08.12.1954
Sameinað þing: 24. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 268 í B-deild Alþingistíðinda. (308)

1. mál, fjárlög 1955

Frsm. meiri hl. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Eins og ég sagði í frumræðu minni, þá taldi ég ekki rétt á því stigi að taka til athugunar í einstökum atriðum till. þær, sem fram voru bornar af hv. minni hl. fjvn., heldur bíða þess, að fyrir till. yrði talað og þær útskýrðar, enda sýndust till. vera þannig úr garði gerðar, að það væri ekki vanþörf á að fá á þeim nokkrar skýringar.

Báðir þeir hv. þm., sem eru í minni hl, n., hafa hér talað fyrir þessum till. og mjög í sama dúr báðir, eins og vænta mátti, þar sem rökstuðningur þeirra er sameiginlegur. En mig undrar það nú satt að segja nokkuð, eftir að ég fer að athuga þessar till. nánar, að þessir hv. þm., sem báðir hafa átt sæti í fjvn. um alllangt skeið og eru þar af leiðandi mjög reyndir menn í þeim málum og þekkja gerla, hvaða aðferðir hlýtur að verða að hafa við samningu fjárl., skuli senda frá sér till. eins og þessar. Á ég þar ekki við hverja einstaka till. út af fyrir sig, heldur heildarniðurstöðuna, sem ég mun víkja nokkru nánar að síðar. Sannast sagt held ég, eftir ræðum beggja þessara hv. þm. að dæma, að þeir hafi alls ekki gert sér það ómak að leggja saman till. sínar og íhuga, hvaða útkoma yrði á fjárl., ef þessar till. yrðu samþ. Að minnsta kosti mátti skilja það svo á ræðu hv. frsm. þeirra tvímenninganna, 3. landsk. (HV), að það hlyti að hafa verið einhver samlagningarskekkja hjá honum, þegar hann var að setja þessar till. niður á blað, og furðar mig mjög á því, ef þessir ágætu þm. hafa haft svo mikið flaustur á þessu, að þeir hafi ekki gefið sér tíma til að athuga, hvað þeir væru að gera.

Hæstv. fjmrh. vék hér nokkuð að hinum almenna rökstuðningi minni hl. fjvn. fyrir afstöðu þeirra og ágreiningi í sambandi við fjárlfrv., og ætla ég ekki að fara að endurtaka þau rök hér. Ég minntist á það í mínni frumræðu, að þau væru byggð á miklum misskilningi og óskiljanlegum misskilningi hjá þm., sem jafnvel þekktu til allra aðstæðna og þessir hv. þm. gera, og ég vil aðeins bæta því við, að mig undrar það mjög, að hv. 3. landsk. þm. skyldi láta sér sæma að viðhafa þau orð hér við umræður, að hæstv. forsrh. hefði sagt hér á Alþ.: „Skítt með atvinnuvegina, lifi milliliðirnir“ — og að þetta væri sá tónn, sem stefna ríkisstj. markaðist af. Þetta eru allt of ósæmileg ummæli til þess, að nokkur hv. þm. geti tekið sér þau í munn, og fjarstætt að halda því fram, að hæstv. forsrh. hafi nokkurn tíma hér á þingi sagt slíkt eða að stefna ríkisstj. hafi á hinn minnsta máta beinzt í þá átt, að það geti gefið nokkrum þm. ástæðu til að halda því fram, að ríkisstj. sé sérstaklega mynduð til þess að fjandskapast við atvinnuvegi landsmanna. Þegar þess er gætt, að innan þeirra tveggja flokka, sem eru stuðningsflokkar hæstv. ríkisstj., mun vera meginþorri allra framleiðenda í landinu til lands og sjávar, þá væri það einkennilegur hugsunarháttur hjá þessum flokkum, ef þeir settu sig sérstaklega út til þess að gera þessum mönnum bölvun. Þannig sæmir röksemdafærsla sem þessi auðvitað alls ekki á Alþingi. Það má halda þessu fram í óábyrgum blöðum, en það er ekki sæmandi, að hv. þm. haldi fram slíkum fullyrðingum.

