10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (2997)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Gunnar Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel, að þessi fsp., sem hér hefur fram komið, sé mjög tímabær og sé vel, að hún hafi komið fram. Það er ekki lengra síðan en nokkrar vikur, að suður á Keflavíkurflugvelli varð dauðaslys, og það er álit þeirra manna, sem þar til þekkja, að það slys hefði ekki þurft að verða, ef hefði verið gætt þeirrar varasemi og hefði verið fylgt þeim reglum, sem á að fylgja við útbúnað um öryggi á vinnustað. Máske gilda aðrar reglur um öryggi á vinnustað þar suður frá en annars staðar?

Ég vil aðeins benda á þetta hér, vegna þess að þetta er svo nærtækt. Það er vitanlega hægt að koma með ótal dæmi, sem sýna það og sanna, að öryggi á vinnustað er ekki eins vel framfylgt og ætti að vera. Eftirlitið er langt frá því að vera eins fullkomið og nauðsynlegt er. Það verður að segja hverja sögu eins og hún er, að vanalega er fyrst farið að hugsa um öryggi eftir að slysin hafa orðið, því miður. Það er eitt, sem þeir aðilar, sem um þessi mál eiga að fjalla, verða að hafa í huga, og það er að útiloka, eftir því sem frekast er hægt, slys á vinnustöðunum. Það er of seint að byrgja brunninn, þegar barnið er dottið ofan í, og til þess eru þau dæmi um slys, sem hafa orðið, of alvarleg. Það ber þegar að sjá um, að þeim reglugerðum, sem um þessi mál fjalla, sé framfylgt til hins ýtrasta og þeim aðilum, sem um verk sjá, þ. e. atvinnurekendum og verkstjórum, gert að skyldu að gæta fyllsta öryggis á vinnustað og ströng viðurlög lögð við, ef settum reglum er ekki framfylgt.