27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 603 í D-deild Alþingistíðinda. (2943)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Frsm. (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Við fyrri umr. þessa máls gerði ég grein fyrir þeirri till., sem hér liggur fyrir til umr. á þskj. 480, og hvaða rök lægju til þess, að hún var fram borin. Ég sé ekki ástæðu til að endurtaka neitt af því, sem ég sagði þá um málið.

Eins og menn vita, var till. vísað til allshn. sameinaðs þings, og hefur n. haldið tvo fundi um málið. Á fyrra fundinum var málið nokkuð rætt, en ákvörðun þá ekki tekin, heldur var mér sem formanni nefndarinnar falið að eiga tal við fræðslumálastjóra um málið. Það gerði ég svo, og varð ég ekki annars var í því samtali við fræðslumálastjóra en að hann væri þessari till. meðmæltur, tók það þó fram, að hann áliti, að ef slíkur skóli sem till. fjallar um eða skólar yrðu reknir, þá áliti hann, að það ætti að vera með lýðháskólasniði, m. ö. o. að sníða þann skóla eftir lýðháskólum á Norðurlöndum. Tók n. þessa ábendingu fræðslumálastjórans til greina í tillögum sínum um málið. En ég mun síðar víkja nánar að áliti fræðslumálastjóra.

Tveir hv. nm., Jóhann Hafstein, sem á sæti í n. í forföllum Jóhanns Jósefssonar, og Karl Guðjónsson, voru ekki viðstaddir, þegar n. afgreiddi málið. Sá síðarnefndi var þá kominn úr bænum heim til Vestmannaeyja. En það er skemmst frá áliti n. að segja, að hún féllst á till. að stofni til og í meginatriðum og mælir með henni, en hún taldi þó rétt, að gerðar yrðu á tillögunni tvær lítils háttar breytingar, og má sjá þær till. í nál. á þskj. 560.

Fyrri till. er um það, að beinlínis sé tekið fram, að í staðinn fyrir það, sem í till. stóð, að þessi skóli eða skólar störfuðu með svipuðu sniði og fylgt var áður í héraðsskólunum, meðan þeir störfuðu án sambands við menntaskóla eða sérskóla, komi, að þeir starfi með lýðháskólasniði.

Önnur till. n. er til skýringar og er í samræmi við það, sem ég sagði hér í framsöguræðu minni við fyrri umr. málsins, að kostnaður við skóla þessa greiðist á sama hátt og við aðra skóla gagnfræðastigsins og af sömu aðilum.

Nál. allshn. er dagsett 4. apríl, en það lítur út fyrir og er sýnt, að fræðslumálastjóri hefur, eftir að nál. kom út, tekið þetta mál til nýrrar athugunar, og hann hefur sent n. bréf um þetta mál, sem dagsett er 16. apríl.

Þar er enn þá að vissu leyti mælt með þessari hugmynd, en þó bent á nokkur atriði í sambandi við það. Með leyfi hæstv. forseta, vil ég, til þess að ekki fari fram hjá hinu háa Alþ. sjónarmið fræðslumálastjóra, lesa þetta bréf eða a. m. k. það úr því, sem ég tel mestu máli skipta. Það hljóðar þá svo:

„Vegna fram kominnar till. til þál. á Alþingi um óháða alþýðuskóla, 175. mál, leyfi ég mér hér með að taka fram eftirfarandi:

1) Er Bernharð Stefánsson alþm. spurði mig um það, hvað ég segði um stofnun alþýðuskóla á svipuðum grundvelli og héraðsskólarnir störfuðu hér fyrir 1946, sagði ég, að ég væri því fylgjandi, að stofnaður yrði skóli hér á landi, er starfaði með svipuðum hætti og lýðháskólar á Norðurlöndum. Benti ég á lýðháskólann í Askov í Danmörk í því sambandi.

2) Lýðháskólar eins og þeir, er hér um ræðir, hafa ekki lögákveðið námsefni. Próf eru þar ekki. Námsdvöl þar veitir ekki réttindi til starfa eða náms í öðrum skólum.

Lýðháskólar eru því utan við skólakerfi hlutaðeigandi landa og eiga að vera það.

