08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í B-deild Alþingistíðinda. (307)

1. mál, fjárlög 1955

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Það hefði nú verið nærri gaman að því að ræða almennt um ýmislegt af því, sem komið hefur fram hér við þessa 2. umr. fjárl. og um frv. sjálft, en ég sit nú ekki í þeirri aðstöðu að þurfa að svara til þess, sem fram kemur hér af hendi minni hl., hvorki í hv. fjvn. né í stjórnarandstöðunni. Ég geri ráð fyrir, að hv. frsm. svari því. En óneitanlega hefði verið gaman að bregða sér á skeiðvöllinn út af sumu af því, sem sagt hefur verið hér í sambandi við þessi mál, þó að ég muni nú stilla mig mjög um það. Til þess eru aðrir hér.

En úr því að ég kom hér upp, þá þykir mér rétt í fyrsta lagi að benda hv. Alþ. á, að hv. fjvn. og alveg sérstaklega hennar ágæti formaður á óvenjulega mikið þakklæti skilið fyrir afgreiðslu þessara mála á þessu þingi. Síðan núverandi stjórn tók við, og raunar einnig hv. fyrrv. stjórnir, sem hafa haft samstarf síðan 1947, hefur veríð keppt að því að afgreiða fjárl. fyrir nýár, og það er eitt af höfuðskyldum Alþ. að uppfylla þau ákvæði stjórnarskrárinnar, að það sé gert, og vegur Alþ. vex við það, ef hægt er að gera það á hverju ári. Nú hefur sá tími, sem hv. fjvn. hefur verið skammtaður í sambandi við afgreiðslu fjárl., verið skertur, vegna þess að nú kom Alþ. saman síðar en venjulega, svo að hv. fjvn. hefur haft enn skemmri tíma til þess að gera sitt verk, en hefur samt sem áður haldið uppi heiðri þingsins með því að skila þessu verki, og ég veit af reynslunni, að það hefur ekki verið gert nema vinna að því vel og dyggilega, og það á að viðurkennast og fyrir það á hv. fjvn. skilið þakklæti.

Ég kom hér upp vegna þess, að ég vildi gera hér fyrirvara við þessa umr. um tvö atriði, þó að ég beri ekki fram hér brtt. á þessu stigi málsins.

Ég sé, að í 14. gr. frv., á bls. 31, undir tölul. VI, kirkjumál, er ákveðið til greiðslu álags vegna afhendingar kirkna til safnaða 150 þús. kr.

Hér hefur verið farið inn á nýja braut að taka upp ákveðna upphæð til þess að losa ríkissjóð við þær kirkjur, sem hann er enn eigandi að, og greiða að sjálfsögðu álag, til þess að viðkomandi söfnuðir geti tekið við þessum kirkjum, og tel ég það vera rétta stefnu. Það hefur sýnt sig, að einmitt þær kirkjur í landinu, sem ríkissjóður á að sjá um, hafa verið lélegustu kirkjuhúsin, og ég tel, að það eigi að hverfa frá þeirri stefnu, og ef ekki eru önnur ráð heldur en að söfnuðurnir taki við því, þá sé þetta rétt stefna.

Ég hef spurzt fyrir um það hjá hans herradómi biskupnum yfir Íslandi, hvort það sé búið að ráðstafa þessu fé fyrir fram, og kveður hann það vera. Það kvað vera búið að ráðstafa þessu til ákveðinna kirkna, og hef ég ekkert við það að athuga út af fyrir sig. En í Barðastrandarsýslu eru hvorki meira né minna en 7 kirkjur, sem ríkið á og ber ábyrgð á. Nú hef ég sent til hv. fjvn. erindi, dags. 25. nóv., um, að hún taki upp 370 þús. kr. hækkun á þessum lið og að af því gangi til Reykhólakirkju 250 þús. kr., en til Breiðuvíkurkirkju 120 þús. Nú er það svo í báðum þessum tilfellum, að hvorugt þetta guðshús er hægt að nota til messuhalda eða prestsverka, og fyrir því ligg ja gögn bæði hjá hæstv. kirkjumrh., hjá herra biskupnum og hjá fjvn., og ég skal ekki eyða tíma Alþ. til þess að lesa þau upp, þau liggja fyrir, svo að það er þegar komin kvöð á ríkissjóð um að gera hér sína skyldu og endurbyggja kirkjurnar eða semja um þetta við söfnuðina.

