08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 257 í B-deild Alþingistíðinda. (306)

1. mál, fjárlög 1955

Hermann Jónsson:

Herra forseti. Við þjóðvarnarmenn höfum flutt brtt. við frv. til fjárlaga, sem eru hér á þskj. 252. Ég hef tekið að mér að fylgja þeim úr hlaði með nokkrum orðum og skal forðast að vera langorður í því efni, heldur halda mér aðallega við að gefa þær skýringar á þessum till., sem ég tel nauðsynlegar, til þess að hv. þm. átti sig vel á því, við hvað er átt og hvernig þetta er hugsað.

Ég geri mér vel ljóst, að það er ekki vænlegt til raunverulegs árangurs fyrir minnihlutaflokk á Alþ. að bera fram mikilvægar brtt. við fjárl., því þó að ég hafi ekki átt sæti hér fyrr en nú, hef ég þó lengi hlustað á útvarpsumr. um fjárl., og mér hefur ávallt skilizt, að það, sem kæmi frá minni hluta, væri tóm vitleysa eða í bezta tilfelli a.m.k. mjög ábyrgðarlaust.

Mig langar til að reyna að sýna fram á það hér, að þessar till., sem við berum hér fram, eru hvorki ábyrgðarlausar né vitlausar.

Ég skal ekki hafa þennan formála lengri, heldur rekja liðina lauslega eins og þeir koma fyrir á þskj.

Í 1. lið er gert ráð fyrir að hækka áætlun um vörumagnstoll úr 26 millj. kr. í 29 millj. kr.

Í 2. lið er gert ráð fyrir að hækka verðtoll, áætlun um hann, úr 138 millj. kr. í 160 millj. kr. Í 3. lið er gert ráð fyrir að hækka innflutningsgjald af benzíni úr 9.5 millj. kr. í 11.5 millj. kr.

Í 4. lið er gert ráð fyrir að hækka söluskatt úr 107 millj. kr. í 123 millj. kr.

i 5. lið er gert ráð fyrir að hækkja tekjur af áfengisverzluninni um hér um bil 5 millj. kr., úr 69 millj. kr. í 74 millj. kr.

Í 6. lið er hækkun á tekjum tóbakseinkasölunnar úr rúmlega 44.5 millj. kr. í 49 millj. kr. Ég ætla nú ekki að fara að orðlengja um hvern einstakan lið fyrir sig, geri ekki ráð fyrir, að það hafi sérstaklega mikla þýðingu, en ég vil geta þess, að samanlagt eru þessir liðir rúmlega 52 millj. kr. Með þessu móti verða ríkistekjurnar í heild um 548 millj. kr.

Þá kem ég að því, sem mér hefur ávallt skilizt, þegar ég hef hlustað á umr. hér, að væri aðalatriðið, þegar komið er með brtt., og það er, að það væri ábyrgðarlaust að hækka tekjuliðina í frv.

Ég vil leyfa mér að vísa til þess, sem hæstv. framsögumaður fjvn. sagði hér í framsöguræðu sinni í dag, vona, að ég hafi það nokkurn veginn rétt eftir, að hann sagði, að það væri ekki rétt að reikna með áframhaldandi aukningu tekna hjá ríkissjóði, þrátt fyrir það að tekjurnar hefðu farið ört vaxandi á undanförnum árum. Hann sagði enn fremur, að tekjurnar væru nú 550 millj. kr. á yfirstandandi ári, eða þar um bil, sem sagt örlítið hærri en hér er gert ráð fyrir.

Ástæðurnar til þess, að fjvn. eða meiri hluti hennar lækkaði þessa tekjuáætlun niður í 514 millj. kr., eða um 36 millj. kr. frá því, sem tekjurnar eru á yfirstandandi ári, eru mér ekki vel ljósar, ef ég skil það rétt, sem mér finnst liggja í hlutarins eðli, að meiningin með áætlun hljóti alltaf að vera að setja þá tölu, sem maður álítur að muni verða niðurstaðan. Að vísu vottaði fyrir rökstuðningi fyrir því hjá hæstv. framsögumanni, að tekjurnar kynnu kannske jafnvel að verða minni en núna, og ég heyrði nú ekki hjá honum aðra röksemd fyrir því heldur en þá, að það mundi kannske verða lítill útflutningur, það væri lítið af vörubirgðum í landinu, seldar upp nokkurn veginn. Það, sem hann var að fara, var kannske ekki fyllilega ljóst, en ég skildi það þannig, að þetta mundi hafa þau áhrif. að við gætum ekki keypt eins mikið af vörum til landsins, vegna þess að við mundum ekki hafa úr eins miklum gjaldeyri að spila. Hef ég kannske misskilið þetta?

