23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í D-deild Alþingistíðinda. (3027)

97. mál, rannsókn byggingarefna

Fyrirspyrjandi (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Á Alþ. þann 3. marz s.l. var samþ. þáltill. um rannsókn byggingarefna, en hún hljóðar þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að láta í samráði við teiknistofu landbúnaðarins rannsaka, hvaða byggingarefni í heyhlöður, peningshús, verkfærageymslur o. fl. muni bezt henta og vera ódýrast með tilliti til notagildis. Skal lögð á það sérstök áherzla að afla vitneskju um erlendar nýjungar í þessu efni. Leiði rannsókn í ljós, að til þessara hluta sé fáanlegt erlendis hentugra og ódýrara byggingarefni en notað er hér eða völ er á innanlands, skal gera ráðstafanir, ef með þarf, til að greiða fyrir innflutningi á því.“

Þótt ekki sé langur tími liðinn síðan þessi ályktun var gerð, vonast ég samt eftir því, að hæstv. landbrh. geti gefið nokkrar upplýsingar um þetta mál, því að hér er um mikið hagsmunamál að ræða, ekki einungis fyrir bændur landsins, heldur og fyrir alla þjóðarheildina.