10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í D-deild Alþingistíðinda. (2996)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Emil Jónsson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. þm. Barð. Ég skal ekki fara að deila við hann um það, hvort öryggiseftirlit ríkisins hefur verið rækt vel eða illa, en hitt vil ég fullyrða, að möguleikarnir til þess að rækja það vel voru ekki fyllilega fyrir hendi, þar sem á skorti ýmis atriði í löggjöf um þessi efni. Um það var barizt hér á Alþingi hvorki meira né minna en í fjögur ár. Hann sagði, að ég hefði verið við stjórn iðnaðarmála þennan tíma, og það er rétt, en ég flutti frv. strax 1948 og aftur 1949, 1950 og 1951 um það að fá þeim atriðum kippt í lag, sem lagfæra þurfti til þess að gera eftirlitið eins „effektivt“ og mögulegt var. Þetta fékkst fyrst gert á þinginu 1951.

Ég vil aðeins taka það fram, að grundvöllurinn undir það, að eftirlitið geti verið fullkomlega og örugglega rækt, er, að það finnist lagastafur eða reglugerðarákvæði, sem hægt er að byggja á, og fyrr en það er fyrir hendi, getur þetta eftirlit ekki orðið eins og það á að vera.