Ég sé nú ekki. að þetta komi málinu beinlínis við, nema því aðeins að það sé meining ríkisstj. að breyta verulega um stefnu í verzlunarmálunum og taka upp hin — frá þeirra sjónarmiði að minnsta kosti — illræmdu innflutningshöft og takmarka með valdi á einhvern hátt vöruflutning til landsins. En fari þeir með einhverjum ráðum, eins og þeir hafa nú haft hingað til nokkurn veginn, heldur þá leiðina að halda sem mestu frelsi eða jafnvel auka það í verzlun og skaffa þá einhvern veginn gjaldeyri, með skuldasöfnun, ef ekki vill betur, eða auknum framkvæmdum á Keflavíkurvelli eða einhverju því um líku, þá sé ég ekki, að neitt bendi til þess, að kaupgeta almennings í landinu sé minnkandi. Og ef hún er ekki minnkandi, þá kaupir hann vörurnar, ef þær fást.

Ég get þess vegna ómögulega séð, að neitt réttlæti það að gera ráð fyrir því, að innflutningur á vörum og tekjur ríkissjóðs af tollum og því um líku fari minnkandi frá því, sem er á yfirstandandi ári.

Hitt er kannske virðingarvert, að hegða sér búmannslega í þessu og hafa áætlunina það varlega að fara alltaf svo og svo langt niður fyrir. Hins vegar virðist mér ómögulegt að neita því, að það sé mjög varleg áætlun að reikna nú með því, að tekjurnar á næsta ári verði eins og á þessu, og allt það, sem fer niður fyrir það að áætla þessar 550 millj. kr., sé ekki varfærni, heldur eitthvað annað.

Ef verið er að þessu til þess að mæta einhverjum væntanlegum útgjöldum á árinu, ef það er verið vísvitandi að áætla þetta miklu minna en menn rannverulega gera ráð fyrir að það verði, þá kann ég ekki við þá aðferð. Mér finnst, að það væri eðlilegra að áætla þetta rétt, en gera þá ráð fyrir þeim mun meiri tekjuafgangi til þess að mæta þessum útgjöldum.

Ég vil þess vegna fyrir fram mótmæla því, nema einhver ný rök komi fram, að það sé ábyrgðarleysi að hækka þessa áætlun, sem er í fjárlögum og frá fjvn. líka, upp í það, sem er á yfirstandandi ári.

Það þótti mikið ábyrgðarleysi af Þjóðvfl. á síðastliðnu ári, þegar gerðar voru till. um áð hækka tekjuáætlunina um 37 millj. kr. Það leit svo illa út með árferðið, eins og það gerir á hverju ári, þegar rætt er um fjárlög; þá lítur alltaf illa út, og hefur alltaf rætzt miklu betur úr en á horfðist, þegar talað er um áríð á undan. Þetta er orðin svo föst regla, að það ætti að vera óþarfi að vera nokkuð að orðlengja um það. Það þekkir hana hver einasti maður, sem til mín heyrir. — Ekki meira um það í bili.

Næsti liður hjá okkur hér, 7. liðurinn í brtt., er hækkun á útgjöldum við sendiráðið í Kaupmannahöfn. Þar er till. um hækkun á launum úr 271 þús. kr. upp í 390 þús., og svo annar kostnaður hækkaður hjá okkur úr 75100 kr. upp í 110 þús. kr. Þetta er hækkun, sem nemur um 150 þús. kr. og er gerð með tilliti til þess, sem segir svo í 8. og 9. lið, þar sem gert er ráð fyrir að leggja niður sendiráðin í Stokkhólmi og Osló. Með þessu móti verður þarna um að ræða raunverulegan sparnað upp á 770 þús. kr.