Það er vitanlega jafnljóst ríkisstj. og stjórnarflokkunum og meiri hl. fjvn. eins og þeim hv. þm. minni hl., sem hér töluðu, að atvinnuvegir þjóðarinnar hafa átt við ýmiss konar örðugleika að stríða og að því miður hafa ekki þær ráðstafanir nægt þeim til hjálpar, sem gerðar voru 1950. En mér er nú spurn: Hvernig mundi hagur atvinnuveganna hafa verið, ef þær ráðstafanir hefðu ekki verið gerðar og til viðbótar hefði komið sú þróun önnur, sem hefur gert þessa aðstoð til atvinnuveganna óhjákvæmilega? Það gegnir a.m.k. nokkurri furðu, að hv. 11. landsk., sem gerla þekkir erfiðleika sjávarútvegsins og þekkti á þeim tíma og vissi mætavel, hvílík nauðsyn var á þeim ráðstöfunum, sem þá voru gerðar, skuli taka sér það í munn, að það hafi verið um einhverja glæframennsku atvinnuvegunum til tjóns að ræða í sambandi við þær aðgerðir.

Hæstv. fjmrh. ítrekaði það, sem ég hafði sagt í minni frumræðu, og benti á, hversu óraunhæfar þær fullyrðingar væru, að stefna ríkisstj. miðaði í þá átt að hækka skatta og álögur á landsmönnum, og þarf ég ekki frekari orðum við það að bæta. En mig langaði til að víkja að till. þeirra tvímenninganna og þá skoða þær till. í því ljósi, sem hv. 11. landsk. brá hér upp og virðist vera þeirra leiðarstjarna, að það væri sérstök nauðsyn að skipta um stefnu og taka upp nýja starfshætti í sambandi við fjárlög. Ég skal nú lítillega gera grein fyrir þessari nýju stefnu, hvernig hún birtist í till. þeim, sem lagðar hafa verið fram frá hv. minni hl. n.

Hv. minni hl. leggur til, að tekjuáætlunin verði hækkuð um 70 millj. kr., sem merkir það, að tekjuáætlunin mundi verða samtals 565 millj. kr., eða um 15 millj. kr. hærri en hugsanlegt er að tekjur þessa árs geti orðið, og það án þess að færa nokkrar minnstu líkur fyrir því, sem enginn getur fært, að tekjur ríkissjóðs á næsta ári muni vaxa að svo miklum mun frá því, sem nú er, að það réttlæti slíka tekjuáætlun. En látum nú svo vera, að þeir hefðu hækkað þessa tekjuáætlun sína þannig til þess að mæta þeim útgjaldahækkunum, sem þeir leggja til. En það er nú eitthvað annað en það, að jafnvel þessi mikla hækkun nægi til þess að vega upp á móti útgjaldatill. Þeir leggja til í sínum till. í fyrsta lagi, að 42 millj. af söluskatti séu afhentar sveitar- og bæjarfélögum. Þeir leggja til, að framlög til vega verði hækkuð um 1.9 millj., til lánasjóðs stúdenta um 300 þús., veitt verði til fiskiskipakaupa 10 millj., til raforkumála 12.1 millj,, til útrýmingar heilsuspillandi húsnæði 4 millj. og til atvinnubóta 10 millj., sem væntanlega verður að skiljast sem viðbót við þær 5, sem ætlað er að veita á fjárlfrv. nú. (Gripið fram í.) Ja, það eru 5 núna í frv. Mér skilst, að það sé viðbót, vegna þess að það er borið fram á annarri grein án þess að gera till. um, að hitt falli niður, þannig að ég held, að það verði að líta svo á, að það sé viðbót. Annars hlýtur að vanta inn í till. um það að fella hinar 5 niður. Nú hafa þessir hv. nm. samþykkt þær brtt., sem bornar eru fram af n. allri, eins og þeir einnig staðfestu hér, og í þeim brtt., ef frá er dregin 1 millj., framlag til Íslenzkra aðalverktaka, sem þeir hafa ekki tjáð sig samþykka, er hækkun um 13 millj., rúmar þó. Þetta merkir það, að gjaldahækkun þeirra er samtals 93 millj. Útkoman verður því sú, að tekjur á frv. yrðu 565 millj., 15 millj. hærri en nokkrar líkur eru til að þær geti orðið, miðað við þær aðstæður a.m.k., sem við nú höfum til að dæma eftir, en gjöldin 588 millj., þannig að greiðsluhalli á fjárlögum ársins yrði í lögunum sjálfum 23 millj. kr. Er þá eftir að bæta þar við öllum þeim útgjöldum, sem ríkið hlýtur að hafa og hefur alltaf haft sem umframgreiðslur, og engar líkur er hægt að færa fyrir, að þær muni ekki verða töluverðar einnig á næsta ári, þannig að það sér hver heilvita maður, að hér er stefnt í þá hringavitleysu með afgreiðslu fjárlaga, að ég efast um, að það hafi komið fram, a.m.k. frá nm. í fjvn., áður till., sem hafa verið jafnóraunhæfar og — svo að ég noti orð hv. 8. landsk. — ábyrgðarlausar eins og þessar till. frá þessum hv. þm., sem nú mynda minni hl. fjvn.

