10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 657 í D-deild Alþingistíðinda. (3002)

207. mál, sparifjáruppbætur

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Í gengisskráningarlögunum, nr. 22 frá 1950, segir svo í 13. gr., með leyfi hæstv. forseta:

„Af skatti þeim, sem innheimtist samkv. 12. gr. (þ. e. a. s. stóreignaskattinum), skal 10 millj. kr. varið til þess að bæta verðfall, sem orðið hefur á sparifé einstaklinga, þ. e. einstakra manna, en ekki félaga, stofnana, sjóða eða annarra ópersónulegra aðila. Til sparifjár telst í þessu sambandi fé, sem lagt hefur verið til ávöxtunar í banka, sparisjóði, innlánsdeildir samvinnufélaga og aðrar lánsstofnanir, sem eins stendur á um að þessu leyti; enn fremur innstæður einstaklinga í verzlunarreikningum, sem venjulegir innlánsvextir sparisjóða hafa verið greiddir af, enda liggi fyrir yfirlýsing skattanefnda um innstæðuna og skattgreiðslu af henni.“

Síðan eru nokkur nánari ákvæði í gr. um framkvæmd á greiðslu þessarar uppbótar. Hér var m. ö. o. gert ráð fyrir því, að um 10 millj. kr. skyldu greiddar sparifjáreigendum sem uppbót fyrir það verðfall, sem orðið hafði á sparifé einstaklinga og gert var ráð fyrir að verða mundi til viðbótar vegna þeirra ráðstafana, sem lögin fjölluðu um, þ. e. a. s. gengisskerðingar íslenzku krónunnar.

Tvö ár liðu frá samþykkt þessarar lagagreinar, og ekkert bólaði á því, að sparifjáreigendum væri greidd þessi fjárhæð, ekkert bólaði á því, að skýlausum lagaákvæðum væri hlýtt. Þá bar ég fram fsp. um það hér á hinu háa Alþ., hvað liði greiðslu sparifjáruppbótanna. Þáverandi hæstv. viðskmrh., Björn Ólafsson, svaraði því til, að drátturinn á greiðslu uppbótanna stafaði af því, að stóreignaskatturinn, sem uppbæturnar skyldu greiðast af, hefði ekki verið innheimtur fyrr en á því ári, árinu 1952, en þar sem innheimtu hans væri að verða lokið, mundu uppbæturnar greiddar innan skamms. Nú eru aftur liðin tvö ár frá því, að þessi fsp. var fram borin og þessi svör gefin, og enn bólar ekkert á því, að sparifjáreigendur fái greitt þetta fé, enn bólar ekkert á því, að hæstv. ríkisstj. sjái ástæðu til þess að hlýða lögum, sem hún sjálf setti fyrir fjórum árum. Þess vegna höfum við hv. 4. þm. Reykv. leyft okkur að bera fram fsp. á þskj. 114 um það, hvers vegna sparifjáreigendum hafi ekki enn verið greiddar þessar uppbætur, sem lögákveðnar voru með gengislækkunarlögunum.

Nú er ekki lengur hægt að bera því við, að fé sé ekki fyrir hendi. Það er búið að liggja í ríkissjóði í einhverju formi í tvö ár, hver svo sem ástæðan kann að vera fyrir því, að það er ekki komið í hendur réttra aðila, sparifjáreigendanna. Við því vænti ég, að hæstv. ríkisstj. gefi þau svör, sem við verði unað.