Það er löngum heimtað af stjórnarandstöðunni, þegar hún kemur með till. hér, að hún geri till. um lækkun á útgjöldum. Við viljum með þessu móti gera þarna ofur litla viðleitni til þess að verða við þessum tilmælum frá hæstv. ríkisstj. eða stjórnarflokkum og væntum, að henni verði vel tekið, og ef svo verður, að hún yrði nú samþ., þá mundum við meta það á þann hátt, að við mundum þá reyna eftir beztu getu og tíma að leggja vinnu í það að finna út fleiri lækkunarleiðir, sem færar eru. En hins vegar er varla við því að búast af okkur, að við höfum haft tíma eða aðstöðu til þess að fara nákvæmlega í gegnum allt fjárlagafrv. með það fyrir augum að finna út, hvað hægt er að lækka. Ég vil í því sambandi benda á það, að mér finnst sannast að segja, að aðstaða Þjóðvfl. í þessu efni sé ekki góð hér á Alþ. Það er að vísu lagt fram sjálft fjárlfrv. snemma á þingi, og síðan fer það í fjvn., sem vinnur að því og hefur til þess góða aðstöðu að afla allra hugsanlegra upplýsinga og vinna að málunum, og eins og fram kom frá hæstv. frsm. hennar greinilega, þá er þessi tími mjög knappur, sem henni var ætlaður til þess, þrátt fyrir hennar góðu aðstöðu, og skal ég taka mjög undir það. að ég efast ekki um, að það sé einmitt alveg hárrétt, og mun koma að því betur síðar, því að mér finnst það eigi að sumu leyti að létta störfum af þessari nefnd. En hins vegar er okkar aðstaða sem sagt þessi, að við höfum ekki aðstöðu til þess að fylgjast með því, sem þar er gert og unnið, því, sem kemur inn af ýmsum tilmælum til hækkana, og síðan fáum við álit n. einum degi áður en við eigum að skila okkar brtt., og till. minni hluta n. fáum við samdægurs því, sem við áttum að skila þeim. Að vísu fengum við að skila þessu núna í morgun. Þess er því ekki að vænta, að við höfum farið ýtarlega út í alla hluti, en ég leyfi mér að gefa fyrirheit um það, að ef þessari fyrstu lækkunartill. okkar verður vel tekið, þá muni það örva okkur mjög til að leggja í það vinnu að gera fleiri.

Annars er um þessa till. meira að segja heldur en það. Það eru nú ekki fyrst og fremst þessar 700 þús. kr. Það munar ekki svo mikið um þær á fjárl. núna, enda er þetta sem nokkurs konar dæmi, sem þarna er tekið, en um leið er þetta að nokkru leyti stefnumál, því að okkur þjóðvarnarmönnum þykir hafa verið ískyggilega mikil útþensla hjá okkur í sambandi við utanríkisþjónustuna. Það er að vísu gott að hafa góða og mikla utanríkisþjónustu og sem víðast, en við erum bara of litlir til þess, að fjárhagur okkar leyfi það, og við þurfum að beina huganum betur að því að spara í þessu efni og reyna að koma þessu fyrir á hagkvæman hátt. Þessi till. okkar þarna er vafalaust ekki fullnægjandi. Það er hægt að spara miklu meira á þessu sviði, og það skal ég taka fram, að tölurnar, sem við setjum þarna, eru áætlaðar, án þess að við höfum nógu góð gögn í höndum til þess að geta staðið á því, að sú áætlun sé endilega rétt. Aðalatriðið fyrir okkur er að fá úr því skorið, hvort hæstv. ríkisstj. væri ekki fáanleg til þess að breyta um stefnu í þessu atriði, snúa sér frá því að þenja þetta út og auka það og reyna heldur að finna leiðir til að draga það saman.

Þá kem ég að 10. lið í brtt. Ég þarf ekki að hafa mörg orð um hann. Það er gerð till. um það, að í staðinn fyrir 750 þús. kr. í íþróttasjóð komi 1 millj. 250 þús. kr., og þarna mun þannig vera, að það er í raun og veru ekki um framlag að ræða, heldur um greiðslu á skuld til þessa sjóðs. Ríkissjóður hefur ekki greitt þangað eins ,og bann hefur þó verið skuldbundinn til samkvæmt lögum.