Auk þess er svo það lítilræði, sem má kannske segja að ekki leggi á ríkissjóðinn sjálfan miklar byrðar, en það er, að lagt er til, að ríkisstj. verði heimilað að taka samtals 90 millj. kr. lán á árinu. Það má nú kannske segja, að þetta sé lítilræði miðað við annað. En ég hygg nú samt, að það geti orðið nokkuð erfitt, miðað við allar þær lántökur, sem heimilaðar hafa verið og ekki hefur tekizt að fá enn, að búast við, að þessar 90 millj. fengjust til viðbótar. En látum það samt vera, það breytir ekki beinlínis útkomunni á fjárlfrv.

En það, sem mér finnst sérstök ástæða til að leggja áherzlu á og er í rauninni alveg nægilegt til þess að sýna, hversu fjarstæðar þessar till. eru, er að láta sér til hugar koma að afgreiða fjárl. með 23 millj. kr. greiðsluhalla. Það er meira en ég fæ skilið að menn skuli láta sér til hugar koma. Ég hélt að minnsta kosti, að þeir mundu heldur hækka tekjuáætlunina meira, þannig að þetta kæmi þó ekki út svona skelfilega á pappírnum. En eftir því sem hv. 3. landsk. komst hér að orði, þegar hann lagði þessar till. fram, þá hugsa ég helzt, að þeir hafi alls ekki gert sér grein fyrir þessari útkomu, vegna þess að hann talaði hér um það af nokkru stærilæti, að frv. væri með þeirra till. afgreitt fyllilega með jafnmikilli gætni eins og það kæmi frá meiri hl. n. Þannig sýnist mér þá a.m.k. vera orðið nokkuð lítið úr því, sem hv. þm. þá sagði, að auk þess ágóða, sem yrði þarna fyrir fjmrh., þá hefði hann svo bílaskattinn þar að auki úr að spila, því að mér sýnist, að hann mundi nú ekki elnu sinni nægja til að fylla þennan mismun, sem þarna er um að ræða.

Ég sé ekki ástæðu til þess raunar að ræða meira um þessar till. hv. minni hl. n., því að þetta eitt sýnir, að þarna er um að ræða till., sem eru svo óraunhæfar, að vitanlega kemur ekki til neinna mála, að þær verði samþ. Og mér finnst mjög undarlegt, að það séu hér margir hv. þm., sem séu ginnkeyptir fyrir þessari nýju stefnu í sambandi við afgreiðslu fjárl. Hitt er svo aftur annað mál, að það eru margar af þessum till. þess eðlis, að þetta er til mikilvægra og þjóðnýtra framkvæmda, enda tók ég það fram í minni frumræðu, að það hefði verið vilji allrar n., meiri hl. engu síður, að geta varið miklu meira fé til þess að framkvæma ýmsar umbætur, sem nauðsynlegar eru í okkar þjóðfélagi, og tók einmitt fram, að þar væru það mörg verkefni alltaf óleyst, að það væri auðvitað hægt að koma fyrir stórkostlega miklu meira fé í því skyni heldur en lagt er til, en hins vegar yrðum við í því efni vitanlega að sníða okkur stakk eftir vexti og binda okkur við það, sem fjárhagsgeta þjóðarinnar á hverjum tíma leyfði. Af þeirri ástæðu getur meiri hl. fjvn. að minnsta kosti ekki mælt með því, að þessar till. séu samþykktar, þar sem þær mundu leiða til þess, sem við viljum forðast, að um greiðsluhallabúskap verði að ræða hjá ríkissjóði, sem hlýtur þá fyrr eða síðar að koma niður á afkomu þjóðarheildarinnar, þannig að ekki sé hægt að halda uppi slíkri fjármálastefnu.

