02.12.1954
Sameinað þing: 21. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 676 í D-deild Alþingistíðinda. (3041)

211. mál, jöfn laun karla og kvenna

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Fyrir nokkrum undanförnum þingum hefur legið frv. til laga um sömu laun kvenna og karla. Þetta frv. lá einnig fyrir seinasta Alþingi. Þá báru allmargir þm. úr Sjálfstfl. fram till. til þál. um að skora á ríkisstj. að athuga, hvaða ráðstafanir þyrfti að gera hér á landi, svo að íslenzka ríkið gæti staðfest hina svokölluðu jafnlaunasamþykkt vinnumálastofnunarinnar í Genf. Þetta var í rauninni auðsær loddaraleikur, eingöngu til þess að tefja málið og koma sér hjá að taka afstöðu til frv., sem fyrir lá. Þessir og vafalaust ýmsir fleiri þingmenn hafa vafalaust ekki viljað láta það sjást, að þeir tækju þátt í að fella slíkt frv., en voru hins vegar ekki í þeim buxunum að vilja samþ. það. Það var vitað mál, að ríkisstj. átti þarna ekkert rannsóknarefni. Það liggur augljóslega fyrir, að það er aðeins um tvennt að ræða til þess að koma þessu máli í höfn, annað tveggja að stuðla að heildarsamningum milli landssamtaka atvinnurekenda og verkalýðsins eða þá að Alþingi breyti þeirri skipun í launamálum kvenna og karla, sem ríkt hefur, með nýrri lagasetningu. Þetta var ekkert rannsóknarefni. Það vissu allir, að eitt af tvennu þurfti að gerast, og það var ekkert atriði, sem var óljóst í málinu.

Nú hefur hæstv. ráðherra upplýst, að þessari þál. hafi verið mætt af hendi ríkisstj. á þann hátt, að skipuð hafi verið nefnd, og það er alltaf þrautalendingin, þegar á að draga mál á langinn og drepa úrlausn þeirra á dreif. Og þessi n. hefur gefið hæstv. ríkisstj. upplýsingar um, að það séu þó átta ríki búin að staðfesta jafnlaunasamþykktina og þar á meðal sé Frakkland, en ekkert af nágrannaríkjunum sé enn þá búið að samþykkja og staðfesta jafnlaunasamþykktina, og skildist mér á hæstv. ráðh., að á meðan væri okkur óhætt að dorma í málinu. (Gripið fram í.) Nei, hann sagði ekkert um það. Það er alveg rétt. Það væri svo sem ekki neitt hneyksli, þótt Ísland væri ekki búið að því enn þá, meðan nágrannalöndin væru ekki búin að því. En það eru þó átta ríki, sem eru búin að þessu, og Ísland er ekki í þeirra tölu, og það harma ég.

Það getur vel verið, að það séu nefndir að athuga þetta hjá nágrannaríkjum okkar og hæstv. ríkisstj. finnist ekki tilhlýðilegt, að við gerum neitt í málinu, fyrr en sú n., sem hefur fengið það hlutverk að sofa á málinu hér, og þær nefndir, sem hafa fengið kannske sams konar hlutverk í nágrannalöndunum í þessu máli, séu líka búnar að skila áliti. En þessar nefndir hafa í rauninni ekkert að athuga. Það er bara að svara þessari spurningu: Vilja menn lögfesta eða stuðla að heildarsamningum um sömu laun karla og kvenna á Íslandi eða ekki?

Hæstv. ráðherra gat þess, að því er snertir ríkisvaldið sjálft, að lagaákvæði væru um það, að íslenzkar konur skyldu njóta sömu launa og karlmenn og færast milli launaflokka eftir sömu reglum og karlmenn. Og í orði kveðnu er þetta svo. En það er ekki eins og hæstv. ráðh. sagði, að það séu þess vegna óumdeilanlega sömu laun hjá konum og körlum í þjónustu íslenzka ríkisins, því að það er nefnilega alls ekki. Framkvæmdin er ekki þannig. Kvenfólk er ekki fært eftir sömu reglum milli launaflokka og karlmenn. Og það er staðreynd, að samkv. opinberum skýrslum Reykjavíkurbæjar, — en hæstv. ráðh. vitnaði einnig til bæjarfélaganna hér á landi, þar mundi líka vera komið í framkvæmd jafnrétti milli launamála kvenna og karla, — eru engar konur í hæstu launaflokkunum hjá bænum, og er einmitt gerð grein fyrir þessu í þeirri grg., sem fylgir frv. um sömu laun kvenna og karla, sem enn liggur fyrir hv. Alþingi. Og að því er snertir ríkið sjálft, þá er geysilegur munur á launakjörum kvenna og karla í þjónustu ríkisins. Sérstaklega er komizt fram hjá 1ögunum með því, að konur eru ekki settar í störf samkv. hæstu launaflokkum, og vil ég halda því fram, að það stappi nærri, að íslenzka ríkisvaldið brjóti lög.

Þetta er vafalaust af því, að lagaákvæðin eru ekki nægilega skýr, og er þess vegna full þörf á, að ótvíræð ákvæði séu lögfest um sömu laun kvenna og karla.

Það mun vera alveg rétt niðurstaða hjá þeirri hv. n., sem hæstv. ríkisstj. hefur skipað, að það sé ekki hægt að staðfesta jafnlaunasamþykktina að því er Ísland snertir, nema því aðeins að ný lagaákvæði komi til eða heildarsamningar takist milli Vinnuveitendasambands Íslands og Alþýðusambands Íslands. Ég held, að það sé alveg óhætt fyrir hv. n. að slá botninn í starf sitt á grundvelli þessarar niðurstöðu, því að hún er rétt, og hæstv. ríkisstj. gæti þess vegna tekið til starfa og farið að íhuga málið sjálf á þeirri forsendu, að nefnd sé búin að komast að endanlegri niðurstöðu um málið.

Hæstv. ráðh. komst að þeirri niðurstöðu, að það væri ekki nema um tvennt að gera, annaðhvort að brjóta settar reglur, sem gilt hefðu um launakjör kvenna og karla milli atvinnurekenda og verkafólks, eða setja lög um nýja skipun launamálanna. Það er í raun og veru að mínu áliti rangt að orða það svo, að reglur þær, sem gilt hafi um launakjör kvenna og karla milli atvinnurekenda og verkalýðs, séu brotnar með því að setja lög. Þar er á hinn eðlilegasta hátt breytt gamalli skipan til réttlátara horfs, eins og alltaf er gert með nýrri lagasetningu, og vitanlega er það það, sem blasir við, að annaðhvort verða menn að setja lög, sem skapi nýja skipan þessara mála, eða láta áfram haldast það ranglæti, sem menn nú almennt viðurkenna að eigi sér stað í launagreiðslum kvenna og karla, og það ranglæti er sannarlega búið að standa nógu lengi, bæði hér á landi og í nágrannalöndunum og hjá öllum þeim þjóðum, sem hafa ekki enn þá séð sér fært að staðfesta jafnlaunasamþykktina. En það getur ekki dregizt lengi, að röðin komi að Íslandi, hvort sem nágrannaþjóðir okkar verða þar seint eða snemma við að leiðrétta hið gamla misrétti í þessum málum eða ekki.