11. liðurinn er Iðnaðarmálastofnunin. Þar gerum við að till. okkar, að tillag til hennar sé hækkað úr 650 þús. kr. í 880 þús. kr. Þessar 880 þús. kr. eru það, sem stofnunin fór sjálf fram á að fá. Hér er um að ræða unga stofnun, sem gegnir mjög þýðingarmiklu hlutverki, og mér finnst það vafasamt fyrir 230 þús. kr. að tefla í nokkurn voða með það, að hún fái aðstöðu til að inna sitt starf af hendi eins og hún bezt getur.

Þá kem ég að 12. liðnum. Það er iðnlánasjóður. Þar gerum við ráð fyrir hækkun úr 300 þús. kr. upp í 1 millj. kr. Þetta er til samræmis við það, sem væntanlega verður samþ. í iðnn. í sambandi við þennan sjóð, og sé ég ekki ástæðu til þess að rökstyðja það nánar. Það verður gert síðar. En mér skilst, að framlag til þessa sjóðs hafi fyrir stríð verið 65 þús. kr., og ef það er 300 þús. kr. núna, þá er óhætt að kalla það lækkun um helming að minnsta kostl. Auk þess er gert ráð fyrir að víkka starfsemina út þannig, að hún þurfi á meira fjármagni að halda.

Þá kemur 13. liðurinn. Það er nýr liður — til útrýmingar heilsuspillandi húsnæðis — og leggjum víð til, að í það séu lagðar 8 millj. kr. Þetta þykir kannske ríflega í farið, ég veit það ekki, en mér kemur dálítið spánskt fyrir sjónir, að allir flokkar yfirleitt virðast hafa það á stefnuskrá sinni að gera svo og svo mikið í húsnæðismálum, og á Alþ. eru samþ. l. strax 1946. Hér er vísað í l. frá 1952. Það mun vera breyting á og endurútgáfa laganna frá 1946, sem aldrei hafa verið framkvæmd að neinu leyti. Mér finnst einfaldlega, að það sé ekki stætt á því fyrir Alþ., þó að þetta séu heimildarlög, að láta það ganga svoleiðis ár eftir ár, að það sé ekki hægt að framkvæma lögin. Mér fyndist heiðarlegra að nema þau úr gildi heldur en að gera ekki eitthvað í þessu, og þess vegna leggjum við hér til, að þarna sé hafizt handa um framkvæmd á þessum lögum.

Þá er það 14. liðurinn. Þar gerum við till. um, að tillagið til sementsverksmiðjunnar sé hækkað úr 2 millj. kr. í 5 millj. kr. Það er nú lítið um þetta að segja. Það virðast allir vera á einu máli um, að það beri að flýta eins mikið og hægt er að koma upp þessu fyrirtæki, og yfirleitt er það ákaflega óheppilegt, þegar byrjað er á einhverju verki á annað borð, að það stöðvist alltaf og stanzi og dragist og dragist. Það verður heldur að láta eitthvað annað biða. Það verður að láta bíða að byrja á einhverju og reyna heldur að flýta þeim verkum, sem eru í fullum gangi, og það ber vist ekkert á milli um það, að hér sé um þjóðþrifafyrirtæki að ræða, svo að það ætti að vera óþarfi að fylgja því nokkuð frekar eftir hér.

Þá kemur 15. liðurinn, þar sem við leggjum til, að tillag til byggingar kennaraskólans sé hækkað úr 750 þús. kr. upp í 1.5 millj. kr. Mér finnst nauðsynlegt að fylgja þessu úr hlaði með nokkrum orðum. Sannleikurinn er sá, að okkur finnst, þjóðvarnarmönnum, að það sé nokkuð losaraleg stefna í ýmsum málum. Við skulum taka skólabyggingar. Það er verið að smápíra úr sér einhverri smáupphæð á ári, sem gerir það að verkum, ef farið er eftir þessu, að byggingin stendur yfir svo og svo langan tíma, kannske 10–20 ár, áður en hún kemst upp, í staðinn fyrir að ganga að því að ljúka því, sem byrjað er á, og bíða með hitt.