Í sambandi við Reykhólakirkju skal það tekið fram, að þegar ríkissjóður eignaðist jörðina, þá tók hann að sér skylduna til þess að byggja kirkjuna upp, og helmingur jarðarinnar stendur að veði fyrir því, að mætt sé þeim kröfum frá söfnuðinum. Þess vegna er um það að velja hjá hæstv. ríkisstj., hjá hæstv. kirkjumrh. og hæstv. fjmrh., hvort hún vill heldur eiga það á hættu, að söfnuðurinn geri gildandi slíka kvöð eða slíkar kröfur og heimti að láta selja þær eignir, sem eru veðsettar fyrir því, að kirkjan verði byggð, því að það ástand, sem hér er, er ekki hægt að una við, eða mæti óskum safnaðarins um framlög.

Í sambandi við þetta vil ég einnig leyfa mér að benda á, að í Reykhólahreppi er önnur kirkja, sem heitir Staðarkirkja, og þegar presturinn er fluttur frá Stað, þá tekur kirkjumálastjórnin jörðina og ráðstafar henni án þess að gera skyldu sína við kirkjuna um að byggja hana upp, en hún er einnig í því ástandi, að það er ekki hægt að framkvæma þar nein prestsverk.

Ef hins vegar mætt er þessari kröfu frá söfnuðinum í Reykhólahreppi um að endurbyggja Reykhólakirkju eða semja við söfnuðinn um endurbyggingu, þá er um leið hægt að fá samkomulag um það, að ríkissjóður byggi ekki nema aðra kirkjuna. Það er hægt þá að leggja niður Staðarkirkju, byggja eina kirkju á Reykhólum fyrir Reykhólasveitina alla og spara þannig allmikið fé fyrir ríkissjóðinn.

Ég vildi því mjög óska eftir því, að hv. fjvn. ræddi þetta mál ýtarlega við hæstv. kirkjumrh. og hæstv. fjmrh. og reyndi að ná samkomulagi um þetta atriði. Og ég geri ráð fyrir því, þó að ég setti fram ósk um 250 þús., að það mætti m.a. leysa málið á þann hátt að taka t.d. helminginn af því sem fyrri greiðslu, því að þá hefði söfnuðurinn einhver ráð með að koma þessu máli áfram, t.d. með lánum, ef ekki öðru, svo að hægt yrði að byrja á verkinu.

Það sama má segja um Breiðuvíkurkirkju. Þegar ríkissjóður á sínum tíma tók jörðina Breiðuvík upp í skuld hjá þáverandi sýslumanni, þá fylgdi sú kvöð jörðinni og jörðin stóð í veði fyrir því, að eigandi jarðarinnar ætti að byggja kirkjuna. Þessi kvöð hefur aldrei verið uppfyllt. Húsið er nú gersamlega óhæft til prestsverka. Þarna er komið hæll fyrir unglinga. Það er ætlazt til þess, að það séu a.m.k. 15 drengir, og það er fullkomin ástæða til þess að fresta ekki þessari byggingu. Það er gerð áætlun um það, að þessi bygging kosti 120 þús., og ég hygg, að það mætti líka leysa þetta mál á þessu þingi, ef það væri hægt að fá samkomulag um, að helmingur þessarar upphæðar yrði lagður fram sem fyrri greiðsla.

Þetta vildi ég segja um þetta atriði, og ég vildi mega vænta þess, að hv. fjvn. athugaði það við viðkomandi hæstv. ráðh. og að þeir tækju sanngjarnlega á því máli.

