02.03.1955
Sameinað þing: 40. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 702 í D-deild Alþingistíðinda. (3079)

214. mál, bygging þingmannabústaðar

Gunnar Thoroddsen:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hv. 1. þm. Eyf. sagði hér, eins og hann hefur oft áður sagt á þingi, að á því er brýn þörf að koma upp sérstöku gistihúsi eða heimili fyrir alþm., sem búsettir eru utan Reykjavíkur. Æskilegt hefði verið, að slíkt hús væri til og hefði lengi verið til, og ég tek alveg undir ummæli hans og óskir í þá átt, að þessu máli verði hraðað sem allra mest.

Í því sambandi vil ég nefna hér eitt atriði, þar sem mér fannst kenna misskilnings hjá hv. þm. Barð., formanni byggingarnefndar, þar sem hann segir, að þótt öllum undirbúningi væri lokið, væri ekki hægt að hefja framkvæmdir fyrr en fé hefði verið veitt í fjárl. Þetta er á misskilningi byggt, því að lögin mæla svo fyrir, að allur kostnaður skuli greiddur úr ríkissjóði, og enginn fyrirvari þar um, að ætla þurfi sérstakt fé til þess í fjárl. hvert ár, og er það eins og um ýmis lög fleiri, að það er ýmist heimilt eða skylt að greiða úr ríkissjóði án tillits til þess, hvort fjárveiting hefur verið tekin upp í fjárl. eða ekki, svo að það ætti ekki að standa í vegi fyrir framkvæmdum.

Það var að ég ætla tvívegis, sem byggingarnefndin bað mig, fyrir hönd Reykjavíkurbæjar, að koma á fund til viðræðna um þetta mál, og voru þá fyrst uppi raddir um að reisa þingmannabústað hér við þinghúsið á lóð Alþingis sjálfs. Ég skýrði þá nefndinni strax frá því og vil endurtaka það hér, að ég tel, að fyrst verði að ganga úr skugga um, hvernig eigi að leysa húsnæðisþörf Alþingis sjálfs og hvar alþingishúsið eigi að verða á næstu árum eða áratugum eða öldum, áður en tekin er ákvörðun um að reisa þingmannaheimili hér á þessari lóð. Það er æskilegt að hafa þingmannaheimilið ekki langt frá þinghúsinu, en það er öllum vitanlegt, að alþingishúsið, sem við nú störfum í og Alþingi hefur verið háð í síðan 1881, þegar það mun hafa verið reist, er allsendis ónógt. Þessi salur, sem við nú stöndum og sitjum í, er of þröngur fyrir sameinað Alþingi. Það er vitanlegt einnig, að nefndaherbergi eru allsendis ónóg, það er vitað, að flokksherbergi eru ónóg, og kemur m. a. fram í því, að einn þingfl. hefur ekki getað fengið samastað fyrir sína flokksfundi; þó að hann þurfi ekki ýkja mikið pláss a. m. k. enn, þá hefur hann ekki getað fengið samastað hér í alþingishúsinu, heldur hefur þingið orðið að leigja fyrir hann húsnæði til flokksfundahalda úti í bæ. Svo skortir algerlega starfsskilyrði fyrir alþingismenn, viðtalsherbergi fyrir þá, vinnustofur, bókasafn og ýmislegt fleira, sem sjálfsagt þykir og nauðsynlegt í hverju þjóðþingi.