Ég ætla að leyfa mér að vísa, þó að það komi málinu ekki beint við, í það, sem frsm. fjvn. sagði í sinni ræðu í sambandi við vegamál. Ef ég man rétt, þá talaði hann um, að það hefði verið mikill vandi á ferðinni, það hefði verið svo mikil togstreita á milli héraða um aukningu á ákveðnum vegarspottum hér og þar og þeir hefðu ekki haft til þess tíma að breyta að verulegu leyti þeim hlutföllum, sem fyrir voru, og hefðu í höfuðatriðum fylgt því hlutfalli, sem þar gilti í fyrra.

Þetta er alveg eðlilegt, og ég ætla ekki að bera fram neinar vítur á fjvn. fyrir þetta, en hitt finnst mér í raun og veru vítavert, að það skuli vera hlutverk fjvn. að ákveða í smáhlutum, hvað eigi að fara í hvern einstakan vegarspotta hér og þar á landinu. Fjvn. á bara að veita eina ákveðna upphæð til þess arna. Svo þurfum við að hafa einhverja menn, — það má vera nefnd, eða ef menn telja óhætt að trúa einum manni fyrir því, þá bara vegamálastjóri sjálfur, en það eiga að vera menn, sem eru kunnugir þessu, sem hafa það hlutverk með höndum að ákveða, hverju liggi mest á, og beina fjármagninu þangað, því að það er ekkert gagn í því fyrir eitt hérað að fá kannske 200 metra af veginum núna og 200 metra næst. Það er miklu betra að bíða, þangað til að þeim kemur röðin, og fá hann þá allan í einu, enda er það svo, að það er ekki neinn vafi á því, að sú heildarfjárveiting, sem fer til veganna, mundi þá endast ólíkt betur. Vegirnir mundu verða miklu ódýrari, einfaldlega vegna þess, að mikill hluti af þessu fjármagni fer í eilífa flutninga á milli staða. Ég ætla ekki að tefja tímann með því að taka dæmi um, hvernig veitt er til veganna, mér finnst það ekki heyra til núna. Ég vil bara henda á, að í svona tilfellum á það ekki að vera fjvn., sem er að skipta þessu niður í smátt, heldur á að hafa annan hátt á í því efni.

Við höfum þess vegna tekið kennaraskólann. Þó að við tökum hann þarna einan, þá þýðir það ekki, að við teljum, að aðrir skólar þurfi ekki á sínu að halda líka. En hins vegar veit ég það með kennaraskólann t.d., að þetta er núna í fjórða skipti, sem er veitt til hans fé, en þess er gætt að hafa það svo lítið á hverju ári, að það er ekki hægt að byrja á verkinu. Að vísu kvað standa til núna að fara að byrja að grafa grunninn, það er komið nóg til þess. En ef verkinu á eitthvað að miða áfram, þá þarf að leggja meira í þetta, og sennilega hef ég verið með allt of lága tölu þarna, en ef haldið væri áfram samt á næstu fjárlögum, þá gæti það nú staðið til bóta.

Þá kem ég nú að síðasta líðnum, þar sem stendur hjá okkur: Til uppbyggingar atvinnulífsins samkvæmt löggjöf, er Alþingi setur, 30 milljónir. Um þetta er það að segja, að við teljum, að uppbygging atvinnulífsins eigi ekki heldur að heyra undir fjvn. Frsm. n. sagði, að þörfin væri mikil til alls konar framkvæmda og það væri ekki hægt að sinna þessu öllu, og það er ekki von. Það getur enginn gert ráð fyrir því, að fjvn. geti fundið það út, hvort hún á að láta þetta fyrirtæki hafa þessar krónur og hitt hinar. Til þess að gera slíkt er óhjákvæmilegt, að við höfum einhvern vott af áætlunarbúskap. Við þurfum yfir heildina að gera okkur einhverja grein fyrir því, hvað er okkur heppilegast í atvinnumálum í hverju tilfelli og hvernig við eigum að byggja þetta upp, og það þarf að vera tengt saman. Það er ekki nóg, að einn oti tota fyrir landbúnað og annar fyrir útgerð og þriðji fyrir iðnað. Við þurfum að fá sérfróða menn á þessum sviðum til þess að vinna að því, að það sé einhver áætlun um einhverja framkvæmd, og þeir segi til um, hvað er það fyrsta, sem þarf að gera, og hvað það næsta. Það er með tilliti til þessa, sem við stingum upp á þessari fjárhæð þarna, sem þyrfti þó óneitanlega að vera hærri. Og væntanlega verður hægt að ganga svo frá, að hún geti orðið það í framtíðinni.

