27.04.1955
Sameinað þing: 55. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 612 í D-deild Alþingistíðinda. (2946)

175. mál, óháðir alþýðuskólar

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er sýnt af þessari till., að fyrir flutningsmönnum hefur vakað fyrst og fremst, að til væri í landinu skóli fyrir unglinga, þar sem námsfyrirkomulag allt væri mjög frjálslegt, og sérstaklega virðist það hafa vakað fyrir þeim að slíkur skóli væri með öllu leystur undan námskröfum og prófskyldum, sem miðaðar eru við hið svokallaða landspróf. Og það, sem þeir aðallega benda til sem megineinkennis á slíkum skóla, er það, að fyrirkomulag hans ætti að sækja fyrirmynd til héraðsskólanna, eins og þeir störfuðu áður en núgildandi skólalöggjöf gekk í gildi. Þetta eru allt saman sjónarmið. sem geta átt rétt á sér, og það má vel vera, að sú skoðun sé til í sveitum landsins, að viss atriði hafi ekki verið til bóta, þegar héraðsskólunum gömlu var breytt í strangari prófskóla en áður var og sú meginbreyting var á þeim gerð, að þeir voru felldir inn í skólakerfið og nemendurnir. sem sóttu þá, voru ekki unglingar á 16 til 20 og jafnvel 22 ára aldri, eins og þeir voru áður, heldur unglingar á bernskuskeiði, sem voru að yfirgefa barnaskóla og skyldu nú halda áfram náminu í héraðsskólunum í beinu framhaldi af barnaskólanáminu. En þannig er nú lögbundið að unglingarnir skuli fara samfellt úr barnaskólunum og í skóla gagnfræðastigsins. hvort sem þeir eru gagnfræðaskólar í sveit eða í kaupstað. Og það má vel vera, að þessi breyting þyki ekki hafa sýnt neina yfirburði og jafnvel hafi í sveitunum þótt vera spor aftur á bak.

Ég mundi líka vilja taka undir till. eins og þessa. að svo miklu leyti sem hún miðar við það að tryggja, að hér væri til skóli eða skólar með frjálslegu námsformi og að miklu leyti losaðir undan þvingandi prófskyldu, þannig að hægt væri að sinna uppeldi og uppeldisáhrifum og vakningu meira en fræðslu og ítroðslu í þröngum skilningi, miðað við námsbækur.

En nú hefur till. hlotið nokkra breytingu í meðferð nefndar, og er breytingin á þá leið, að snið þessa skóla, sem lagt er til að ríkisstj. hlutist til um að mætti starfa á næsta skólaári. — það er alveg rétt, að það er ekki í till. miðað við stofnun nýs skóla, — væri ekki miðað sérstaklega við form hinna eldri héraðsskóla hér, heldur væri þar bundið við lýðháskólaform, lýðháskólasnið. þ. e. vafalaust fyrst og fremst við þá tegund, sem upprunnin er í Danmörku og kölluð hefur verið lýðháskólar og breiðzt víða út um heim í því formi.

Í till. er þó ætlazt til, að niðurlag upphaflegu till. haldist. en það er á þessa leið: .. enda verði landspróf ekki haldið í þeim skólum“. Þetta niðurlag till. hefði auðvitað átt að falla niður, þegar búið var að breyta till. í það form, að þetta væri lýðháskóli, því að í lýðháskólum er hvorki landspróf né nein önnur próf; það eru ekki prófskólar. Það eru smáatriði, en þó alveg óþarft að taka það fram.

Frsm. vék og að því, að það væri ef til vill erfitt að framkvæma rekstur lýðháskóla eftir ákvæðunum í löggjöfinni um gagnfræðaskóla að því er kostnaðarhliðina snerti, þar sem nemendur í slíkum lýðháskóla mundu auðvitað verða víðs vegar að af landinu, en gagnfræðaskólalögin gera ráð fyrir, að rekstrarkostnaður skóla á því skólastigi sé borinn uppi af ríkissjóði og viðkomandi fræðsluhéraði í sameiningu. En það er gefinn hlutur og það hefur líka komið fram í umræðunum, að þó að slíkur skóli væri stofnaður eða hafinn rekstur slíks skóla með samþykki fræðslumálastjórnar og til þess tekinn annaðhvort gagnfræðaskóli í kaupstað eða gagnfræðaskóli í sveit, að þá hvíldi á því skólahéraði eftir sem áður að halda uppi skyldunámi gagnfræðastigsins. Þessi skóli yrði að koma þar í viðbót, og það væri engin von til þess, að neitt hérað á landinu gerðist til þess, nema þá fyrir brennandi áhuga sakir, að bæta slíkum skóla og hlutdeild í rekstrarkostnaði hans við sig, ofan á það, sem skólalöggjöfin heimtar að öðru leyti. Þennan erfiðleika minntist líka hv. frsm. á og viðurkenndi hann, að mér skildist, að nokkru. Einnig undirstrikaði hæstv. menntmrh. það, að slíkur skóli gæti ekki komið í stað skyldunáms gagnfræðaskólanna, og það er líka rétt.

