23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 689 í D-deild Alþingistíðinda. (3053)

212. mál, áburðarverksmiðjan

Landbrh. (Steingrímur Steinþórsson):

Það er í raun og veru ekki ástæða til að lengja þessa umr. út af þessum orðum, sem hv. 8. landsk. sagði nú. Það voru þó aðeins tvö atriði. sem ég vildi nefna. Hið fyrra var það, að hann spurði, hvort kornastærðin, þ. e a. s. ef áburðurinn væri meir kornaður og stærri, gæti haft áhrif á framleiðslumagn verksmiðjunnar. Það er óhætt að svara því ákveðið, að svo er ekki. Sá árangur, sem þegar hefur náðst, hefur alls ekki haft nein áhrif á framleiðslumagnið. Framleiðslumagnið hefur verið mest í síðasta mánuði, október, eins og ég lýsti áðan, og sýnir það því út af fyrir sig glögglega. Þó að eitthvað lengra verði kannske gengið á þeirri leið enn að korna áburðinn meir, þá mun það ekki geta valdið neinu í þá átt, að framleiðslan þurfi að rýrna.

Hitt var það, að hv. 8. landsk. virtist ég draga fram fá dæmi um verksmiðjur, sem hefðu sama ástandsform á sínum köfnunarefnisáburði og hér er um að ræða. Það er rétt, að ég nefndi stærsta fyrirtækið, sem mun að þessu starfa, en það eru víst margar verksmiðjur, sem hafa það sama. Og það er sá áburður, sem hingað hefur komið til landsins áður, eins og við vitum, af þessari gerð, sem þannig hefur verið útbúinn.

Annars skal ég viðurkenna það, að ég hef ekki tæknilega þekkingu til að dæma um það, hvort þessi kornun á áburði, kúlur, eins og það er kallað, eða einhverjar flögur, sé heppilegri gerð. Þetta er mismunandi ástandsform, sem þekkist víst víða um heim, en það er vist, að ýmis mestu fyrirtæki, sem framleiða köfnunarefnisáburð, hafa horfið að þessum kornaáburði. Er að mínum dómi ekki nokkur ástæða til að ætla, að þar sé um neina hættu að ræða út af fyrir sig, ef hægt verður, eins og ég vona að sé, að komast yfir þá byrjunarörðugleika, sem á þessu hafa orðið.