02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í D-deild Alþingistíðinda. (3066)

149. mál, Kjarvalshús

Fyrirspyrjandi (Gils Guðmundsson):

Herra forseti. Það hefur verið sagt og sennilega með réttu, að við Íslendingar séum deilugjarnir í meira lagi. Við höfum deilt um flest milli himins og jarðar, og nú á síðari árum, eftir að listhneigð þjóðarinnar hefur skotið nýjum rótum, unnið ný lönd, hafa deilur um myndlist orðið fyrirferðarmiklar í íslenzku þjóðfélagi. Deilt hefur verið um listastefnur og einstaka listamenn, oft af miklum ákafa, kannske óþarflega miklum stundum. Slíkar deilur geta þó verið eðlilegar og jafnvel næsta gagnlegar, sé þeim haldið innan sæmilegra takmarka. Bera þær þá vott um andlegt líf.

Athygli hlýtur það að vekja í okkar deilugjarna landi, að einhver fyrirferðarmesti og um flesta hluti sérstæðasti persónuleiki okkar á sviði myndlista hefur jafnan verið hafinn yfir þessar deilur. Hann hefur svifið þar fyrir ofan og utan, óheftur af öllum lögmálum, sem afmarka braut hversdagsmannsins. Þessi listamaður er Jóhannes Sveinsson Kjarval. Hann hefur málað myndir með hliðsjón af svo að segja öllum listastefnum síðustu 40–50 ára og þó engri þeirra að öllu háður. Hann hefur hlotið lof hinna ólíkustu manna, allt frá íhaldssömustu natúralistum til róttækustu nýjungamanna í myndlist. Í nær hálfa öld hefur hann málað þúsundir listaverka, sjálfsagt misjafnra að listgildi, en jafnan ausið af mikilli auðlegð skapandi listamannshugar og dreift gjöfum sínum á báðar hendur. Mun sá Íslendingur vandfundinn, sem hefur ekki skynjað að nokkru persónuleik listamannsins Kjarvals og átt unaðsstundir við að virða fyrir sér hin fjölbreytilegu listaverk hans. Hafa menn oft fundið til þess, að myndir Kjarvals eru dreifðar víðs Vegar og hvergi til viðhlítandi safn þeirra, sízt aðgengilegt almenningi.

Fyrir 10 árum, skömmu áður en Kjarval var sextugur, var vakin nokkur hreyfing í þá átt að fá úr þessu bætt, jafnframt því sem listamanninum yrði tryggð viðunandi aðstaða til iðkunar listar sinnar og hæfilegur samastaður á efri árum. Skyldi reist Kjarvalshús, er væri hvort tveggja í senn, listasafn og bústaður listamannsins. Fjórir hv. alþm. báru þá fram þáltill. um málið, er hlaut samþykki Sþ. 2. marz 1945. Ég vil leyfa mér að lesa þessa till., með leyfi hæstv. forseta:

Alþ. ályktar að heimila ríkisstj. að verja allt að 300 þús. kr. af tekjuafgangi ársins 1944 til að reisa í Reykjavík sýningarsal og íbúð. Skal ríkisstj. á 60 ára afmæli Jóhannesar Kjarvals næsta haust bjóða honum að búa og starfa í þessu húsi og gera jafnframt ráðstafanir til þess, að þar verði komið upp til varðveizlu og sýnis sem fullkomnustu safni af málverkum eftir þennan listamann.“

Ekki er mér kunnugt um, að neitt hafi orðið úr þeim framkvæmdum, sem hér um ræðir. Nú í dag eru rétt 10 ár liðin, síðan fyrrgreind þál. var samþ. hér á hv. Alþ.

Til þess að ýta við þessu máli og fá úr því skorið, hvar það er á vegi statt, höfum við hv. 1. landsk. þm. (GÞG) leyft okkur að flytja fyrirspurn, er svo hljóðar:

1. Er starfandi stjórnskipuð nefnd, sem hefur með höndum undirbúning að byggingu safnhúss fyrir málverk Jóhannesar Kjarvals?

2. Hefur fé það, sem Alþ. með þál. 2. marz 1945 heimilaði ríkisstj. að verja til byggingar slíks húss, verið greitt?

3. Hafi ekkert verið að máli þessu unnið, hyggst ríkisstj. þá að hafa forgöngu um framkvæmdir ?

Ég vænti þess, að hæstv. ríkisstj. svari fúslega þessari fyrirspurn.