15.10.1954
Sameinað þing: 3. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 224 í B-deild Alþingistíðinda. (295)

1. mál, fjárlög 1955

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. síðasti ræðumaður talaði hér nokkuð um eðli og innræti íhaldsins. Þessi hv. þm. má vara sig, hann verður að gæta sín, ef hann á ekki að fá þau eftirmæli í íslenzkum stjórnmálum, að hann hafi verið einn hinn bezti stuðningsmaður íhaldsins, sem á síðari árum hefur komið fram á sjónarsviðið. Hann má þá a.m.k. ekki framvegis leika hlutverk kolkrabbans í því liði, sem að ýmsu leyti ætti að standa saman á móti íhaldinu.

Ég mun víkja nokkrum orðum að því, sem sagt hefur verið hér viðvíkjandi fjárlfrv. Talsmaður Sjálfstfl., 2. þm. Eyf., gerði hér grein fyrir stefnu Sjálfstfl. í fjármálum, — eða því, sem hann kallaði stefnu Sjálfstfl. í fjármálum. Ég ætla að minnast á tvö atriði í því sambandi. Annað er, að hv. þm. sagði, að fjmrh. Sjálfstfl. hefði lagt á það ríka áherzlu á árunum fyrir 1950, að stefnubreyting yrði tekin upp. Ég held, að hér sé um einhvern misskilning að ræða hjá hv. þm. Sannleikurinn er sá, að það vottaði ekki fyrir því, að gerð væri nokkur gangskör að stefnubreytingu á þeim tíma og ekki fyrr en framsóknarmenn sumarið 1949 gerðu tillögur að stefnubreytingu í þeim málum, og þá var þeim tillögum allt annað en vel tekið af forustumönnum Sjálfstfl., bæði í stjórninni og utan hennar. Framsfl. var álitinn hinn versti friðarspillir fyrir að vilja taka þau mál til uppgjörs. Það var ekki fyrr en eftir kosningarnar, að tekið var af öðrum undir þær tillögur, sem Framsfl. hafði gert fyrir kosningarnar. Framsfl. gerði þá tillögu um gengisbreytingu eða niðurfærslu og margvíslegar ráðstafanir í því sambandi.

Þá sagði hv. 2. þm. Eyf., að það hefði tekizt að rýmka á verzlunarhöftunum og þar af hafi stafað auknar tekjur ríkissjóðs. Út af þessu gefst mér tiletni til að benda á það og taka greinilega fram enn þá einu sinni, og ekki sízt vegna þess, að það er fullkomin nauðsyn, að menn skilji samhengið í því, að það kom ekki til mála að rýmka á verzlunarhöftunum fyrr en búið var að koma á greiðsluhallalausum fjárlögum. Það sem rýmkað hefur verið á verzlunarhöftunum er bein afleiðing nýrrar fjálrmálastefnu.

Það er afleiðing gengisbreytingarinnar og þess hagræðis, sem framleiðslunni varð af henni, og afleiðing þess, að tekinn var upp greiðsluhallalaus ríkisbúskapur. Það var ekki fyrr en búinn var að vera greiðsluhallalaus ríkisbúskapur í meir en heilt ár, að til mála gat komið að slaka á verzlunarhöftunum. Þetta er ekki sízt nauðsynlegt að vita fyrir sjálfstæðismenn, sem telja sig fylgjendur frjálsrar verzlunar. Þeim þyrfti að vera ljóst, að allt tal um frjálsa verzlun er út í bláinn, ef fjármálunum er stjórnað eins og gert var fyrir 1950.