Það er lagt hér til í þeirra till. einnig að verja hluta af tekjuafgangi ríkissjóðs á þessu ári til eflingar Fiskveiðasjóðs Íslands. Ég geri ráð fyrir, að margir hv. þm. séu því sammála og telji æskilegt að ráðstafa einhverju af tekjuafgangi í því skyni, en þar sem þess má vænta, að það verði til meðferðar hér á hinu háa Alþingi, hvernig ráðstafa eigi þeim tekjuafgangi, þegar endanlega liggur fyrir, hver hann verður, þá verður að teljast óeðlilegt á þessu stigi að vera í sambandi við fjárlög að gera neinar ályktanir um ráðstöfun þess greiðsluafgangs. Og satt að segja sýnist mér nú líka eftir þeim ummælum, sem hér hafa fallið, sérstaklega frá hv. minni hl. n., að menn geri sér nokkuð rangar hugmyndir um það, hversu hár þessi tekjuafgangur verði, því að eftir hugmyndum þeirra að dæma virðast þeir álíta, að þar sé um einhverjar risaupphæðir að ræða. En ég er nú hræddur um, þó að afkoman sé góð, að þá mundi þó tekjuafgangurinn hrökkva skammt til að mæta öllu því, sem talað er um að hann eigi að mæta.

Það er alveg rétt hjá hv. minni hl., að það væri mikil þörf á því að geta hækkað framlög í sambandi við raforkuframkvæmdir, og kann vel að vera, að það reynist óumflýjanlegt. Hitt held ég að sé mjög skakkt með farið hjá hv. 11. landsk., sem hann hér sagði, að loforð ríkisstj. um raforkuframkvæmdir hefðu valdið meiri vonbrigðum en nokkuð annað. Það er að vísu svo, að það hefur seinkað framkvæmdum með hin stærri orkuver vestanlands og austan, en ekki mun það þó hafa stafað sérstaklega af fjárskorti. Hins vegar hefur lagning á háspennulínum og framkvæmdir héraðsrafmagnsveitnanna verið í fullum gangi í sumar og unnið eins mikið og hægt hefur verið að afkasta, þannig að það er ekki hægt að segja, að neitt hafi verið vanrækt í því efni, heldur hefur verið unnið fyrir stærri upphæðir en var gert ráð fyrir samkvæmt þeirri framkvæmdaáætlun, sem ríkisstj. lagði til grundvallar, er hún setti sér það mark að rafvæða landið að verulegu leyti á næstu 10 árum.

Varðandi heimildirnar í sambandi við húsnæðismálin er það að segja, eins og hv. þm. er kunnugt, að það er eitt af aðalstefnumálum ríkisstj. að leysa þau má] til frambúðar. Það hefur verið upplýst, að að því væri unnið nú, og það mun væntanlega mega gera ráð fyrir, að það mál komi til meðferðar hér á yfirstandandi þingi, þannig að á þessu stigi málsins er auðvitað alls ekki tímabært að fara að gera neinar ályktanir um lántökur eða lánveitingar í því sambandi, fyrr en vitað er, hvað verður lagt til með heildarskipan þeirra mála.

