10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 656 í D-deild Alþingistíðinda. (2998)

83. mál, öryggisráðstafanir á vinnustöðum

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Ég vil út af ummælum frá hv. 5. landsk. (EmJ) aðeins benda á, að það er misskilningur, að það hafi vantað grundvöllinn undir eftirlitið þann tíma, sem hann stjórnaði þessum málum. Það sýndi sig við samanburð á löggjöfinni og frv., sem hann flutti allan tímann hér á þinginu, að það var langsamlega mest reglugerðarákvæði, sem um var deilt og hægt var að koma í framkvæmd, ef hann sem ráðh. hefði viljað gefa slíkar reglugerðir út. Það var eitt atriði m. a., sem var deilt um mjög á þeim tíma, og það var um það, hvort ætti að greiða skoðunargjöldin til sýslumannanna í landinu, hvort sem skoðun færi fram eða ekki, eða eftir hverja skoðun. Og það var sett inn af Ed., að skoðunargjöldin skyldu greidd að skoðuninni lokinni til þess að fá fulla tryggingu fyrir því, að skoðun færi fram, því að það var vitað, að öll þessi ár voru gjöldin innheimt af lögreglustjórum og sýslumönnum í landinu, án þess að skoðanir kannske færu fram. Þetta var ein meginástæðan fyrir því, að eftirlitið var svo lélegt sem það var, svo að það er engan veginn rétt, að það hafi vantað grundvöll undir eftirlitið. Það vantaði, að eftirlitinu væri fylgt fram á grundvelli þeirra reglugerða og laga, sem fyrir voru.