Hv. 4. þm. Reykv., Haraldur Guðmundsson, sagði, að það væru fullkomin öfugmæli, og hann þóttist halda, að ég hefði gert það í spaugi að tala um, að skattar og tollar hefðu veríð lækkaðir, vegna þess að ríkistekjurnar hefðu farið hækkandi. Ég vil nú ekki vera að þræta við jafnglöggan mann og hv. 4. þm. Reykv. er um þetta. Ég vil bara svara þessu með einni spurningu. Mundi hann telja það lækkun á sköttum og tollum, ef ríkistekjurnar færu lækkandi vegna versnandi árferðis, vegna eymdarástands, þó að allir skattar og allir tollar stæðu óbreyttir? Mundi hann kalla það lækkun á sköttum og tollum? Ég held ekki. Ég held, að hann mundi þvert á móti halda hrókaræður um, að það hefði öllum sköttum og tollum verið haldið óbreyttum. Með sinni þrumuraust hefði hann á það lagt áherzlu, að samt sem áður væri útkoman sú og afleiðing af stjórnarstefnunni, að ríkistekjurnar færu lækkandi og allt drægist saman í fullkomna eymd. Á þessu sjáum við, að þetta tal um hærri skatta og tolla er ekkert annað en orðaleikur hjá hv. þm. í þessu sambandi. Það er staðreynd, að skattar hafa verið lækkaðir stórlega, tollar hafa líka verið lækkaðir, en tolltekjur og skatttekjur verða samt meiri en áður vegna vaxandi þjóðartekna.

Þá sagði hv. þm., að krónan færi stöðugt lækkandi síðan 1950. Þetta er skaðlegur áróður. Það rétta í málinu er það, að verðlag hefur verið stöðugt síðan 1952. og það er engum þjónað með því að breiða yfir þá staðreynd, heldur þvert á móti ástæða til að halda henni á loft til þess að auka líkurnar fyrir því, að svo geti orðið áfram. Allur óábyrgur áróður í aðra stefnu eykur á upplausn og hættuna á því, að ástandið breytist til hins verra fyrir alla.

Hv. 3. landsk. þm., Hannibal Valdimarsson, sagði, að fjrmh. hefði oft sagt: „Það er ekki hægt að spara.“ Þetta hefur núverandi fjmrh. aldrei sagt, og þetta hefur verið leiðrétt hjá hv. landsk. þm. í hvert skipti, sem hann hefur haldið þessu fram. Þetta er hreinn uppspuni. Ég hef sagt, að það væri ekki hægt að lækka ríkisútgjöldin þannig, að straumhvörfum gæti valdið í fjármálum landsins, nema með því að lækka stórkostlega framlög til margrar þjónustu, sem ég hef svo talið upp. Það er þetta, sem ég hef sagt, og ekkert annað. En um þennan hv. þm. er það sannast mála, að það er enginn ákafari stuðningsmaður hækkana á fjárlögum til á Alþ. heldur en hann, nema það væru þá kommúnistarnir. — Þá er annað athyglisvert. Þessi hv. þm. fór að lesa hér upp í þeim ræðutíma, sem hann hafði og var takmarkaður og reyndist honum of stuttur, ýmsar fjárlagagreinar og hvað þær hefðu hækkað. Hvers vegna eyddi hann ekki heldur tímanum til þess að segja mönnum, hvað hann vildi lækka á fjárlögunum? Var ekki nær að nota tímann til þess að lofa hlustendum að heyra, hvað hann vildi lækka á fjárlögunum? Þannig var málfærsla þessa hv. þm., og eru þó hér ekki tekin nema sýnishorn.

Þá vil ég víkja fáeinum orðum að því, sem hv. 8. landsk. þm. sagði. Hv. þm. sagði, að það héldi áfram óhæfilegt sukk og spilling, og viðhafði hin stærstu orð í því sambandi. Ef þetta er rétt, hvers vegna notaði þá ekki þessi hv. þm. ræðutíma sinn hér við útvarpið til þess að fletta ofan af þessu sukki og þessari spillingu? Hvers vegna notaði hann ekki aðstöðu sína hér til þess að segja þjóðinni frá, í hverju hún væri fólgin? Hvers vegna notaði hann allan ræðutíma sinn hér í heimspekilegar hugleiðingar fram og aftur, ef leyfast mætti að nefna jafnvirðulegt orð og heimspeki í sambandi við þann málflutning? Það var undarlegt, að hv. þm. skyldi ekki gera þetta. Þá sagði hv. þm., og ég nefni það hara sem sýnishorn um hugsanaganginn, að það væri ein af till. stjórnarinnar að leggja niður veitingaskattinn, stjórnin felldi veitingaskattinn niður af fjárlfrv., en auðvitað ætti hann að vera þar. Sem sé, á einu þskj. átti stjórnin að leggja til. að veitingaskatturinn yrði felldur niður. Á öðru þskj. átti stjórnin að leggja til, að hann stæði áfram. Þetta er hugsanagangur hv. þm.