Meiri hl. fjvn. mun það alveg eins ljóst og hv. minni hl., að það sé við að etja ýmiss konar atvinnuörðugleika á ýmsum stöðum á landinu. Hins vegar vill þannig til, að hér liggja fyrir Alþ. nú nokkur frv. um það efni, og þykir mér ekki ólíklegt, að eitthvað verði samþykkt endanlega hér á Alþingi í þessu sambandi, því að það er vissulega rétt, að það er brýn nauðsyn að gera einhverjar ráðstafanir í sambandi við þessi atvinnumál á ýmsum stöðum úti um land og nauðsynlegt að koma þeim málum í fastara horf. En ég held, að á þessu stigi málsins, í sambandi við afgreiðslu fjárlaga, sé ekki rétt að fara að gera neinar samþykktir um það, heldur gera það í sambandi við afgreiðslu þeirra frv., sem hér liggja fyrir og beinlínis fjalla um það efni og hvernig þeim málum skuli hagað. Miðað við aliar aðstæður hlýtur því meiri hl. n. að mæla gegn því, að till. hv. minni hl. verði samþykktar.

Þá langar mig til að fara nokkrum orðum um till. þm. Þjóðvfl. varðandi fjárlögin. Þeir leggja til, að tekjuáætlunin verði hækkuð um 53 millj. kr. eða upp í 548 millj., allt að þeirri upphæð, sem ætlað er að tekjurnar geti orðið á þessu ári. Og á móti leggja þeir til, að útgjöldin verði hækkuð um 43 millj. kr., þannig, að samkvæmt þessum till., ef allt gengi að óskum, mætti gera ráð fyrir, að tekjuafgangur yrði nokkur, eða um 10 millj. kr. Þessar till. eru vitanlega, þó að þær séu ekki, að því er meiri hl. n. sýnist, á raunsæi byggðar, miklu nær því, að hægt sé að taka þær alvarlega, heldur en till. hv. minni hl. fjvn., því að þar er þó ekki a.m.k. beinlínis gert ráð fyrir því, að fjárlfrv.afgr. með greiðsluhalla.

Hv. 8. landsk. lýsti þeirri skoðun sinni, að honum þætti það vera rangt að áætla hugsanlegar tekjur ríkissjóðs lægri en gera mætti ráð fyrir að þær yrðu og væri réttari leið að áætla tekjurnar í hámarki, en hafa þá greiðsluafgang meiri. Vissulega mætti vel hugsa sér þessa stefnu. En sannleikurinn er nú samt sá, að ef ætti að fara að áætla tekjurnar eins og líklegt væri að þær gætu hæstar orðið, þá vill nú reyndin verða sú, að það sé nokkuð erfitt að halda í mismuninn á fjárlfrv., þannig að sú aðferð hefur nú að ég hygg aldrei reynzt fær að taka áætlunina fullkomlega á þann hátt. Og miðað við þær upplýsingar, sem hér hafa verið gefnar og ómögulegt er að hnekkja, um þær umframgreiðslur, sem alltaf hljóta að verða, þá hafa nú hv. þm. Þjóðvfl. ekki heldur fylgt þessari kenningu sinni, vegna þess að vitanlega er fyrirsjáanlegt, að með þeirri fjárlagaáætlun, sem þeir gera ráð fyrir, mundi verða greiðsluafgangur á næsta ári, nema einhver algerlega óvænt óhöpp kæmu fyrir. Hv. þm. sagði að vísu, að þróunin undanfarin ár benti til þess, að þetta væri óhætt. Það var einmitt það, sem ég vakti athygli á í minni framsöguræðu, að menn yrðu að varast að ímynda sér alltaf það, að þróunin hlyti sífellt að ganga í þessa átt, heldur yrði að athuga aðstæðurnar á hverjum tíma og einhvern tíma mætti gera ráð fyrir, að að því kæmi, að hin hlutfallslega hækkun yrði ekki jafnmikil frá ári til árs.

