30.03.1955
Sameinað þing: 49. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 625 í D-deild Alþingistíðinda. (2956)

177. mál, fiskveiðalandhelgi

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Um efnishlið þessa máls vil ég segja það, að eins og kunnugt er vinna Íslendingar að málinu á alþjóðavettvangi með a. m. k. þrennum hætti. Það er unnið að málinu gegnum efnahagssamvinnustofnun Evrópuþjóðanna, það er unnið að því gegnum Evrópuráðið, og það er unnið að málinu á vettvangi Sameinuðu þjóðanna.

Ég hygg, að öll málssókn af hendi Íslendinga í þessum efnum hafi orðið til þess að skýra okkar málstað og styrkja hann. Og það er nokkuð eftirtektarvert, að jafnvel þar, sem aðrir hafa tekið upp málið en við, hefur sóknin fallið niður af annarra hendi, eftir að Íslendingar hafa verið búnir að bera fram sitt mál. Þeir, sem eru kunnugir vinnubrögðum bæði fyrrverandi og núverandi ríkisstj., allt frá því að reglugerðin um víkkun landhelginnar var út gefin í marzmánuði 1952, vita, að það hefur verið haldið á þessu máli af allri þeirri festu, sem æskileg er af hendi Íslendinga, og hvergi slakað til í neinu.

Hér er aftur á móti borin fram till. um það, að nú eigi Íslendingar að hefjast handa og hafa forgöngu um samtök þeirra þjóða, sem hafa víðari landhelgi en 3 mílur, og þá væntanlega til sameiginlegra ákvarðana þessara þjóða í þessum efnum. Ég er alls ekki reiðubúinn til að segja um það í dag, hvort þetta er hrein fásinna eða hvort það er skynsamlegt; það gæti vel verið hrein fásinna.

Það fer ekkert leynt hjá þeim, sem hafa kynnt sér þetta mál, að aðstaða Íslendinga er sterkari en margra annarra þjóða og jafnvel sumra þeirra þjóða, sem hafa tekið sér jafnmikinn rétt og Íslendingar. Ég veit það, að mjög viti bornir menn í þessum efnum hafa viljað styðja Íslendinga með þeim rökum, að vegna þess, hve sérstakt er landgrunn Íslendinga, stöpullinn, sem Ísland stendur á, þá geti Ísland af þeim ástæðum öðlazt, ef vel og viturlega og hóflega er haldið á málinu, víðari rétt en sumir aðrir, sem hafa helgað sér meiri rétt. En ég sagði: Ef vel og viturlega og hóflega er haldið á málinu.

Ég veit þess vegna ekki, hvort við, þótt fáir séum og smáir, eigum að hóa saman öllum þeim, sem tekið hafa sér rétt, sem ekki er viðurkenndur, og gera okkar mál að þeirra máli. Ég veit ekki um það. Ég álít hins vegar sjálfsagt, úr því að þessi till. er fram komin, að þá sæti hún meðferð í þingnefnd, en ég mundi leggja til, að að lokinni þeirri meðferð yrði till. vísað til ríkisstj. til nánari athugunar þar.

Ég hef ekki talið æskilegt fyrir mitt leyti að ræða þetta mál út frá því sjónarmiði að gefa opinberlega fullkomnar skýrslur um álit og aðgerðir ríkisstj. á hverjum tíma, af því að ég hef ekki talið, að það væri endilega það, sem hentaði okkar málstað bezt. En auðvitað eiga alþingismenn rétt á því að fá að vita, hvernig ríkisstj. hefur hagað sínum aðgerðum og hvaða hugsanir eða fyrirætlanir hafa legið til grundvallar fyrir aðgerðum stjórnarinnar.

Ég skal svo ekki reyna að hafa vit fyrir mönnum um það, hvort það eigi að vísa þessu máli til einnar nefndar eða annarrar. Ég get ekki komizt hjá því samt að taka undir með hv. formanni allshn., 1. þm. Eyf., að mér finnst eðli málsins samkv., að það hljóti að eiga að vísa því til utanrmn. En mér finnst það ekki að því leyti skipta máli, þó að þingsköp auðvitað beri að virða, að endirinn yrði áreiðanlega sá sami, til hvorrar n. sem það færi. Málið mundi sæta sömu meðferð, því yrði að lokinni umræðu í n. áreiðanlega vísað til ríkisstjórnarinnar.