Þá sagði hv. 8. landsk. þm., og það var aðalefnið í ræðu hans, að atvinnuvegirnir hefðu dregizt stórkostlega saman og framleiðslan, og á móti kæmi svo síaukið betl og gjafafé og auknar hernaðarframkvæmdir. Ég veit ekki, hvar þessi hv. þm. hefur verið undanfarið. Maður gæti haldið, að hann hefði alls ekki verið á Íslandi. Sannleikurinn er sá, að Marshallaðstoðin féll niður á síðasta ári, hefur því engin verið í ár. Vinna við hernaðarframkvæmdir er minni í ár en hún var í fyrra. Auknar þjóðartekjur í ár stafa alls ekki af aukinni hernaðarvinnu, þvert á móti. Sannleikurinn er sá, að framleiðslustarfsemi hefur orðið stórum meiri á þessu ári en nokkru sinni áður á síðari árum. — Það getur vel verið, að það hafi verið heldur daufleg vístin á Skólavörðustignum í sumar. Það getur vel verið, að það hafi verið lítið um að vera og fjörlítil starfsemi yfirleitt í herbúðum Þjóðvfl. á Skólavörðustíg. en hv. þm. má ekki draga ályktanir af því. — Öll ræða hv. 8. landsk. var út í bláinn. Hún var byggð á skökkum forsendum.

Þá sagði hv. þm., að stjórnarliðið væri að halda því að mönnum, að þjóðin gæti ekki komizt af án erlendrar hjálpar. Hverjir eru það, sem hafa verið að spá því undanfarið, að hér mundi verða algert fjárhagshrun, ef Marshallaðstoðin hætti? Því hefur ekki stjórnarliðið spáð. Það eru stjórnarandstæðingar, sem hafa spáð því. En hvað hefur skeð? Marshallaðstoðin er hætt, og hér hefur ekkert hrun orðið, og hafa þó verið minnkaðar hernaðarframkvæmdir. Nei, það eru einmitt hv. stjórnarandstæðingar og jafnvel sérstaklega hv. 8. landsk. þm., sem hafa verið að halda þessu að þjóðinni, en talsmenn stjórnarinnar hafa ekki gert það.

Þá kem ég loks að hv. 9. landsk. þm., talsmanni kommúnista. Annars virtist mér ræða hans vera samhengislausir þankar. Hann sagði, að fjmrh. hefði verið ákaflega ánægður með sjálfan sig og hann væri sérstaklega ánægður með það að hafa nokkra aura í bauknum, sem hann gæti, ef í það færi, komið og hrist, svo að menn gætu heyrt aurahljóðið í útvarpið. Athugum út af þessu, hvað gerzt hefur.

Ríkistekjurnar hafa farið stórlega hækkandi með lækkandi sköttum. Ætli það sé fjmrh. einn, sem hefur ástæðu til þess að vera ánægður með þá þróun? Ég held ekki. Ég held, að hún snerti nánast alla landsmenn. Það verður væntanlega nokkur greiðsluafgangur, og það hefur orðið greiðsluafgangur á undanförnum árum. Það sagði hv. þm. að væri einkamál fjmrh., það væru aurar handa honum að leika sér með. En ætli þeim finnist sama um þetta og hv. þm., sem notið hafa þessara fjármuna í margs konar auknum framkvæmdum víðs vegar um landið? Svo að segja allur greiðsluafgangurinn hefur verið notaður til margvíslegra framkvæmda í almannaþágu. Ætli þeim, sem njóta þeirra, finnist greiðsluafgangurinn hafa aðeins orðið handa fjmrh. til þess að leika sér með? Ég hugsa ekki. Ég hugsa, að það eigi enn eftir að fara svo, að verði greiðsluafgangur, sem við vonum fastlega að verði, þá verði hægt að styðja með honum ýmsar nýtilegar framkvæmdir. Hv. 9. landsk. þm. er frjálst fyrir mér að fara um það hæðilegum orðum. Það mun gera sama gagn fyrir því, þar sem það kemur niður.