Hv. 8. landsk. kvað sér ekki fyllilega ljóst, hvað þessu máli kæmu við hugleiðingar minar um hugsanlegar tekjur af útflutningi landsmanna, hugsanlegar gjaldeyristekjur á næsta ári, vegna þess að ef ekki væri um það að ræða hjá ríkisstj. að taka upp nýja stefnu og takmarka innflutninginn og setja á ný höft, þá mætti gera ráð fyrir, að þróunin yrði til aukningar fremur en hitt. Ég vil nú leiðrétta það í fyrsta lagi, að ég hafi sagt, að tekjurnar mundu verða minni á næsta ári. Það voru ekki mín orð. Ég sagði, að það mundi mega teljast gott, ef þær yrðu jafnháar á næsta ári eins og nú, miðað við allar aðstæður. Ég sagði ekki heldur, að framleiðslan mundi verða minni á næsta ári. Það vitum við ekki um. En framleiðslan hefur orðið mjög mikil í ár, sala okkar afurða hefur gengið ágætlega, og það er ekkert, engin sérstök aukning framleiðslutækja eða annað, sem bendir til þess, að það megi, að minnsta kosti til þess að leggja það til grundvallar við samningu fjárlaga, gera ráð fyrir, að framleiðslan aukist mjög verulega á næsta ári, þannig að á því verður ekki heldur byggt. Og þó að ríkisstj. vilji ekki taka upp aðflutningshöft, sem hún alls ekki vill gera, þá verður ekki augum lokað fyrir því, að það verður auðvitað ekki keypt fyrir miklum mun meira en svarar möguleikunum til að greiða á einhvern hátt. Það liggur í augum uppi. Ég benti einnig á það í minni frumræðu, sem er staðreynd og ég hygg að hv. 8. landsk. muni vegna sinnar sérstöku aðstöðu vita, að verzlun hefur nú dregizt saman á ýmsum sviðum og í ýmsum greinum og innflutningur hefur jafnframt núna síðustu mánuði ársins farið minnkandi, miðað við þá hlutfallslegu aukningu, sem varð fyrr á árinu. Og einnig er það, að vörubirgðir í landinu eru vaxandi, og það hlýtur auðvitað að leiða til þess, að ekki verði um eins mikil innkaup að ræða, þótt fullt frelsi verði fyrir fólk til verzlunar.

Allar þessar ástæður hlýtur að verða að taka til athugunar, þegar samin er fjárhagsáætlun ríkisins, því að allt þetta hefur grundvallarþýðingu fyrir afkomu ríkissjóðs. Þess vegna er vitanlega ekki hægt fram hjá þessum atriðum að ganga og afgreiða málið bara með þeirri einföldu röksemd: Ja, af því að tekjurnar hafa hækkað um 70–80 millj. í ár, þá hljóta þær að gera það líka á næsta ári.

Hv. þjóðvarnarmenn hafa hér lagt til eina sparnaðartill., og kvaðst hv. 8. landsk. vona, að henni yrði mætt hér með skilningi.

Þessi hugmynd hefur komið áður fram á Alþ., að fækka sendiráðum á Norðurlöndum, en hingað til hefur það ekki verið talið fært. Ég skal engan dóm á það leggja, hvort þar sé um slíka nauðsyn að ræða, að ekki verði með neinu móti hjá þessum kostnaði komizt, en ég hygg nú samt, að það hafi úrslitum ráðið, að mönnum hafi þótt, miðað við okkar samband við Norðurlöndin og síaukna samvinnu við þau, að það væri nokkuð erfitt að leggja niður sendiráð í tveimur Norðurlandanna. Að minnsta kosti held ég, að það gæti aldrei komið til greina að leggja sendiráðin svo gersamlega niður, að þar væri ekki starfandi einhvers konar sendifulltrúi, heldur þyrfti í öllum tilfellum að hafa samband við Kaupmannahöfn. (Gripið fram í: Það væri nú hægt að ræða þetta mál í Norræna félaginu.) Ég veit nú ekki, hvort það hefur verið tekið þar fyrst á dagskrá. Það hefur ekki verið innleitt hér í umræðurnar a.m.k. af mér, svo að ég geti rá~ið því. En úr því að þessi hv. þm. skýtur þessu fram í, þá staðfestir það það, sem ég var að segja, að einmitt okkar þátttaka í ýmiss konar norrænni samvinnu hefur verið talin vera því mjög til hindrunar, að það væri gerlegt fyrir okkur að leggja niður þessi sendiráð, þó að ýmsum hafi þótt, að það mætti vera hægt að komast af með eitt sendiráð á Norðurlöndum, eins og sendiráð okkar annars staðar hafa flest fleiri en eitt land á sinni könnu. Ég vil ekki fyrir mitt leyti hafa uppi nein andmæli gegn þessari hugmynd, en aðeins vekja athygli á því, að þetta hefur komið hér áður til tals og ekki verið af Alþingi talið fært að gera þetta, auk þess sem enn eitt kemur nú þarna til, að ég hugsa það gæti orðið nokkur ágreiningur um, hvar þetta blessað sendiráð ætti að vera. Það a.m.k. yrði ekki talið alveg sjálfsagt, að það væri í Kaupmannahöfn.

