10.11.1954
Sameinað þing: 13. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 666 í D-deild Alþingistíðinda. (3020)

209. mál, verkfræðingar í þjónustu ríkisins

Emil Jónsson:

Herra forseti. Ég vil aðeins, vegna þess að það kom fram í umr. hér áðan, að til vandræða mundi horfa, ef ekki yrðu ráðnir verkfræðingar í þjónustu ríkisins fyrir næsta vor, segja, að það er langt frá því nægjanlegt, þó að samningar gætu tekizt fyrir næsta vor, því að ef ekki verður undinn bráður bugur að því að semja við verkfræðingana, þá tekst ekki að undirbúa neinar framkvæmdir fyrir næsta sumar. Það hafa horfið úr þjónustu ríkisins líklega milli 20 og 30 verkfræðingar hjá fjórum stofnunum, hjá raforkumálastjóra, hjá póst- og símamálastjóra, hjá vegamálastjóra og af vitamálaskrifstofunni. Þessir menn hafa verið frá störfum nú í sex mánuði. Framkvæmdir hafa að vísu ekki stöðvazt, en svona slampazt af með hjálp verkstjóra, að svo miklu leyti sem þeir hafa getað innt þau störf af hendi, sem verkfræðingum eru annars ætluð, vegna þess að áætlanir um framkvæmdir sumarsins 1954 var búið að gera, áður en verkfræðingarnir sögðu upp. Þessar áætlanir er venjan að gera að vetrinum til, og ef það er ekki byrjað á þeim mjög bráðlega eða þegar í stað, þá verður ekki unnt að ljúka þeim öllum fyrir næsta vor.

Um málið sjálft vil ég segja, að ég tel ekki hafa borið svo mikið á milli í þessum samningum eða samningaumleitunum, að á því hefði þurft að stranda. Það var hægt á tímabili a. m. k. í sumar að semja við verkfræðingana á grundvelli, sem a. m. k. var ekki hærri og í sumum tilfellum heldur aðgengilegri fyrir ríkisstj. en nú hefur samizt um við Reykjavíkurbæ. Og ég vil enn fremur taka fram, að mér finnst það óeðlilegt, að sumar ríkisstofnanir, við skulum segja eins og landssmiðjan og Iðnaðarmálastofnunin og kannske fleiri, halda sínum verkfræðingum, við að vísu — við skulum segja — nauðsynleg störf, en þessar fjórar stofnanir, sem ég nefndi, vegamálaskrifstofan, vitamálaskrifstofan, raforkumálaskrifstofan og póst- og símamálaskrifstofan, geta ekki haldið neinum verkfræðingum, vegna þess að samninga má ekki gera fyrir þær.

Ég vil svo að lokum segja, að eftir því sem lengur dregst að gera samninga, eftir því er meiri hætta á, að þeir verkfræðingar, sem hafa verið í þessum störfum, komi alls ekki að þeim aftur. Mér er kunnugt um, að nokkrir af þessum mönnum hafa þegar ráðið sig til annarra starfa og ætla sér alls ekki að byrja á ný, þar sem þeir áður voru. Ef þetta verður almennt, þá er líka vá fyrir dyrum, því að það er ákaflega erfitt fyrir þessar stofnanir að byrja alveg að nýju með tómum nýjum mönnum.