Þá bjó þessi hv. þm. til þá kenningu og lagði mér í munn, að sjávarútvegurinn væri ómagi, og margendurtók það í ræðu sinni. Ég hef aldrei svo mikið sem imprað á neinu í þessa átt. Ég hef þvert á móti ætíð lagt höfuðáherzlu á að búa þannig að undirstöðuatvinnuvegum þjóðarinnar, að þeir þyrftu ekki að sækja styrki til hins opinbera, til þess að menn skyldu ekki fá þá skökku hugmynd, að einmitt sjálfir undirstöðuatvinnuvegirnir væru hálfgerðir ómagar á hinum. En kommúnistar, flokksmenn þessa hv. þm., hafa sýnt þeim málum mestan fjandskap, sem orðið hafa að mestu gagni fyrir sjávarútveginn, og er þar elnfaldast að vísa til bátagjaldeyrisins.

Þá sagði þessi hv. þm., að fjárlfrv. væri ekki í neinu samhengi við líf þjóðarinnar, það væri samhengislaust við líf þjóðarinnar. Hann kom að þessu oftar en einu sinni í ræðunni. Hvað á svona skraf að þýða? Það er eins og þetta sé samið — þetta var víst skrifuð ræða — í einhvers konar dvala. Þetta er fullkomlega í þoku talað. Álítur hv. þm., að það sé ekki í neinu samhengi við líf þjóðarinnar að verja 50 millj. til þess að lækka verð á nauðsynjavörum, svo að maður taki það dæmi, að verja 40–50 millj. til almannatrygginga, að verja 60–70 millj. í verklegar framkvæmdir, að verja 30–40 millj. til stuðnings landbúnaði og sjávarútvegi o.s.frv., o.s.frv. Ég segi: Hvað á svona skraf að þýða. og mjög mega þeir menn tómir vera, sem nota ræðutíma sinn á Alþ. í fjárlagaumræðum í svona skraf.

Þá kom þessi hv. þm. með stórfellda útreikninga, sem áttu að sýna það, að ríkissjóður tæki af meðaltekjum verkamanna hvorki meira né minna en nærfellt helminginn í skatta og tolla. Allur útreikningur sá, sem hv. þm. flutti í þessu sambandi, er falsaður margfaldri fölsun. Í fyrsta lagi er það, að 50 millj. af ríkistekjunum, sköttunum og tollunum, eru beinlínis borgaðar út aftur til lækkunar á verði nauðsynjavara. Í öðru lagi, að mjög mikill hluti af ríkistekjunum er borgaður af fyrirtækjum, borgaður af tekjum þeirra, og kemur því aldrei fram sem útgjaldaliður á heimili launamanns. í þriðja lagi er, að stór hluti af ríkistekjunum er lagður á lúxusvörur, sem fólk með meðaltekjur eða þar undir kaupir alls ekki. Þessi reikningur er því margföld fölsun, eins og líka sést glöggt þegar það er athugað, að allar tekjur ríkissjóðs munn vera sem næst milli 18–20% af þjóðartekjunum. Þessi hv. þm. er víst kennari í Vestmannaeyjum. Ég vona, að hann kenni þó a.m.k. ekki reikning.

Að síðustu vil ég segja þetta: Mér finnst það koma fram í ræðum hv. stjórnarandstæðinga, að þeir séu blátt áfram miður sín af reiði yfir því, að framleiðsla og þjóðartekjur hafa vaxið svo, að ríkistekjurnar hafa aukizt, þótt skattar og tollar hafi verið lækkaðir. Þetta gengur eins og rauður þráður í gegnum allt, sem frá þessum mönnum kemur. En þessi reiði þeirra verður léttbær, þegar þess er gætt, að út af þessu eru engir aðrir reiðir en þessir hv. talsmenn stjórnarandstæðinga. Þeir eru þeir einu, sem eru reiðir út af þessu. Almenningur fagnar því, að þjóðartekjurnar hafa vaxið og almenn farsæld aukizt.