Ég vil leiðrétta einn misskilning hjá hv. 8. landsk. Það var varðandi íþróttasjóðinn, að það væri hér aðeins um að ræða, að ríkið uppfyllti sína lagalegu skyldu. Á ríkissjóði hvílir engin lagaleg skylda um þetta efni. Það er gert ráð fyrir, að það sé bundið við þær fjárveitingar, sem eru í fjárl. Hitt er alveg rétt, að íþróttasjóðurinn hafði áður hærra framlag á fjárl. heldur en er nú og heldur en þó sérstaklega var fyrir þetta ár, vegna þess að framlagið var hækkað um 250 þús. á síðasta þingi. Það var um skeið milljón, en var siðan lækkað niður í 1/2 milljón, og þetta hefur leitt til þess, að íþróttasjóður er mjög fjárvana og vissulega mikil þörf á, að hann fái auknar tekjur. Ég lýsti því hins vegar í minni frumræðu hér, að málefni íþróttasjóðs væru ekki enn þá endanlega afgr. frá fjvn., og af þeim sökum vil ég ekkert frekar segja um þessa till., en aðeins vekja athygli á þessu atriði, að það er misskilningur, að hér sé um lagalega skyldu að ræða.

Það væri vitanlega mjög æskilegt, ef hægt væri að koma því við að ljúka við þær opinberar byggingar í sem allra fæstum áföngum, sem nauðsyn er talið að reisa. En því miður hefur reyndin bara verið sú, að það hafa verið jafnan svo miklar þarfir á þessum vettvangi og það margar byggingar í smíðum, að það hefur ekki verið neinn möguleiki á því að einskorða sig við fáar byggingar og ljúka þeim fyrst, en láta síðan aðrar bíða. Þetta er það stóra vandamál, sem við hefur verið að stríða í sambandi við skólabyggingarnar t.d., að nauðsynin hefur viða knúið svo á, að það hefur ekki verið neinn möguleiki að banna héruðunum að hefja framkvæmdir, heldur hefur þetta orðið að ganga þann gang, sem farið hefur, með þeim afleiðingum því miður, að safnazt hafa fyrir háar upphæðir af ríkissjóðshlutanum, sem hafa ekki verið greiddar. Það væri vitanlega æskilegast, ef þetta væri hægt. En hina leiðina hefur orðið að fara eins og með svo ótalmargar framkvæmdir í okkar landi, að við höfum orðíð að taka þetta í mörgum áföngum, þarfirnar hafa verið svo miklar. Í sannleika sagt er ég ósköp hræddur um það, og dettur mér þá í hug það, sem hv. þm. sagði um 2. lið hér í till., að það mundi reynast bæði honum og öðrum erfitt — það hafa víst margir reynt áður — að koma sér niður á það, hvaða verkefni eigi skilyrðislaust að sitja fyrir og hvað eigi að bíða, bæði í sambandi við þessi byggingarmál og vegamálin, sem hann minntist á, og einnig í sambandi við þá „planökonomi“, sem hann var að tala um að þyrfti endilega að taka hér upp, og ætti þá að kveða á um það af einhverri n., hvaða framkvæmdir ættu að sitja fyrir og hverjar ættu að bíða. Ég er anzi hræddur um, að það mundi reynast æði torvelt, og ég hygg, að allir hv. þm., sem hafa kynnzt þessum málum öllum og hafa hver og einn sínar óskir fram að bera og vita um, að mjög víða kreppir skórinn að um framkvæmdir, hafi fengið þá reynslu, að það sé enginn leikur að viðhafa slíka stefnu og slíka niðurröðun framkvæmda, heldur hefur orðið að reyna að gefa sem allra flestum úrlausn með þau mál, sem á hverjum stað hafa mest knúið á með framkvæmdir.

