02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 699 í D-deild Alþingistíðinda. (3076)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Fyrirspyrjandi (Bernharð Stefánsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir upplýsingarnar, það sem þær náðu, og þó einkum og sérstaklega hv. þm. Barð. (GíslJ), sem jafnframt er einn af forsetum þingsins, fyrir hans upplýsingar, sem voru allmiklu fyllri. En svör bæði hæstv. ráðh. og hv. þm. Barð. bera það með sér, að þessu máli er töluvert skemmra komið áleiðis en það þing, sem ákvað, að hefja skyldi undirbúning og honum skyldi vera lokið á árinu 1954, ætlaðist til. Það er ekki að sakast um það og ekki hægt úr því að bæta, nema með því einu móti að hefjast nú handa og hraða öllum undirbúningi málsins sem allra mest, og vildi ég mega vænta þess, að bæði hæstv. stjórn, að því er til hennar kasta kemur, og hæstv. forsetar þingsins ynnu þar að, því að ég álít, að þetta sé ekki einasta nauðsynjamál þeirra þingmanna utan af landi, sem eiga hér sæti, heldur geti það jafnframt verið nauðsynjamál hinna einstöku kjördæma og héraða úti um land, vegna þess að það getur mjög greitt fyrir því, að hæfir menn utan úr héruðum fáist til að vera þm., sem sums staðar hefur alls ekki verið neinn afgangur af hingað til.

Ég er nú ekki alveg viss um, að það sé rétt stefna að gera ekkert í þessu máli, fyrr en hægt er að byggja svo að segja höll, eins og hv. þm. Barð. var að lýsa. Ég held t. d., að það sé íbúðarhús til sölu hér í nágrenni við alþingishúsið, og fyndist mér það koma mjög til álita a. m. k. að athuga, hvort það gæti ekki leyst úr þessu í bráðina, og mér finnst ekkert við það að athuga, þó að fundin sé bráðabirgðalausn, vegna þess að þó að slíkt íbúðarhús yrði keypt, þá mundi án efa vera hægt að selja það aftur og sennilega þannig, að ríkið bæri ekki af því neinn skaða. Það hús, sem ég hef heyrt um að væri til sölu, er hér mjög nærri. Ég þekki það, af því að ég hef sjálfur búið þar á einu þingi, og ég hygg, að það sé mjög gott hús og gæti fullnægt þörfum nú til bráðabirgða. (Gripið fram í: Hvaða hús er það?) Ja, það skal ég segja hæstv. forseta Ed. að loknum fundi. Ég vil ekki vera að fara hér á opnum þingfundi að nefna húsið alveg sérstaklega, þó að ég viti um, að það er til.

Hv. þm. Barð. minntist í þessu sambandi á það, að ekki hefði þótt fært að byggja þingmannabústað í sambandi við alþingishúsið vegna væntanlegra bygginga, sem Alþingi sjálft þyrfti á að halda síðar til sinna þarfa. Það er auðvitað ekki hægt að bera fram beina fyrirspurn um það mál, en ég vildi þó, úr því að þetta var nefnt, aðeins láta það álit mitt í ljós, þó að ég sé farinn að eldast og þar af leiðandi kannske íhaldssamari og minna gefinn fyrir breytingar en þeir, sem yngri eru, að mér finnst, að aðbúnaður Alþingis hér í þessu litla húsi, þó að það væri ágætt á sínum tíma, sé nú orðinn með þeim endemum, að ekki sé hægt lengur við að una. Sannleikurinn er sá. að alþm. hafa hér engin starfsskilyrði í húsinu, síðan þeim fjölgaði eins og nú er orðið, og ég hafði gert mér von um það, að leysa mætti bæði þessi mál í einu lagi, þingmannabústaðinn og betri aðbúð fyrir Alþingi.