Nú skyldi enginn halda, að gagnfræðaskóli sé orðinn að lýðháskóla fyrir það, þó að hann væri losaður við skyldu um, að nemendurnir gengju undir landspróf. Það þarf miklu meira til. Lýðháskóli er í fyrsta lagi skóli, þar sem námsefnið er ekki lögákveðið. Það er aftur námsefni gagnfræðaskólanna, hvort sem um bóknáms- eða verknámsdeild er að ræða. Þar er lögbundið námsefni. Þessi skóli yrði að vera leystur undan öllum skyldum um próf, annars væri hann ekki lýðháskóli. Námið í lýðháskóla er ekki bundið við námsgreinar í ströngum skilningi, að öðru leyti en því, að þar eru tvær höfuðnámsgreinar, móðurmál og saga. Að öðru leyti er námið í lýðháskóla í ákaflega frjálsu formi og ekki bútað niður í námsgreinar eða nákvæmlega fastar kennslustundir, heldur og framkvæmt í fyrirlestraformi, og af því leiðir, að það er ekki hægt að framkvæma lýðháskólakennslu í von um, að það beri nokkurn tilætlaðan árangur, með því að þar séu smábörn frá 12–15 ára aldurs, eins og þau eiga að vera í gagnfræðaskólanum samkvæmt íslenzkum lögum. Það verður að vera þroskaðra fólk, til þess að það njóti náms með vekjandi fyrirlestrahaldi og hafandi þannig ekki þá leiðbeiningu og það aðhald, sem lexíunám undir hvern dag veitir.

Það mætti margt fleira fram telja í lengra máli, sem gerir það hverjum manni augljóst, að lýðháskóli er allt annað en lexíu- og prófskóli gagnfræðastigsins, eins og hann er mótaður hér á landi, hvort sem er um bóknámsdeild eða verknámsdeild að ræða. Og hann er alls ekki orðinn neitt í líkingu við lýðháskóla, þó að skyldan um landspróf sé niður felld. Það þarf sem sé eldri nemendur í lýðháskólann, námsefnið þarf að vera óbundið, það á ekki að vera skipt niður í lexíunám frá degi til dags, ekki fastar ákveðnar námsgreinar nema að mjög litlu leyti, og vakning kemur í staðinn fyrir fræðslu. Þetta skólaform er borið uppi af ákveðinni hugsjónastefnu, sem yrði að eiga a. m. k. mjög mikið vald á námstilhögun og námstíma, sem skólanum er ætlað að notfæra sér. En ég er alls ekki að segja, að það væri ástæðulaust, að íslenzka þjóðfélagið ætti slíkan skóla. Það má vel vera, að þess væri þörf. En það yrði varla stofnað til slíkrar skólategundar með þáltill. Það yrði vafalaust að setja um þetta löggjöf, því að innan núverandi löggjafar er sannarlega ekki hægt að framkvæma þetta. ef fyrir flm. vakir annað en það að losna við landsprófið. En það þarf enga þáltill. til þess. því að eins og hv. þm. A-Sk. gat um, er það ekkert brot á lögunum. Þó að nemandi stundi nám í héraðsskóla og meira að segja í bóknámsdeild þar og kennslan þar öll miðuð við landsprófskröfuna, þá getur nemandi samt hætt við að fara undir landsprófið og þannig nokkur hluti nemendanna í bóknámsdeildinni gert það, en gengið undir hið frjálslegra form hins almenna gagnfræðaprófs, hvort sem það er gert eftir þriggja ára nám eða fjögurra ára nám, eins og venjulega er ætlazt til í gagnfræðaskólunum. Það þarf því enga lagabreytingu og enga sérstaka þál. til þess að losa ungt fólk á Íslandi undan landsprófinu. Það er í gagnfræðaskólunum víða ekki nema fjórði hver nemandi, sem gengur undir landspróf, hinir undir gagnfræðapróf og hafa notið miklu frjálslegra fyrirkomulags um kennslu, en þó notið kennslu í öllum þeim lögboðnu námsgreinum, sem kenna skal, verklegum og bóklegum.

