13.04.1955
Sameinað þing: 51. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 629 í D-deild Alþingistíðinda. (2967)

184. mál, úthafssíldveiðar

Flm. (Kristinn Gunnarsson):

Herra forseti. Það, sem farið er fram á í þessari þáltill., er, að ríkisstj. geri sérstakar ráðstafanir til þess, að hafnar verði skipulegar tilraunir til að afla íslenzka fiskiflotanum hið allra fyrsta veiðitækis, sem geri síldveiðar mögulegar í stórum stíl á opnu hafi, þótt síld vaði ekki.

Það er óþarft að fara um það mörgum orðum, hve mikil vandræði og tjón hefur af því hlotizt, að síldin hefur ekki veiðzt undanfarinn áratug á sínum gömlu miðum og hagað sér á hinn gamla máta, þannig að auðvelt væri að veiða hana í okkar venjulegu herpinót fyrir Norðurlandi. Við vitum það, og landsmenn vita það allir, að það hefur verið gífurlegt tap á þeim síldveiðum, sem landsmenn hafa stundað fyrir Norðurlandi undanfarinn áratug. Ef engin breyting verður á þeim högum, sem síldin hefur haft undanfarin ár, er sýnilegt, að þessar veiðar fyrir Norðurlandi hljóta að dragast saman eða leggjast að miklu leyti niður eftir nokkur ár, því að það hlýtur að reka að því, að útgerðarmenn geti ekki hafið veiðar upp á það að fá ekki nema sáralítið upp í þann kostnað, sem þeir leggja í. Það mun ekki heldur vera á færi ríkisins eða einstaklinga að setja á stað síldarverksmiðjur, sem kannske fá eins dags afla yfir alla vertíðina, sem ella gæti staðið allt að tveimur mánuðum.

Nú er það nýtt í síldveiðimálunum, að það hafa farið fram rannsóknir á undanförnum árum, sem virðast ár frá ári veita meiri upplýsingar um hegðun síldarinnar. Við það hafa skapazt vonir um, að eftir nokkur ár og jafnvel alveg á næstu árum megi fylgjast það mikið með göngu síldarinnar í úthafinu norður og norðaustur af Íslandi og ef til vill víðar, að þær upplýsingar um göngu síldarinnar geri kleift að hefja veiðar á nýjum slóðum. Hins vegar er það augljóst, að til að veiða síld á nýjum slóðum við nýjar aðstæður þarf ný tæki eða a. m. k. endurbætur á gömlum tækjum. Það er vitað mál, að það er ekki hægt að senda okkar litlu síldveiðiskip með herpinótabáta út á úthaf til að veiða þar. Þeir bátar duga þar ekki í misjöfnu veðri, og þeir síldarbátar, sem við höfum hér, 100 tonn og þar yfir, komast ekki til eða frá landinu í misjöfnu veðri með herpinótabáta sína og síldarnót. Þess vegna verður eitthvað nýtt að koma til. Einnig er það, að síldin hefur ekki vaðið, sem kallað er, ekki komið alveg upp á yfirborðið, þegar hún fer hér um úthafið — oft á tiltölulega litlu dýpi og stundum á allmiklu dýpi.

Það er þess vegna alveg sýnt, að ef við eigum að reyna að hagnýta okkur silfur hafsins áfram, þótt það komi ekki á sínar gömlu slóðir, þá verðum við að afla nýs tækis til að framkvæma þær veiðar, og það er lagt til í þessari þáltill., að lögð verði rík áherzla á, að þetta tæki verði fundið hið allra fyrsta.

Það má kannske segja, að það sé auðvelt að óska eftir því, að eitthvert nýtt veiðitæki finnist, sem leysi þann vanda, sem fyrir hendi er. Hins vegar er á hinn bóginn líka ljóst, að það er ekki hægt á þessari öld hinnar miklu tækni að gera allt of mikið úr þeim erfiðleikum eða úr þeim vanda, sem á því er að leysa þau vandamál, sem hér eru fyrir hendi.

Síðustu árin — og síðustu áratugina má segja — hefur maður horft upp á, að svo mörg tæknivandamál hafa verið leyst og hinir undarlegustu og ótrúlegustu hlutir hafa skeð, að ég vil leyfa mér að staðhæfa, að það hlýtur að vera hægt með þeirri tækni, sem við ráðum yfir í dag og til staðar er í dag, að leysa þau vandamál, sem því eru samfara að veiða síld á nokkru dýpi, þó að hún vaði ekki.

Mér er kunnugt um, að það hafa verið gerðar tilraunir með þetta að nokkru leyti hér og að nokkru leyti erlendis á undanförnum árum. Hins vegar tel ég, að við Íslendingar höfum lagt allt of litla áherzlu á að hraða okkar eigin rannsóknum og okkar tilraunum með sjálfa síldveiðina og það sé mjög nauðsynlegt að láta bæði rannsóknir á síldargöngunum sjálfum og síldveiðitækninni haldast í hendur, því að okkur er það að vísu nokkur fróðleikur að vita mikið um síldargöngur, en miklum mun meira skiptir þó, að við höfum samtímis yfir að ráða tækjum, sem gera okkur kleift að hagnýta þá síld, sem í sjónum er.