Um hitt atriðið — í sambandi við reksturinn á unglingaheimilinu í Breiðuvík — vil ég benda á, að það eru teknar upp í 17. gr. í frv. 150 þús. kr. í rekstur fyrir dvalarheimili fyrir afvegaleidd börn, en hv. fjvn. hefur lagt til, að þessi upphæð verði hækkuð upp í 250 þús. Ég er að sjálfsögðu þakklátur hv. n. fyrir að hafa tekið þessa till. upp, en vil í sambandi við þetta segja hér nokkur orð.

Þegar undirbúið var fjárlfrv., var send til hæstv. ríkisstj. með bréfi, 28. júlí 1954, áætlun yfir reksturinn á heimilinu. Árið, sem er að líða, er fyrsta árið raunverulega, sem heimilið hefur verið rekið, svo að hægt sé að skilja í sundur rekstrar- og byggingarkostnað, og þessi áætlun byggist þar af leiðandi á reynslunni. Þá var sýnt fram á, svo að ekki hefur verið hrakið, að það þarf 300 þús. kr. til þess að reka heimilið með 15 drengjum, og það byggist á 128800 kr. í laun, þ.e. bústjóri, ein ráðskona, ársmaður, 3 ársstúlkur og sumarkennari í 3 mánuði, og þetta hefur ekki verið hrakið af neinum, ekki heldur af ráðuneytinu. Hér er tekið með lögboðið orlof. Svo er einn póstur hér, 180 þús. kr., sem áætlað er í fæðiskostnað fyrir allt heimilið. Það má deila að sjálfsögðu um þennan póst. Ég vil þó benda á, að þessi póstur er tekinn með tilliti til þess, sem fæði hefur kostað venjulega hjá vegavinnumönnum þar í hreppnum undanfarin ár, og er það lægra en á sumum stofnunum hér í sambandi við sjúkrahúsin, hærra að vísu heldur en við nokkur þeirra, en lægra en þar sem hæst er, t.d. miklu lægra en hjá landsspítalanum. Það má vel vera, að það sé hægt eitthvað að gagnrýna þennan póst, en það er þá eini pósturinn, sem bægt er að gagnrýna, og ég hefði náttúrlega kunnað miklu betur við að fá gagnrýni á þetta áður og hæstv. ráðherra hefði rætt um það við mig, sem falið hefur verið að sjá um þetta verk, heldur en að skera þetta svona niður alveg út í bláinn, því að niðurskurðurinn hér hjá hæstv. ráðh. er alveg út í bláinn. Það er útilokað, að sú áætlun geti staðizt.

Hér koma svo á móti sem tekjur landbúnaðarafurðir fyrir 40 þús. kr. Á meðan ekki er hægt að koma búinu upp þannig, að það sé hægt að fá meiri tekjur, þá er ekki þess að vænta, að annað eða meira geti komið á móti. Tekjurnar á þessu ári, sem er að líða, urðu af landbúnaði ca. 50 þús. kr., og það, að þær urðu ekki meiri, kemur til af því, að búið er enn þá sáralítið á jörðinni. Stofnuninni var afhent þessi jörð í megnustu niðurníðslu. Það var ekkert hús til á jörðinni, hvorki íbúðarhús, peningshús né neinar byggingar. Jörðin hafði legið í eyði í fjöldamörg ár, það hafði ekki verið slegið þar tún, engar girðingar, og það sér hver maður, sem vill líta á þetta, hvort það muni ekki kosta nokkurt fé að koma þessu í lag. Það fé, sem hefur verið varið til heimilisins, hefur því farið langmest til að byggja upp hælið fyrir drengina, íbúð fyrir bústjóra og þjónustufólk, og vantar enn stórkostlegt fé til þess, að hægt sé að segja, að það sé sæmilegt, hvað þá að það sé fullkomið. Síðan hefur verið komið upp bústofni, þannig að nú eru þar 5 kýr og 70 ær. Það er útilokað að láta reka þetta heimill nema því aðeins að stækka bústofninn stórkostlega, og eina ráðið til þess að minnka rekstrarkostnaðinn hjá ríkinu á þessu hæli er að búa svo að hælinu, að það sé hægt að reka þar alltaf fullt starf fyrir þá drengi, sem fyrir eru.

