02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 696 í D-deild Alþingistíðinda. (3073)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Fyrirspyrjandi (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Með fyrirspurn þeirri, sem við hv. þm. V-Húnv. (SkG) berum fram undir II lið á þskj. 357, er spurzt fyrir um það, hvort lokið sé undirbúningi að byggingu þingmannabústaðar samkvæmt fyrirmælum í 2. gr. l. nr. 84 1953 og hvenær megi vænta, að bygging hans verði hafin.

Ég skal játa það, að mér og sjálfsagt okkur báðum fyrirspyrjendunum er kunnugt um það, að forsetum Alþ. hefur verið falið að athuga þetta mál, og má segja, að við hefðum getað spurt þá, og það hef ég nú reyndar gert, spurt einn forsetann nokkuð um þetta. En tilgangurinn með því að bera þetta fram í sjálfu Alþingi er sá, að við teljum rétt, að Alþingi fái skýrslu um málið, en teljum ekki nægja, þó að við sjálfir fáum forvitni okkar svalað um þetta efni.

Það eru fyrirmæli, eins og segir í fyrirspurninni, í tveggja ára gömlum lögum, að á árinu sem leið skyldi hefja undirbúning að byggingu þingmannabústaðar og honum verða lokið það ár. En það eru meira en tveggja ára gömul lagaákvæði, að byggja skuli þingmannabústað, því að það var fyrst sett í lög með l. um breyt. á lögum um þingfararkaup alþm. frá 13. febr. 1943, eða fyrir 12 árum rúmum, og ekki nóg með það, heldur hafði sá vilji Alþingis, að reistur yrði þingmannabústaður. tvisvar sinnum komið fram. eftir að þessi l. voru sett. Það var samþ. — ég man ekki hvaða ár og hef ekki gætt að því — þáltill. um að skora á ríkisstj. að hefjast handa í þessu máli, og síðar var einhvern tíma samþ. á fjárl. heimild til þess að reisa þingmannabústað. Þetta hafði því verið samþ. þrisvar sinnum á Alþingi, áður en l. frá í hittiðfyrra, l. nr. 84 1953, voru sett. Alþingi hefur því nú samþykkt þetta fjórum sinnum.

Þar sem ég var flm. að því frv., sem varð að l. 1943, ég var einnig 1. flm.þáltill. um sama efni, sem samþ. var síðar, og að till. um fjárlagaheimild, þá þarf engan að undra það, þó að ég fyrir mitt leyti láti mig þetta mál töluvert miklu skipta, þó að sýnt sé nú. vegna þess aldurs, sem ég er kominn á, að ég persónulega mundi hafa sáralítil not þess, a. m. k. mjög takmarkaðan tíma, þó að þingmannabústaður yrði reistur.

Ég leyfi mér að vænta greiðra svara um þetta efni.