23.11.1954
Sameinað þing: 20. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 690 í D-deild Alþingistíðinda. (3056)

213. mál, Grænland

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Þegar ég fyrir rúmri viku lagði þessa fsp. fram, höfðu borizt um það óljósar fregnir hingað til lands, að í verndargæzlunefnd Sameinuðu þjóðanna hefðu Danir farið fram á að fá viðurkenningu fyrir því, að Grænland væri nú ekki lengur nýlenda þeirra og þeir þyrftu ekki að standa neinn reikningsskap ráðsmennsku sinnar varðandi Grænland, heldur væri það orðinn hluti af Danmörku. Eins og þingheimi er kunnugt, hefur nú verið fjallað um þetta mál hér í þinginu og það upplýst og jafnvel verið tekin ákvörðun í sambandi við það. Ég tel því, að þessi fsp. sé þar með úr sögunni, þar sem fram eru komnar þær upplýsingar, sem ég æskti eftir. Um meðferð málsins hér á hv. Alþ. er að sjálfsögðu ekki rétt stund til þess að ræða nú. Það bíður seinni tíma.