02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 701 í D-deild Alþingistíðinda. (3078)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Út af ræðu hv. 3. þm. Reykv. (BÓ) vil ég taka það fram, að það er ekki verkefni n. að leysa þann vanda, sem hann ræddi um í sambandi við sjálft þinghúsið. Henni er aðeins falið að leysa þann vanda að undirbúa byggingu þingmannabústaðarins, en ekki neitt annað í sambandi við þessi mál. Hins vegar hefur n. athugað þetta vegna þeirrar aðkallandi þarfar, því að það er mjög aðkallandi þörf að geta stækkað þinghúsið og aukið meira húsrými en þar er fyrir hendi nú, svo að skapast mættu betri vinnuskilyrði.

Hvað snertir lóðir í kringum þinghúsið, þá er enginn vandi að koma þar fyrir bæði þingmannabústað og stækkun þinghússins, ef það færi ekki í bága við ákvarðanir skipulagsnefndar bæjarins, en skipulagsnefndin, eins og ég gat um áðan, hefur ekki viljað fallast á þær till., sem við bárum fram í því sambandi. Á því hefur strandað, og er því ekki hugsanlegt að geta komið fyrir þingmannabústað á þessari lóð. Af þessum ástæðum hefur n. heldur ekkert gert í því að tryggja þessar lóðir, sem hv. þm. talaði um.

Um hitt atriðið, að flýta framkvæmdum, get ég upplýst það hér, að n. mun gera allt, sem í hennar valdi stendur til þess fyrst og fremst að fá samkomulag við bæinn um nýja lóð, ef það er mögulegt, eða á einhvern annan hátt að reyna að leysa það mál, því að það er ekki hægt að byrja á teikningum fyrr en vitað er, hvar húsið á að standa. Ég geri hins vegar ráð fyrir, að þessu geti ekki orðið lokið á meðan þetta þing situr. Hins mætti vænta, að þetta lægi allt fyrir, áður en þing kemur saman næst, og að þá fái Alþ. ástæðu til þess að taka ákvörðun um það, hvort veita skuli fé til þess að byggja eftir þeim teikningum, sem þá liggja fyrir, eða hvort þm. vilja láta gera aðrar framkvæmdir en n. leggur þá til.

Mér er ókunnugt um það hús, sem hv. 1. þm. Eyf. talaði um að sé til sölu. Það sölutilboð hefur ekki komið til n. Nefndin hefur aðeins fengið tilboð um kaup á einu húsi, sem er í byggingu ekki hér alllangt frá þinghúsinu, uppi í Ránargötu, og hefur athugað gaumgæfilega þá teikningu alla og hefur ekki séð sér fært að mæla með því, að gengið yrði að þeim tilboðum.