Það er sýnilegt, að okkar gömlu herpinótaveiðar duga ekki á úthafinu, vegna þess að nótabátarnir duga þar ekki í misjöfnu veðri. Þess vegna er alveg augljóst, að þær síldveiðitilraunir, sem gera þarf og gera verður til þess að leysa vandamálið í sambandi við úthafssíldveiðar, verða að stefna að því að losna við þessa nótabáta, og það verður að veiða síld af einu skipi með einhverju móti. Á hinn bóginn verður líka að gera áframhaldandi tilraunir með síldarvörpu, því að það er nokkur von til að halda, ef þær tilraunir væru gerðar ýtarlegar og gerðar skipulega og af krafti, að þá mætti, áður en allt of langur tími líður, leysa það vandamál að ná síld í vörpu á ýmsu dýpi, á sama hátt og tiltölulega nýlega er búið að leysa það vandamál að veiða þorsk í svokallaða flotvörpu. En það er sem kunnugt er búið að fullkomna botnvörpuna þannig, að það er ekki einungis um að ræða beina botnvörpu, heldur vörpu, sem hægt er að nota og stilla á mismunandi dýpi eftir því, hvar þorskurinn er hverju sinni.

Það er auðvitað allmikill kostnaður því samfara að taka upp af miklum krafti tilraunir til þess að leysa þau tæknilegu vandamál, sem hér eru á ferðinni. Hins vegar vil ég halda því fram, að ef hafður er í huga sá mikli kostnaður, sem á hverju einasta ári er lagt út í í því formi að gera út báta, gera síldarverksmiðjurnar tilbúnar að taka á móti síld, flytja fólk á milli landshluta til að hafa það tilbúið til að salta síld og þar fram eftir götunum á fjöldamargan máta, — kostnaður, sem ekki nema að litlu leyti hefur fengizt greiddur undanfarinn áratug, og kostnaður, sem nemur vafalaust tugmilljónum króna, — og þó að nokkrum millj. kr. væri varið til þess á næstu örfáum árum að reyna til þrautar, hvort ekki mætti fljótlega leysa þau tæknilegu vandamál, sem þarna eru á ferðinni, þá vil ég sem sagt leyfa mér að segja, að þær 5 eða 10 millj. kr. eða hvað það er, sem til þess þarf, eru tiltölulega mjög lítið fé. Það má líka jafna aflaleysi á síldveiðum undanfarið og þeim vanda, sem síldarútvegur allur hefur komizt í af þeim sökum, við t. d. þær fjárpestir, sem hafa herjað á landbúnaðinn og tekið var föstum tökum á, að vísu með allmiklum kostnaði, en það eru að mínu viti jafnmikil og sterk rök til þess að verja nokkrum millj. kr. í þeim tilgangi að reyna að bæta úr þeim vandræðum, sem síldveiðiflotinn og síldarútvegur og iðnaður landsmanna hefur orðið fyrir á undanförnum árum, og til þess að gera þessar tilraunir.

Það mætti flytja langt mál um það, hvaða þýðingu fyrir þjóðarbúið það hefði að geta aflað allmikils síldarmagns á hverju ári umfram það, sem verið hefur á þessum síldarleysisárum, sem við höfum haft undanfarið. Við vitum hins vegar, að það hlaupa fljótt á hundruðum milljóna fyrir þjóðarbúið þær tekjur, sem af því hlytust í einu og öðru formi, og skal ég ekki orðlengja um það. En alveg sérstaklega mundu áhrif af lausn þessa máls vera þau, að það kæmist á ný miklu styrkari grundvöllur undir allt atvinnulíf norðanlands, austan og vestan, þannig að ef við getum með því að vinna að þeim málum af krafti á næstu örfáum árum leyst þennan vanda, þá væri það meiri stoð undir jafnvægi í byggð landsins en nokkurt annað mál, sem hægt væri að leiða fram til sigurs í því efni.

Það má hugsa sér ýmsar leiðir til þess að leysa þessi vandamál, sem þarna er um að ræða. Það má hugsa sér, að eingöngu yrðu til þess fengnir íslenzkir aðilar og sú mikla reynsla, sem íslenzkir sjómenn búa yfir, íslenzkir sérfræðingar í fiskimálum og íslenzk verkfræðiþekking, og það er mín trú, að þótt ekki væri víðar farið, þá mætti fara mjög langt, ef ekki leysa fullkomlega þau vandamál, sem við er að eiga. Það má líka hugsa sér, að erlendir aðilar séu fengnir til þess að glíma við þessi vandamál, og það er alls ekki útilokað, að ég tel, að hægt væri að fá erlenda aðila til þess að gera slíkar tilraunir, þó að þeir sjálfir að einhverju leyti bæru af því kostnað og áhættu. En sá er gallinn við að fela erlendum aðilum að leysa þessi mál fyrir okkur, að við mundum, eftir að búið væri að leysa þau, tvímælalaust þurfa að borga það dýru verði í einu eða öðru formi að hafa fengið þeirra þjónustu — í formi einkaleyfisgjalda og með öðru móti, þannig að þó að kostnaðurinn verði allmikill ef til vill í fyrstu umferð, ef við gerum þetta sjálfir, þá er það mín trú, að það verði mun ódýrara, þegar til lengdar lætur, að nota íslenzkt hugvit, íslenzkt framtak og þekkingu til þess að vinna ötullega að þessum málum.

Ég vil svo að lokum benda á, að það er gífurlegt hagsmunamál fyrir þjóðarbúið og landsmenn alla í heild, að það dragist sem allra minnst, að þessi mál verði leyst. Það er dýrt hvert árið, sem líður án þess, að við getum ausið af silfri hafsins í þjóðarbúið, og þess vegna er þessi þáltill. flutt, — ekki af því, að það sé ekki talið, að þessi lausn finnist einhvern tíma eða að einhverjir komi ekki með hana um síðir, heldur er þáltill. flutt fyrst og fremst vegna þess, að við þurfum þjóðarbúsins vegna og þjóðarinnar vegna að fá lausn á þessu hið allra fyrsta.