09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 707 í D-deild Alþingistíðinda. (3084)

163. mál, verðtrygging sparifjár

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hér er til umr. sams konar fsp. og var undir árslok 1953 í sambandi við það, hvaða ráðstafanir hafi verið gerðar til þess að tryggja verðgildi sparifjár. Ég veit, að fyrirspyrjandi hefur gert sér ljóst, að það er allmiklum erfiðleikum bundið að gera þetta. Hins vegar er eðlilegt, að hann spyrji, hvort einhverjar ráðstafanir hafi þegar verið gerðar í þessu efni, því að það er vitanlega þýðingarmikið, ef hægt væri að tryggja verðgildi sparifjár, þannig að þeir, sem geyma og ávaxta fé sitt í bönkum, gætu verið tryggðir fyrir verðfalli peninga. En það er nú svo, að verðgildi peninga er lækkandi um heim allan og líka þar, sem ekki er breytt gengisskráningunni. Mér var sagt fyrir stuttu, að fyrir tíu árum hafi verið hægt að kaupa helmingi meira vörumagn fyrir dollar en gert er í dag, og þó hefur engin gengisbreyting verið skráð á dollar. Þetta kemur til af því, að vinnuaflið og það eiginlega verðmæti er stöðugt að hækka í verði, en gjaldmiðillinn að lækka. En gjaldmiðillinn hefur lækkað í verði hjá okkur ekki aðeins af þessari ástæðu, heldur einnig vegna þess, að við höfum viðurkennt gengisbreytingu og gengislækkun.

Það er rétt, sem hér var tekið fram, að sú till., sem þessi fsp. er sprottin af, var send til bankamálanefndar, sem var skipuð fyrir tveimur árum, að ég ætla, og var skipuð hinum færustu mönnum, að menn héldu. En það hefur vafizt nokkuð fyrir þessum ágætu mönnum að gera tillögur til tryggingar verðgildi sparifjárins, og satt að segja undrar mig það ekki stórum, því að það er áreiðanlega erfiðleikum bundið. Eftir að þessi fsp. kom fram, spurðist ég fyrir um það hjá bankamálanefndinni, hvað hafi gerzt í þessum efnum, hvort hún hefði einhverjar till. fram að bera í þessu efni, sem hægt væri að greina frá hér í dag. En svo var ekki. N. skrifar mér stutt bréf og tekur fram, að hún áliti, að verðtrygging sparifjár sé mjög þýðingarmikið mál. Virðist mjög æskilegt að tryggja sparifjáreigendur gegn óeðlilegri rýrnun á peningaeign þeirra. Hins vegar má gera ráð fyrir, að verðtrygging sparifjár geti haft ýmis hliðaráhrif, t. d. á hið almenna verðlag í landinu. Af þessum orsökum telur n. nauðsynlegt að athuga málið nánar, áður en hún lætur frá sér fara umsögn um það. Nefndarmenn hafa verið mjög störfum hlaðnir og því lítið getað sinnt þessu máli enn sem komið er. Treystir n. sér því ekki til að skila rökstuddu áliti eins og stendur, en mun taka málið fyrir á næstu fundum.

Þannig er nú það. Og þetta er nú það eiginlega svar, sem hægt er að gefa við fyrirspurninni. Hins vegar hafa hv. þingmenn fengið hér álit og tillögur sparifjárnefndar, sem var skipuð á s.l. sumri, sem gefur allvíðtækar ábendingar í sambandi við það að örva sparifjármyndun í landinu. En það, að hægt væri að örva sparifjármyndun í landinu, hefði einnig nokkur áhrif á það, að spariféð væri tryggt. Það er fyrst, þegar sparifjármyndunin hættir, að hætt er við, að gjaldmiðillinn falli í verði.

Sparifjárnefndin hefur skilað hér allmiklu áliti, sem ég veit að hv. þingmenn hafa kynnt sér, og allrækilegu. Hún hefur leitað sér upplýsinga frá Norðurlöndum, hvað gerzt hefur þar í því skyni að örva sparnað, og það er vitanlega ein leiðin til þess að örva sparnað að tryggja eigendur sparifjár gegn verðfalli peninga. N. hefur bent á, að það mætti e. t. v. gefa út vísitölutryggð verðbréf, sem væru seld til nokkuð langs tíma og þá e. t. v. með lægri vöxtum en önnur verðbréf. Það er vitanlega spor í áttina til þess að tryggja þá sparifjáreigendur, sem vilja í staðinn fyrir að eiga peninga inni á bankareikningi ávaxta það, sem þeir spara, í verðbréfum. Ég býst við, að það verði e. t. v. reynt að stíga fyrsta sporið í þessu efni í smáum stíl til reynslu, en ég tel, að það sé ekki hugsanlegt, að það verði á stóran mælikvarða. Ég tel t. d. alveg óhugsanlegt, að það sé hægt fyrir atvinnureksturinn í landinu að taka lán með þeim skilyrðum, að það sé tryggt, að lántakandinn verði að borga því meira til baka sem vísitalan hefur hækkað. Ég býst ekki við, að iðnaðurinn í landinu, að landbúnaðurinn eða sjávarútvegurinn treysti sér til að nota rekstrarfé, sem væri tekið með slíkum skilyrðum. Og ég er reyndar alveg viss um, að það hefði lamandi áhrif á allar slíkar framkvæmdir. Á meðan okkar þjóðfélag stendur ekki á sterkara grunni, mundu margir veigra sér við því að leggja út í atvinnurekstur, ef þeir fengju ekki rekstrarfé með öðrum skilyrðum. En það er allt öðru máli að gegna með vísitölutryggð verðbréf, sem væru gefin út í alveg ákveðnu skyni til ákveðinna framkvæmda, t. d. húsbygginga og annarra ákveðinna framkvæmda, sem á hverjum tíma gætu staðið undir sér og staðið af sér áföll verðbreytinganna.

Ég ætla ekki að hafa þetta mál miklu lengra, en ég vil benda á það, að þær till., sem hér liggja fyrir frá sparifjárnefndinni, geta verið nokkuð lærdómsríkar og til ábendingar. Og ég ætlast til, að bankarnir skipi áfram nefnd, samvinnunefnd, til þess að undirbúa frekar ráðstafanir til sparifjársöfnunar í landinu. Og sú n. gæti einnig haft í huga það verkefni, sem bankamálanefndinni var ætlað og er ætlað að vinna, en ekki hefur enn gefizt tími til. Ég ætla ekki við þessa umr. eða síðar að lá bankamálanefndinni, þótt hún hafi ekki skilað tillögum um þetta, vegna þess að ég hef gert mér fyllilega ljósa þá erfiðleika, sem á því eru. Mér er ekki kunnugt um, að nokkur þjóð hafi treyst sér til að tryggja sparifé gegn verðfalli, enda þótt flestar þjóðir eigi það ávallt yfir höfði sér að verðgildi minnki, vegna þess að þjóðirnar verða að breyta gengi gjaldmiðilsins, og að allar þjóðir eiga það yfir sér og hafa þreifað á því, að gjaldmiðillinn er stöðugt að lækka í verði, þótt gengisskráningu hafi ekki verið breytt.