10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í D-deild Alþingistíðinda. (3006)

207. mál, sparifjáruppbætur

Hannibal Valdimarsson:

Mér þótti heldur gusta frá fulltrúa gengislækkunarríkisstjórnarinnar núna og tel alveg ástæðulaust, að sá fulltrúi fái að sleppa með það, að hann sé ekki minntur á það, að ríkisstj. byrjaði sinn feril með gengislækkun og hefur haldið þeim ferli sífellt áfram og hefur á þessari braut stigið fyrst og fremst bátagjaldeyrisskrefið, síðan hefur verið bætt ofan á núna togaragjaldeyri og hver ráðstöfunin rekið aðra til þess að efla dýrtíðarflóðið á þjóðina. Það kostaði margra vikna verkfall að knýja hæstv. ríkisstj. til að gera nokkrar ráðstafanir til verðlækkunar í landinu. Jú, það varð til þess að fá endi bundinn á verkfallið, gefin góð loforð um að gera verðlækkunarráðstafanir, en það hefur verið illa staðið við þær. Og það er þess vegna enginn í þessu landi, sem er eins á veginum til glötunar með íslenzkan gjaldeyri og hæstv. ríkisstj. og þeir flokkar, sem að henni standa.