23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 601 í D-deild Alþingistíðinda. (2939)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Flm,. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Þá þáltill., sem hér liggur fyrir á þskj. 480, hef ég leyft mér að flytja ásamt hv. þm. A-Sk. (PÞ), hv. 2. þm. N-M. (HÁ) og hv. þm. Mýr. (AE). Með þessari till. er farið fram á það, að Alþingi skori á ríkisstj. að hlutast til um, að á næsta skólaári starfi einn eða fleiri æskulýðsskólar með svipuðu sniði og fylgt var áður í héraðsskólum, meðan þeir störfuðu án sambands við menntaskóla og sérskóla, enda verði landspróf ekki haldið í þeim skólum.

Eins og kunnugt er, þá er flestum skólum landsins nú skipað í fast kerfi samkv. lögum, sem þar um gilda, þannig að hver skóli tekur við af öðrum allt frá barnaskólanum og til háskólans. Geta því unglingar nú, jafnvel með meðalnámsgáfur eða minna, komizt mjög fyrirhafnarlítið í háskólann og jafnvel náð þar prófi. Að sjálfsögðu hefur þetta fyrirkomulag ýmsa kosti, enda hefur það verið upp tekið í nágrannalöndum okkar að meira eða minna leyti. Það greiðir án efa fyrir unglingum að geta stundað langskólanám og komizt í háskóla, og er því síður hætta á því, að efnilegir unglingar, sem þrá að nema, geti það ekki, eins og oft var áður. En þess er ekki að dyljast, að þetta samband skólanna og það fyrirkomulag, sem því fylgir, hefur líka nokkrar skuggahliðar. Mörgum virðist, að námið í skólunum miðist allt of mikið við próf, við undirbúning undir það að ganga undir próf og geta staðizt það, m. ö. o., að þetta leiði til þess, að reynt sé að troða sem mestum forða af þekkingu inn í nemendurna, en þá verður minni tími fyrir skólana til að sinna hinni eiginlegu uppeldishlið skólaverunnar og skólastarfið allt verður síður vekjandi og glæðandi áhuga nemendanna á ýmsum viðfangsefnum öðrum en ella mundi.

Það er m. ö. o., að með þessu fyrirkomulagi verður að hugsa meira í skólunum um undirbúning undir næsta próf og næsta skóla, sem við tekur, heldur en undirbúning undir lífið sjálft. Og skólarnir eru hreint og beint neyddir til þess, vegna þess m. a. að foreldrarnir og jafnvel nemendurnir sjálfir óska þess umfram allt, að hver skóli útskrifi nemendur sína þannig. að þeir geti setzt í næsta skóla fyrir ofan.

Í öðru lagi er þegar farið að bera á þeirri skuggahlið, sem þessu fyrirkomulagi fylgir, að það eru fleiri lærðir menn í landinu en þörf er á fyrir þjóðina, og þessir menn eru oft losnaðir úr tengslum við atvinnulífið og þar af leiðandi ekki vel hæfir til lífsbaráttunnar þar og verða því atvinnulausir. Enginn skilji orð mín svo, að ég telji í sjálfu sér óheppilegt fyrir nokkurn mann að vera vel lærður, en þegar lærdómurinn hefur þau áhrif, að hann kemst síður áfram í lífinu, er atvinnulaus á því sviði. sem hann hefur valið sér, og lítt hæfur til að sinna öðru, þá verður það frekar böl heldur en til heilla.

Nú er þessi till., sem hér liggur fyrir, alls ekki um það, þrátt fyrir þetta, sem ég hef sagt, að gerbylta þessu skólakerfi eða jafnvel að breyta því í neinum verulegum atriðum, heldur er till. aðeins um það, að ríkisstj. losi einn eða fleiri æskulýðsskóla úr þessu kerfi næsta vetur, og þá væntanlega framvegis. ef það gefur góða raun. Í þeim skóla eða skólum verði kennslan ekki miðuð við undirbúning undir annan skóla, heldur undirbúning undir lífið, eins og var í héraðsskólunum, áður en þeir voru settir í þetta kerfi, og eins og var og er f lýðháskólum nágrannalanda okkar. Vegna laganna yrði sá skóli, sem þessi tilraun yrði gerð í, eða þeir skólar, ef fleiri væru, að sjálfsögðu að teljast til gagnfræðastigsins, en þar yrði þá ekki endað með landsprófi og öll tilhögun kennslunnar frjálsari en verið hefur og nú er.

Það má benda á það í þessu sambandi, að þrátt fyrir alla þessa skóla, sem nú eru til í landinu, er enn þá nokkuð margt af ungu fólki, sem hefur farið á mis við alla skólagöngu aðra en barnafræðslu, og mundi slíku fólki, jafnvel þó að það væri eitthvað yfir tvítugt, henta vel að komast í slíkan frjálsan skóla.

Með þessari till. er alls ekki ætlunin að koma upp nýjum skóla eða nýjum skólum, heldur er ætlunin sú, eins og till. ber með sér, að samið verði við einn eða fleiri skóla, sem nú eru til, um að starfa á þeim grundvelli, sem till. segir til um. Þar af leiðandi er ekki ástæða til að gera ráð fyrir auknum kostnaði fyrir ríkissjóð, þó að þessi till. verði samþ. og framkvæmd. Sýnist því af þeirri ástæðu ekki þörf að vísa till. til hv. fjvn. Mér finnst fyrir mitt leyti, að það sé ekki heldur bein þörf á því að vísa till. til nefndar. Þetta er svo einfalt mál, að hv. alþm. ættu að geta áttað sig á því, hvort þeir vilja fallast á þessa till. eða ekki, án þess að þeir hafi um það ráð nefndar. En ef hæstv. forseta og þinginu finnst ástæða til, að till. fari til nefndar, þá virðist mér, að það væri þá helzt hv. allshn. þingsins, sem ætti að vísa till. til. Geri ég það þó ekki að till. minni. (Forseti: Ég vil benda hv. 1. flm. á, að ákveðnar hafa verið tvær umræður um málið, og er það með tilliti til nokkurra orða í grg. fyrir þáltill.) Þá mun hún eiga að fara til fjvn. (Forseti: Eða til allshn.) En ég sé enga þörf á því, því að það er alls ekki ætlunin, eins og ég hef tekið fram, að þetta leiði til útgjalda, og ég skil ekki, hvaða orð það eru í grg., sem gera það að verkum. (Forseti: Í niðurlagi grg.) „Verulegu fé“ — jæja.

Ég hafði litið svo á, að það væri ekki ástæða til að hafa nema eina umr. um málið, en úr því að það eru tvær umr., þá mundi vera rétt, að málinu yrði vísað til n. En eins og ég sagði, þá er ekki ætlunin, að till. hafi útgjöld í för með sér, a. m. k. ekki svo að neinu nemi, og þar af leiðandi sé ég ekki, að hún þurfi til hv. fjvn., og legg þá til, að henni verði vísað til allshn.