10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (3019)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Eins og ég sagði áðan, þá mun ég ekki ræða einstök atriði þessa máls á því stigi, sem málið nú stendur. Ég kom hingað aðeins til þess að mótmæla þeirri firru, sem kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda, eða öllu heldur þeim söguburði, sem hann vildi þó ekki gera að sínu áliti, að stjórninni hafi verið vel vært, þó að ekki hafi samizt við verkfræðingana, af því að með því móti hefði fengizt handhæg aðferð til þess að draga úr opinberum framkvæmdum. Það er auðvitað fullkomin og fáránleg fjarstæða, að þetta sjónarmið hafi komið til greina hjá ríkisstj. í sambandi við þetta mál.

Það er vitað mál, að það hefur þegar orðið að verulegu tjóni, að svo hefur til tekizt, að verkfræðingar hafa ekki verið í þjónustu ríkisins í sumar. Ýmsar framkvæmdir hafa dregizt, sem stjórnin hefur haft mjög mikinn áhuga á að gætu orðið unnar.