10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 659 í D-deild Alþingistíðinda. (3004)

207. mál, sparifjáruppbætur

Fyrirspyrjandi (Gylfi Þ. Gíslason):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskmrh. fyrir þessar upplýsingar um málið, en jafnframt harma ég það, að svo mikill dráttur skuli hafa orðið á þessu sem hann nú staðfestir að hafi orðið og að ekki skuli von á endanlegri greiðslu uppbótanna fyrr en einhvern tíma á næsta ári.

Annað vekur athygli í þessu sambandi. Það er, að um 12 þús. aðilar skuli hafa reynzt eiga rétt til þessara sparifjáruppbóta, þ. e. a. s. 10 milljónanna. Það lætur því nærri, að rúmar 800 kr. komi að meðaltali á hvern rétthafanna sem endurgjald ríkisvaldsins fyrir það tjón, sem sparifjáreigendur hafa orðið fyrir vegna fjármálapólitíkur íslenzkra valdhafa undanfarna áratugi, og það tjón, sem þeim var valdið með skerðingunni á krónunni árið 1950. Þetta verða sannarlega kallaðar hundsbætur. Engin íslenzk stétt, ef tala má um stétt í þessu sambandi, hefur orðið jafnharkalega fyrir barðinu á skammsýnni og ósanngjarnri fjármálapólitík íslenzka ríkisvaldsins og einmitt sparifjáreigendur. Það, sem þeir hafa safnað saman, oft og einatt á langri ævi, hefur hvað eftir annað verið skert með verðbólgupólitík ríkisvaldsins og hverri gengislækkuninni á fætur annarri. Það eina, sem ríkisvaldið treystir sér til að gera gagnvart þessu fólki, gagnvart þessum fjölmenna hóp manna, sem innir af hendi mikið og bráðnauðsynlegt hlutverk í íslenzkum þjóðarbúskap, er að rétta þeim eftir áratuga rangindi 800 kr. að meðaltali hverjum og draga það auk þess í fjögur ár að gera þetta, vitandi það, að verðgildi þessara peninga rýrnar enn um allt að því fjórðung á þessum fjórum árum, sem peningunum er haldið fyrir þeim. Þetta verður ekki kallað að gera vel við aðila, sem þó er viðurkennt af öllum að inni af hendi þjóðnýtt hlutverk. Þetta heitir — því miður — að gera illa við þá.

En ef þessi fsp. gæti orðið til þess að ýta á eftir framkvæmdum í málinu, þá tel ég, að hún hafi ekki að ófyrirsynju verið fram borin.