Ég skal sem dæmi taka, að mér þætti mjög eðlilegt, þó að við höfum ekki gert till. um meira framlag til sementsverksmiðjunnar heldur en 5 milljónir, að það þætti sjálfsagt að hraða því verki og taka þá svo og svo mikið af því, sem þarna er gert ráð fyrir, þangað, eins og nú stendur í augnablikinu, og þetta á hvorki að vera okkar sérstaklega að meta, sem erum hér flm. að þessari till., og það á ekki heldur að vera fjvn. að meta það. Það verður sem sagt að fá til þess sérstaka sérfróða menn.

Samanlagt eru þessar hækkunartill., sem hér eru, rétt rúmar 43 millj. Þetta þýðir það, að mismunurinn á okkar hækkunar- og lækkunartill. er 10 millj. Við gerum ráð fyrir 10 millj. kr. meira í hækkun á tekjum heldur en við gerum ráð fyrir í hækkun á útgjöldum. Ég fæ ekki séð, hvernig í ósköpunum er hægt að kalla það ábyrgðarleysi. Við gerum till. um meiri hækkun á tekjum en gjöldum. Ég endurtek það. Ef eitthvert ábyrgðarleysi er hér á ferðinni, þá hlýtur það ábyrgðarleysi að vera í sjálfu frv., sem fyrir liggur. Hafi það ekki verið ábyrgðarlaust eins og það lá fyrir, þá er það ekki ábyrgðarlaust með þessum breytingum.

Enn fremur vil ég bæta einu við þetta. Það verður sjálfsagt sagt, að það sé teflt á tæpasta vaðið, og allt hvað eina, en það er nú 10 millj. betra en frv. hæstv. fjmrh. En það virðist eins og bæði hæstv. fjmrh. og sömuleiðis fjvn., þegar þeir eru að semja sínar áætlanir, geri alltaf ráð fyrir, að það komi fyrir á árinn einhver tákn og stórmerki, sem enginn lifandi maður gat séð fyrir, og valdi því, að allt fari úr skorðum.

Ef það gerðist nú eitthvað svoleiðis og það færi nú að verða hætta á einhverjum verulegum halla á fjárlögunum, þá er svo um þennan síðasta lið, sem hér er borinn fram, 30 millj., að hann á að nota samkvæmt löggjöf, sem Alþ. setur. Við erum ekki hér að segja alveg til um, hvað eigi að gera við það. Alþ. getur gengið frá þeirri löggjöf eins og því þykir réttast. Það gæti t.d. bundið þetta skilyrði um, að féð yrði fyrir hendi, eða eitthvað því um líkt, það væri hægt. En það er engin ástæða fyrir alþm. að vera feimnir við að samþykkja þetta vegna þess arna. Þá yrði munurinn enginn annar en sá, ef það væri samþykkt á þann hátt, að þá væri það spurningin um ráðstöfunarrétt, sem Alþ. hefði, en ekki ríkisstj. Það hefur verið talið sjálfsagt, að ríkisstj. gæti að mestu leyti eftir eigin geðþótta ráðstafað þeim tekjuafgangi, sem sýndi sig að verða á fjárl. Með þessu móti væri hún þó bundin, þannig að hún þyrfti að nota þetta fyrst, en ef á þyrfti að halda, þá væri hægt að grípa til þess.

Ég man nú ekki, hvort það var fleira, sem ég ætlaði að taka fram í þessu. Ég er óvanur þessum störfum hér og hef kannske gleymt einhverju, en það kemur þá fram við síðari umræður.