09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 709 í D-deild Alþingistíðinda. (3085)

163. mál, verðtrygging sparifjár

Fyrirspyrjandi (Skúli Guðmundsson):

Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir þau svör, sem hann hefur gefið við fyrirspurn minni. Það kemur þar fram, að það hefur vafizt fyrir bankamálanefndinni að ljúka athugun þessa máls lengur en hæstv. ráðh. bjóst við, þegar þetta mál var hér til umr. á síðasta þingi, í nóvember 1953.

Vitanlega er það rétt, að þetta er mál, sem er vandasamt viðfangs, og eðlilegt, að það taki nokkurn tíma að kryfja það til mergjar, þar sem hér er um nýmæli að ræða.

Hæstv. ráðh. sagði, að sér virtist óhugsandi, að hægt sé fyrir atvinnureksturinn í landinu að taka lán með þeim skilmálum að þurfa að greiða þau aftur með uppbótum í samræmi við breytingar, sem verða kynnu á vísitölu. Ég hef nokkuð aðrar skoðanir á þessum hlutum. Ég tel ekkert óeðlilegt við það, þó að þeir, sem taka fé að láni, verði að skila aftur að lánstímanum loknum sama verðmæti og þeir hafa að láni fengið. Það finnst mér mjög eðlilegt.

Sparifé hefur aukizt hér nokkuð í bönkum og sjóðum síðustu tvö árin, og er það gott, en mér er sagt, að á þeim tíma, sem liðinn er af þessu ári, hafi orðið hér breyting á, þannig að sparifjáraukningin sé nú stöðvuð. Mér þykir það mjög sennilegt, að það sé einmitt óttinn við verðfall peninganna, sem hér er að verki. Sá ótti er áreiðanlega versti þrándurinn í götu eðlilegrar sparifjársöfnunar.

Ég vil nú vænta þess, að hæstv. ríkisstj. fylgi þessu máli eftir, reyni að fá sem fyrst álit bankamálanefndarinnar eða á einhvern annan hátt fá því lokið sem fyrst, að sú athugun verði gerð, sem stjórninni var falin með þáltill. á þinginu 1952, og ég held, að það hafi verið gott, að þessu máli var hreyft nú, því að það hefur orðið til þess að ýta við því, og má vænta þess af því bréfi, sem hæstv. ráðh. vitnaði í og honum hefur borizt frá bankanefndinni, að hún muni taka málið fyrir á næstu fundum, eins og þar segir.

Ég tel, að þetta sé svo þýðingarmikið mál, að hér megi ekki til lengdar láta sitja við orðin tóm, heldur þurfi framkvæmdir að fylgja á eftir.