í þessari till. af þeim ástæðum, að ég taldi mig ekki vera þess umkominn á þessu stigi málsins að hafa á þær frekari áhrif en ég hef haft með viðtölum við flugráð, en þar fékk ég þá yfirlýsingu, að flugráð mundi vart treysta sér til þess að verja meira en ½ millj. á þessu sumri til vallarins. Þá framkvæmd vona ég að verði ráðizt í. Hana hafði ég að vísu í huga, þegar ég samdi mína till. um það, hvað ætla yrði til flugvallarins á næsta ári, líka með hliðsjón af því, að heildarframlag til flugvallagerðar á þessu ári er ákveðið þegar í fjárlögum og atkvgr. um þá hluti hér nú er ekki tímabær. En ég hafði sem sagt, þegar ég samdi mína till., yfirlýsingu flugráðs eða forstöðumanns flugráðsins um það, að á þessu ári mundi verða unnt að vinna, þó ekki fyrir meira en ½ millj. kr. Þess vegna og með hliðsjón af þeirri fjárhæð, sem Alþingi hefur veitt yfirleitt til flugvalla, fór ég ekki að blanda því máli neitt hér inn í.