Ég ætla ekki að fara fleiri orðum um þessar till. þeirra hv. þm. Þjóðvfl., en aðeins taka það fram, að í heild getur meiri hl. fjvn. ekki mælt með, að þessar till. verði samþykktar.

Ég vil þá víkja aðeins örfáum orðum að fyrirspurnum frá hv. þm. Barð., sem hann nánast beindi til fjvn. Það var í fyrsta lagi í sambandi við áætlaða fjárveitingu vegna afhendingar kirkna til safnaða. Þessi fjárveiting var tekin inn í frv. nú af fjmrn. eftir beiðni kirkjumrh., þar sem hann taldi mikla nauðsyn að fá fjárveitingu í þessu skyni vegna nokkurra kirkna. Nefndin féllst á að taka þessa fjárveitingu upp og hefur ekki haft fyrir sér aðrar óskir um það efni eða síðari tilmæli frá kirkjumrh. um hækkun á þessum lið. Eins og till. ber með sér, gerir n. sjálf enga till. um, hvernig þessu fé verði varið, þannig að það er á valdi ráðherra að kveða á um, til hvaða kirkna þetta fari. Hv. þm. Barð. upplýsti, að það væri komið viðbótarerindi til fjvn. varðandi þetta mál. Það erindi hefur borizt það seint, að það hefur ekki verið tekið til meðferðar fyrir þessa umr. Það verður vafalaust athugað rækilega fyrir næstu umr., og vil ég því ekki á þessu stigi málsins segja neitt um það og get ekki um það sagt, hvaða afgreiðslu það muni fá í n., en að sjálfsögðu mun verða orðið við óskum hv. þm. um að taka það mál til athugunar og ræða það við viðkomandi ráðherra.

Þá minntist hv. þm. á heimllið að Breiðuvík. Fjvn. féllst á að hækka fjárveitingu á rekstrarlið til þessa hælis um 104 þús. kr., og skildist n., að þetta væri nægileg fjárveiting talin vera til viðbótar þeim 150 þús., sem í frv. voru. Eftir því sem hv. þm. Barð. lýsir aðkomu á þessa jörð, þá virðist hún ekki hafa verið glæsileg og lítið þar til að styðjast við, þegar hafizt var handa þar um framkvæmdir, þannig að allt þurfi að byggja upp á þessum stað og sé langt í land, að það sé orðið þar svo sem nauðsynlegt sé. Allmiklu fé hefur þegar verið varið til fjárfestingar þarna og gert ráð fyrir fjárveitingu nú í sambandi við byggingarframkvæmdir á staðnum. — Hv. þm. spurðist fyrir um það, hvort fjvn. mundi fallast á, að tekið yrði af fjárfestingarfé til rekstrar. Ég tel mig geta svarað því, án þess að það hafi verið rætt í n., að fjvn. telji það í alla staði óeðlilegt að taka af fjárfestingarliðum til rekstrar, heldur eigi, ef það sýnir sig, að ekki sé hægt að reka einhverja stofnun með því fé, sem til hennar sé veitt, það að takast til athugunar í sambandi við rekstrarfjárveitingu, en megi ekki taka upp þann hátt að nota fjárfestingarfé í rekstrarkostnað. Þar gæti verið um mjög óheppilegt og hættulegt fordæmi að ræða, sem ég hygg, án þess að það hafi verið rætt í n., að óhætt sé á þessu stigi að fullyrða að fjvn. teldi mjög óheppilegt.

Ég ætla ekki að ræða hér nánar um einstakar till., sem hér liggja fyrir frá hv. þingmönnum, en mun ef til vill taka þær lítið eitt til athugunar síðar.