02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í D-deild Alþingistíðinda. (3077)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Björn Ólafsson:

Herra forseti. Eins og menn rekur minni til, flutti ég á þinginu í fyrra þáltill. um, að aukið yrði lóðarrými þinghússins, og átti ég þá við, að þinghúsinu yrðu tryggðar þær lóðir, sem hér eru í kring, lóðin, sem listamannaskálinn stendur á, lóðin, sem góðtemplarahúsið stendur á út að Vonarstræti, og að athugað yrði um kaup á húsi í Vonarstræti, sem var eign Sigurjóns Sigurðssonar. Þessi till. gekk til fjvn. og sofnaði þar. Hún kom aldrei frá n. (PO: Það var nú stuttur svefn, því að hún kom til hennar daginn áður en þingi var slitið.) Ég býst við, að hv. þm. hafi átt góðan þátt í að stinga till. svefnþorn. (PO: Ja, ég var nú búinn að flytja brtt. við hana.) Jæja, hv. þm. getur gert aths., ef hann telur það við eiga. En í sambandi við þetta langaði mig til þess að spyrja hv. formann byggingarnefndar, hv. þm. Barð. (GíslJ), hvort n. hafi nokkuð unnið að því að tryggja þessi lóðarréttindi til handa þinghúsinu, í því trausti að sjálfsögðu, að þinghúsið fái að standa á þeirri lóð, sem það stendur nú á, og að hv. bæjarstjórn gangi ekki svo langt í því að útvega sér lóð fyrir ráðhús, að þinghúsið verði að víkja. Ég veit ekki, hvort ég tók alveg rétt eftir því, sem hv. formaður sagði, en mér fannst það liggja í orðunum, að vel gæti það komið til mála, að þingið yrði að víkja af lóð sinni vegna skipulags, sem við mætti búast að yrði samþ. í bænum. Ég skal þó ekki fullyrða um þetta, en vona, að það sé ekki til umr. í bæjarstjórninni.

Mér hefur skilizt, að það sé m. a. verkefni byggingarnefndar að athuga stækkun þinghússins. Ég vil taka undir með hv. 1. þm. Eyf. (BSt), og ég veit, að flestir þm. eru á sama máli, að þinginu er ekki sæmandi lengur að hafast ekkert að í því að bæta húsakynni Alþingis og þar með greiða fyrir öllum starfsháttum þess. En mér skildist, eins og áður er sagt, að það mundi vera verkefni nefndarinnar að athuga um stækkun þinghússins og þar með einnig um stækkun þeirrar lóðar, er þinghúsinu ætti að fylgja í framtíðinni.

Mér þætti vænt um, ef hv. form. n. gæti gefið upplýsingar um þetta atriði.