Ég hygg því, að það sé ekki nákvæmlega rétt hjá hv. frsm., þegar hann sagði, að það mætti kenna sömu námsgreinar í lýðháskóla og í verknámsdeild gagnfræðaskóla. Það mundi áreiðanlega ekki samrýmast í framkvæmd. Það yrði lagabrot, það yrði vikið frá því námsefni. sem lögbundið er á gagnfræðastiginu, og það væri ekki heldur fólk á þeim námsaldri, sem lögbundið er að skuli vera í verknámsdeild gagnfræðaskóla.

Erfitt er líka að framkvæma það að óbreyttri löggjöf, að unglingur, sem ætti að sinna skyldunámi í verklegu eða bóklegu námi í sveit eða kaupstað, segði: Ég vil vera laus við að fara í gagnfræðaskóla eða héraðsskóla, af því að ég ætla mér seinna, eftir nokkur ár, þegar ég hef fengið þroska til, að fara í lýðháskóla og njóta þar lýðháskólakennslu undir frjálslegum formum. — Það yrði vafalaust ekki að óbreyttum lögum hægt að veita neinu ungmenni slíka undanþágu upp á þetta góða áform eftir fleiri ár. En skólaskylda hvílir nú til 15 ára aldurs á öllum unglingum í landinu. Hins vegar geta þeir valið um, hvort þeir vilja stefna að ströngu námi í bóknámsdeild og síðan ganga undir landspróf til þess að öðlast framhaldsnámsréttindi í kennaraskóla eða menntaskóla eða afla sér gagnfræðaprófs og öðlast þá réttindi til ýmiss konar ákveðinna starfa í þjóðfélaginu og einnig til framhaldsnáms í ýmiss konar sérskólum, svo sem iðnskólum og stýrimannaskólum og þess konar skólum, sem búa undir sérfræðinám í ýmiss konar starfsgreinum.

Niðurstaða mín er því sú, að ef það vakir fyrir flm. að koma hér á fót lýðháskóla, þá verði það ekki gert, ekki einu sinni í tilraunaskyni, nema með því að lagaheimildir komi til um, að hægt sé að halda uppi slíkum skóla á kostnað ríkisins, því að sennilega verður ekkert hérað til þess að bera þann kostnaðarhluta, sem því ber af slíku skólahaldi samkvæmt gagnfræðaskólalöggjöfinni, og að það sé hægt að hafa nám með svo frjálslegum hætti fyrir fólk á þeim aldri, sem gæti notið lýðháskólakennslu með nokkrum vísvitandi árangri. Ég held, að þetta verði alls ekki gert með þáltill., nema með því að ganga þá mjög á svig við gildandi lagaákvæði skólalöggjafarinnar. Hins vegar tek ég enga afstöðu á móti því, að slík löggjöf væri sett, því að það væri gott að fá reynslu á það, hvort lýðháskólaform þætti reynast hér betur en hið nokkuð ákveðnara og bundnara nám gagnfræðaskólanna.

Ég mun því á þessu stigi málsins ekki telja rétt að greiða atkv. með till., þar sem ég tel allar líkur á, að ef til þessa væri stofnað af svo miklu fljótræði, að það ætti bara að taka einhvern héraðsskólann og losa hann alveg við landsprófsskyldu, en láta hann hafa unglinga á hinum lögbundna aldri, 12–15 ára, eins og gagnfræðaskólarnir skulu nú hafa, þá yrði ekki úr því neinn lýðháskóli, og það yrði líka að losa hann undan því að kenna margar af þeim námsgreinum, sem kenna skal samkvæmt lögum í gagnfræðaskóla. Það yrði að ætla þessum skólum rúm til þess að leggja rækt við móðurmálið á mjög frjálslegan og lifandi hátt og sögu Íslands og síðan að öðru leyti að losa skólann við námsgreinaskiptingu og prófskyldu og gefa skólastjóra og kennurum aðstöðu til að flytja vekjandi fyrirlestra um það, sem skólanum væri sérstaklega ætlað að rækta á uppeldisfræðilegan hátt með nemendum sínum.