Þessi áætlun sýnir því, að það þurfti 300 þús. kr. í reksturinn. Eins og ég segi, hefur hv. fjvn. tekið upp 250 þús. kr. Ég mun ekki bera fram brtt. við þá upphæð, ef hv. fjvn. sér sér ekki fært að hækka það, en vildi þó gjarnan fá yfirlýsingu um það, annaðhvort frá hæstv. ráðh. eða frá n., að það sé ekki ámælisvert að taka frá því fé, sem ætlað er hælinu í fjárfestingu, til þess að greiða til rekstrarins, ef þessar 250 þús. kr. duga ekki, því að það er alveg nauðsynlegt. Reksturinn í ár, eftir því sem ég veit bezt nú, mun fara sem næst 300 þús. kr., og ég hef því með bréfi til hæstv. fjmrh. 21. okt. óskað eftir því, að það yrði bætt við rekstrarupphæðina 125 þús. kr. á þessu ári auk þeirra 150 þús. kr., sem eru á fjárl. þessa árs. Þetta bréf, eins og ég segi, var sent 21. okt. Mér er kunnugt um, að hæstv. menntmrn. hefur sjö sinnum spurt um svar frá hæstv. fjmrn. Mér er líka kunnugt um, að ég hef sjálfur hvað eftir annað rætt bæði við ráðh. og við ráðuneytið og ekki getað fengið svar við þessu erindi. Ég hef því tekið þennan drátt hæstv. ráðh. þannig, að hann ætli sér ekki að veita þessar 125 þús. kr. af rekstrarhagnaði þessa árs, en sé það, þá er alveg óhjákvæmilegt að hækka um þá upphæð rekstrarupphæðina fyrir næsta ár, því að það verður að byrja með því að greiða strax, eftir að búið er að samþ. fjárl., áfallna 125 þús. kr. skuld á þessu ári.

Þetta vildi ég bæði biðja hæstv. ráðh. um að athuga og eins hv. fjvn.

Um málið sjálft skal ég svo aðeins segja þetta: Það hafa verið teknir nú, frá því að heimilið byrjaði, rúmlega 20 drengir, sem hafa verið á heimilinu. Í dag eru þar ekki nema 8 drengir. En ekki einn einasti af þeim 12 drengjum, sem hafa verið þar, en eru farnir í burtu, hefur aftur framið neitt afbrot, og það er frá mínu sjónarmiði mjög stórt atriði.

Það er auk þess annað, að þegar heimilið byrjaði, þá voru hér um 40 drengir á lista hjá lögreglustjóra eða sakadómara, sem voru afbrotadrengir. Nú er sem betur fer enginn á lista hér í Reykjavík.

Ég vildi vænta þess, að þessi árangur, sem hefur fengizt á þessu stutta tímabili, sannfæri hæstv. ráðh. um, að eins og málum er nú komið, þá á ekki að skera þetta niður undir neinum kringumstæðum.

Ég vil svo aðeins að síðustu geta þess, að sú framkvæmdastjórn, sem hefur verið á þessu heimili, ég og tveir aðrir menn, við höfum starfað að þessu í þegnskylduvinnu í 3 ár, án þess að okkur hafi verið reiknaður einn einasti eyrir fyrir okkar starf. Ég er ekki að segja það til þess að hrósa mér af því, en aðeins að upplýsa það, að rekstrarhallinn hefur ekki farið til þess að greiða okkur laun, því að það hefur enginn okkar fengið einn einasta eyri fyrir að vinna að þessum störfum. En ég vildi vænta þess, að hv. fjvn. og hæstv. ríkisstj. athugi þetta mál fyrir 3. umr. og lagi það, sem er mest aðkallandi í þessu máli.