02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 698 í D-deild Alþingistíðinda. (3075)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Í framhaldi af upplýsingum frá hæstv. forsrh. í sambandi við þingmannaheimilið vil ég leyfa mér að upplýsa eftirfarandi:

N. sú, er skipuð var til þess að gera till. um að hefja undirbúning að byggingu þingmannaheimilis. hefur haft nokkra fundi um málið, og hefur húsameistari ríkisins athugað ýmsa möguleika, sem til mála gætu komið, en niðurstöður eru þær enn sem hér segir:

Fyrst var rætt um að byggja bústað þingmanna á lóð Alþingis, áfast við þinghúsið, og hugsanlega stækkun þess. Ýmsir annmarkar komu í ljós í sambandi við þann stað. svo sem lóðarþörf vegna nauðsynlegrar stækkunar alþingishússins sjálfs, og því ekki vitað, hversu hagkvæmt mætti byggja á lóðinni, fyrr en fyrir lægi áætlun um húsnæðisþörf og stækkun þess. Með staðsetningu þingmannabústaðar á lóð þessari mundu skapast erfiðleikar um nýtingu lóðarinnar, ef málið væri leyst án tillits til þeirra þarfa alþingishússins. sem hins vegar er mikið og vandasamt undirbúningsstarf, og tekur langan tíma að ganga frá því.

Enn fremur eru uppi raddir um það, að ráðhús Reykjavíkur verði byggt við norðurenda Tjarnarinnar. Með hliðsjón af því hefur skipulagið gert ráð fyrir torgi milli núverandi alþingishúss og Vonarstrætis og milli Oddfellowhússins og Þórshamars hins vegar. N. hefur haft um þetta fund með borgarstjóra og skipulagsnefnd, þar sem þessar áætlanir voru staðfestar.

Til mála kom einnig að leita möguleika á viðbyggingu við Hótel Borg, þannig að bætt yrði um 40 herbergjum við hótelið, er Alþingi hefði fullan ráðstöfunarrétt á um þingtímann, en yrðu leigð út sem hótelherbergi á sumrin og þann tíma, sem Alþingi starfar ekki. Eftir allmiklar umræður um þessa lausn var frá henni fallið og ákveðið að leysa málið með sjálfstæðri og óháðri byggingu. En þrátt fyrir það hafði þessi möguleiki komið til greina og eigandi hótelsins ekki mótfallinn till. fyrir sitt leyti, ef til mála kæmi. Hefði slík lausn haft þann kost einan, að undanskilinni nálægð við alþingishúsið, að greiðari aðgangur hefði orðið að allri þjónustu og veitingasölum, sem naumast kemur til greina að byggja og reka í sjálfstæðu íbúðarhúsi, því að þá yrði fyrirkomulag þannig, að með hverri íbúð væri látið eldhús, þar sem unnt væri að matreiða hjá hverjum um sig, og í mesta lagi einn hóflegur. sameiginlegur salur í húsinu fyrir mötuneyti og samkomur, ef á þyrfti að halda, en þó á annan hátt en tíðkast í veitingahúsum.

Því næst athugaði húsameistari möguleika til þess að byggja að nýju á lóð ríkisins við Tjarnargötu 32, og í því sambandi voru gerðir uppdrættir af húsi, er rúmaði bústaði þingmanna auk sala fyrir opinberar móttökur, svo sem nú er, en með nokkru rýmra móti. Við uppdrætti kom í ljós, að ef fullnægja ætti hvoru tveggja á þessum stað, miðað við lóðarstærð og skipulagsákvæði, var ekki unnt að koma þar fyrir nema tæpum helmingi þeirra íbúða, sem þurfti. Hins vegar voru það möguleikar á lausn málsins, ef á lóðinni yrðu eingöngu byggðir þingmannabústaðir. Þá varð auðvitað að finna aðra heppilegri lausn fyrir móttökusali ríkisstj., og mundi það einnig þurfa langan aðdraganda og tefði málið í heild.

N. hefur því verið ásátt um að óska þess við Reykjavíkurbæ, að Alþ. verði úthlutað heppilegri lóð, er mætt geti þörfum fyrir þingmannaheimili, þannig að byggja megi þar myndarlegt íbúðarhús, er rúmi milli 25 og 30 þingmannaíbúðir. Er nú beðið svars og tillagna bæjarins í þessum efnum, og hefur verið óskað skjótrar afgreiðslu.

Húsameistari ríkisins hefur gert till. að íbúðum, sem til mála gæti komið. Gerir hann ráð fyrir stærð þeirra allt að 70 m2 hver íbúð, er hafi góða stofu, svefnherbergi, bað og lítið eldhús. Enn fremur verði í húsinu sæmilegur matsalur og samkomusalur. Gert er ráð fyrir ekki færri en 25 íbúðum eins og að framan greinir, en kostnaður við hverja íbúð áætlaður eigi minni en 170 þús., eða við 25 íbúðir með öðru nauðsynlegu húsrúmi 4 millj. 250 þús., ef sú áætlun fær staðizt og að óbreyttu verðlagi eins og það er nú í dag. Þess skal getið, að í þessari áætlun er reiknað með, að rúmmetrinn í byggingunni kosti 800 kr., en í áætluninni er allur húsbúnaður undanskilinn.

Ég vil svo að síðustu geta þess, að samkvæmt l. nr.84 frá 1953 er ákveðið, að byggja skuli bústaðinn á kostnað ríkissjóðs, svo að ekki er hægt, þótt öll undirbúningsvinna sé fyrir hendi, að hefja neinar framkvæmdir, fyrr en fyrir liggja fjárframlög á fjárl. til byggingarinnar.