27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 606 í D-deild Alþingistíðinda. (2944)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Ég er ekki reiðubúinn til þess, meðan það mál hefur ekki verið íhugað betur en enn hefur verið gert, að segja til um, hvort það út af fyrir sig væri til bóta að taka upp hér á landi lýðháskólakennslu eða stofna lýðháskóla, og vitanlega mun ég í því hlíta fyrirmælum Alþingis, eftir því sem lög standa til, ef það verður hér ákvörðun manna, að slíkt skuli gert. Vil ég ekki blanda mér í þær umræður að efni til, vegna þess að ég er, eins og ég segi, ekki reiðubúinn til þess að kveða sjálfur upp dóm um, hvort slíkt muni vera heppilegt eða ekki. Hitt tel ég nauðsynlegt, að þingheimur geri sér grein fyrir, að með þeirri till., sem hér er flutt, er gert ráð fyrir verulegri breytingu á því skólakerfi, sem sett var með skólalöggjöfinni 1946. Meginbreytingin, sem þá var gerð, felst einmitt í stuttu máli í 1. gr. laga nr. 22 1946, þar sem segir:

„Allir skólar, sem kostaðir eru eða styrktir af almannafé, mynda samfellt skólakerfi.“

Og síðan segir í 2. gr.:

„Skólakerfið skiptist í þessi fjögur stig: 1) barnafræðslustig, 2) gagnfræðastig, 3) menntaskólastig og sérskólastig, 4) háskólastig“ o.s.frv.

Í þeirri till., sem hér liggur fyrir, er það ljóst, sérstaklega samkv. brtt. hv. n., að þessi svokallaði lýðháskóli á að tilheyra gagnfræðastiginu. En til eru lög um gagnfræðanám, nr.48 7. maí 1946, sem einmitt eru í samræmi við þessi ákvæði l. nr. 22 frá 1946, er ég vitnaði í áðan, og meginatriði þessara fyrirmæla um gagnfræðaskóla er það, að prófin úr þeim eiga að veita rétt til þess að stunda nám í öðrum skólum, áframhaldandi skólum, þannig að þetta á að vera, eins og þar segir, „samfellt skólakerfi“. Till., sem hér er borin fram, er um það að stofna einn eða fleiri skóla, sem séu ekki þættir í þessu skólakerfi.

Ég tel, að ef hv. Alþingi vill gera slíka ályktun, þá sé rangt að samþ. þá brtt., sem hv. n. ber fram um, að það sé berum orðum tekið fram, að þessi nýi skóli eigi að vera einn skóli gagnfræðastigsins, vegna þess að í því felst alger mótsögn. Hann getur ekki í senn verið lýðháskóli, leystur úr þessu samfellda skólakerfi, úr þeim tröppugangi, sem myndaður var á milli skólanna; hann getur ekki í senn verið leystur úr því og þó verið einn af skólum gagnfræðastigsins, eins og verkefni þeirra skóla er túlkað í IV. kafla l. nr. 48 frá 1946. Þetta er alveg ljóst og ótvírætt.

Fræðslumálastjóri hefur að athuguðu máli talið sér skylt að benda hv. allshn. á þetta. Í áliti, sem ég hef fengið frá menntmrn., er þessu ótvírætt haldið fram, og ég get ekki séð, að á því sé nokkur vafi, þegar athugaðir eru þeir lagastaðir, sem ég nú hef vitnað til, og þá ekki sízt IV. kafli laganna um gagnfræðanám.

Allt þetta hindrar auðvitað Alþingi alls ekki í því, ef það er talið rétt að stofna skóla nýrrar tegundar, að hverfa frá stefnunni, sem valin var 1946, og til hinnar fyrri löggjafar Þetta getur Alþingi auðvitað gert, ef það vill. Ég játa að vísu, að viðkunnanlegast væri að setja slík fyrirmæli með lögum. Ég mundi þó telja þáltill., sem samþ. hefur verið við tvær umr. í Sþ. samkv. venju, næga heimild til fjárgreiðslna úr ríkissjóði til þess að gera tilraun með rekstur slíks skóla. En það er ljóst, að slíkur skóli getur ekki eðli sínu samkvæmt tilheyrt gagnfræðastiginu, eins og það nú er skilgreint í lögum, og það er ekki hægt að skylda neitt hérað eða neitt skólahverfi til þess að leggja af sinni hálfu fram á móti ríkisframlaginu. Slíkt framlag verður þá að vera algerlega af frjálsum vilja héraðsins, og slík framlög, hvorki af hálfu ríkisins né af hálfu héraðsins, geta komið í stað skyldunnar til að halda uppi nauðsynlegum, lögboðnum skólum gagnfræðastigsins. Og vist í slíkum skóla getur ekki komið í stað skólaskyldunnar, sem að nokkru leyti á að fullnægja eða er fullnægt með vist í skólum gagnfræðastigsins. Að óbreyttum lögum getur hún ekki komið í þess stað.

Ég tel nauðsynlegt að láta þennan skilning minn á lögunum koma fram. Það er ekki vegna þess, að ég hafi neina andúð á efni till. Ég játa, að það má færa rök bæði með og móti því að koma slíkum skóla upp. Eins og ég sagði í upphafi máls míns, hef ég ekki íhugað þetta mál svo, að ég mundi sjálfur á þessu stigi hafa gert till. um stofnun slíks skóla, en vitanlega mundi mér vera ljúft og er ljúft að fara eftir fyrirmælum Alþingis um það, ef Alþingi samþykkir slík fyrirmæli. En Alþingi verður þá að gera sér ljóst, hvers eðlis sú samþykkt er, úr því að hún er gerð í þessu formi, og hún getur ekki haggað lögunum frá 1946, sem að þessu leyti eru ótvíræð, og sú samþykkt, ef hún er gerð, víkur frá meginbreytingunni og meginumbótunum, sem fyrirsvarsmenn löggjafarinnar frá 1946 töldu sig koma fram, þegar þeir fengu þau lög samþykkt.