3) Þar eð alþýðuskóli, sem starfar með svipuðu sniði og lýðháskólar, fellur ekki í ramma þeirra skóla, er starfa samkvæmt núgildandi lögum um gagnfræðanám, þá virðist mér, að fá þurfi lagaheimild til stofnunar og rekstrar alþýðuskóla, ef greiða á kostnaðinn að einhverju eða öllu leyti úr ríkissjóði.

4) Þótt hluti ríkissjóðs í stofnkostnaði og rekstri alþýðuskóla (lýðháskóla) yrði hliðstæður því, sem gildir um gagnfræðaskóla, þá tel ég vart hægt að ætlast til þess, að ein sýsla eða ef til vill tvær greiði hluta stofnkostnaðar og rekstrarhalla, ef einhver yrði, móti ríkissjóði, því að nemendur í slíkum skóla mundu verða víðs vegar að af landinu. Annaðhvort þyrfti hluti sveitarfélaga, sbr. 53. og 54. gr. laga um gagnfræðanám, að koma annars staðar að eða að skólinn verði stofnaður og rekinn fyrir fé úr ríkissjóði, og virðist mér það eðlilegast.

5) Eins og sjá má af því, er að framan greinir, miða ég við það, að aðeins verði stofnaður einn alþýðuskóli á framangreindum grundvelli. Tæki sá skóli allt að 100 nemendur, mundu samt, að ég hygg, verða til muna fleiri lýðháskólanemendur hér á landi en á Norðurlöndum, miðað við fólksfjölda.“

Það hefur nú ekki unnizt tími til þess, meðfram vegna þess að ég hef verið veikur undanfarið, að kalla allshn. saman á fund til þess að bera undir hana þetta bréf. En ég hygg, að þetta bréf fræðslumálastjórans mundi ekki breyta afstöðu n. Þó vitanlega get ég ekki fullyrt um það, og það er sökum þess, að till. er flutt og n. fjallaði um hana á allt öðrum grundvelli en þeim, sem fræðslumálastjórinn leggur í sínu bréfi. Það var aldrei ætlun flm.n., að þessi framkvæmd, ef af henni yrði, hefði aukinn kostnað fyrir ríkissjóð í för með sér né heldur að nýr skóli yrði stofnaður í þessu skyni, heldur var það frá upphafi ætlunin, að ef svo um semdist við einhvern af þeim skólum, sem nú eru, að hann breytti næsta vetur starfsháttum sínum á þann veg, sem till. segir til um, þá yrði þetta framkvæmt þannig aðeins, að kennslufyrirkomulagi í einum eða fleiri skólum yrði breytt. Ef ekki næst samkomulag við aðstandendur neins af þeim skólum á gagnfræðastiginu, sem nú eru fyrir hendi, þá fellur þetta mál niður næsta vetur. Þá gæti að vísu komið til álita á næsta þingi lagabreyting um það að stofna slíkan skóla, en það liggur ekki fyrir nú. Bréf fræðslumálastjóra breytir því a. m. k. ekki mínu áliti um, að það beri að samþykkja þessa till. Það má vel vera, að það náist ekki samkomulag við neinn af þeim skólum, sem fyrir eru, um að breyta starfsháttum sínum í samræmi við till. Þá fellur þetta mál niður næsta vetur. En ég get ekki séð, að það geti, jafnvel þó að svo færi, skaðað neitt að samþykkja till. Að það þurfi lagabreytingu til þess, að það sé heimilt fyrir skóla að breyta kennslutilhögun nokkuð með samþykki yfirstjórnar fræðslumálanna, fæ ég ekki skilið. Ég skil ekki í öðru en að það hljóti að vera heimilt, því að það má kenna svipuð fög og ákveðið er að kenna í gagnfræðaskólum, og það eina, sem mundi breytast, er það, að ekki yrði haldið neitt landspróf í þessum skóla eða þessum skólum. Nú er það svo, að það er engin skylda að ganga undir landspróf, og það eru ekki nema sumir nemendurnir í skólum, sem það gera, og að það geti verið nokkurt lagabrot, þó að í einum skóla eða jafnvel fleirum yrði landsprófið fellt niður, fæ ég ekki skilið. Það getur vel verið, að hér undir umr. verði mér gefin skýring á því, en ég hef ekki getað komið auga á það enn. Það er því till. nefndarinnar eða var a. m. k. þegar hún afgr. málið, að till. verði samþ. með þeim breytingum, sem hún leggur til að gerðar verði.