Mér finnst, að eitt hið mest aðkallandi mál í þessu sé að leysa húsnæðisvandræði Alþingis sjálfs, um leið og ég tek undir það, að það þarf sem allra fyrst að sjá utanbæjarþingmönnum fyrir góðu húsnæði. Og þá kemur spurningin: Eru möguleikar á því að stækka alþingishúsið eða byggja við það? Eftir því sem húsameistarar hafa tjáð mér, er þetta miklum erfiðleikum bundið. Byggingarstíll hússins er með þeim hætti, að það er talið — ef ég má nota það orð — „arkitekioniskt“ mikið vandaverk að stækka alþingishúsið þannig, að sæmilega fari. Ég veit. að sú leið hefur verið orðuð að hækka húsið, byggja ofan á það, enn fremur að byggja við það, t. d. til vesturs, ef til vill að byggja einhvers konar útbyggingar, en allt skilst mér að þetta sé mjög erfitt úrlausnar. En fyrst er náttúrlega að gera sér grein fyrir því, hvort þetta er hægt? Er hægt með stækkun eða með nýbyggingum við þinghúsið eða nýrri byggingu á lóð alþingishússins sjálfs að leysa húsnæðisvandræði Alþingis? Eða telja menn, að hyggilegra sé með framtíðina fyrir augum að velja annan stað fyrir Alþingi en það er háð nú á? Sumir telja kannske, að þessu alþingishúsi fylgi svo fornar og helgar minningar, að hér eigi að halda áfram að starfa, og vissulega hefur margt merkilegt verið unnið í sölum þessa húss. Hinu er ekki að neita, að það eru fleiri hús hér í bæ, sem fornar og merkar minningar í sögu Alþingis eru bundnar við. Vil ég þar nefna menntaskólahúsið, þar sem þjóðfundurinn var haldinn og þar sem Jón Sigurðsson forseti starfaði öll sín ár, því að hann var fallinn frá áður en þetta hús var byggt. Ég er ekki að segja með þessu, að kæmi til mála að flytja Alþingi þangað, því að það er vitaskuld ókleift nema þá með stórfelldum breytingum og stækkunum þar, auk þess sem það er mikið tilfinningamál margra að halda menntaskólanum þar áfram eða starfrækja menntaskóla bar sem allra lengst. Það hafa ýmsir fleiri staðir verið nefndir fyrir Alþingi í framtíðinni. og ég vil hér með beina þeirri eindregnu áskorun til hæstvirtra forseta Albingis og hæstv. forsrh., að þeir taki það mál upp nú sem allra fyrst, hvernig eigi að leysa húsnæðismál Alþingis sjálfs„ bæta starfsskilyrði þess og hvar framtíðar staður þess á að vera.

Það var minnzt á það hér, að einhverjir mundu telja. t. d. í bæjarstjórn Reykjavíkur, að þarfir Alþingis yrðu að víkja fyrir ráðhúsi bæjarins. Ég vil út af því taka fram, að till. skipulagsnefndar hafa lengi verið þær, að ráðhús Reykjavíkur verði byggt við Vonarstræti, þ. e. í krikanum milli Iðnó og Bárunnar, eða þar sem hún var, og ég vil taka skýrt fram, að það eru ekki bæjaryfirvöldin fyrst og fremst, sem hafa gert þessa tillögu, heldur skipulagsnefnd ríkisins. Skipulagsnefnd ríkisins er skipuð þrem mönnum í þjónustu ríkisins, og vil ég taka það fram til að fyrirbyggja misskilning um, að hér séu bæjaryfirvöldin eingöngu að verki. Bæjarstjórn Reykjavíkur hefur enga ákvörðun tekið um það enn, hvar ráðhús Reykjavíkur eigi að verða. Það eru uppi um það margvíslegar tillögur, og fara nú fram rannsóknir og athuganir á því, hvar hentast þykir að byggja það. En ég segi það í tilefni af orðum hv. 3. þm. Reykv., að mér vitanlega hefur aldrei komið til orða frá neinum manni í bæjarstjórn Reykjavíkur. að alþingishúsið þurfi að víkja vegna ráðhúss Reykjavíkur; það hef ég ekki heyrt fyrr.

Ég skal ekki hafa um þetta fleiri orð. En eins og ég tók fram á fundum með byggingarnefndinni nú fyrir áramótin, tel ég, að það sé alveg óhjákvæmilegt að gera sér grein fyrir framtíðarþörfum Alþingis og hvar alþingishúsið á að verða í framtíðinni.