09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 713 í D-deild Alþingistíðinda. (3089)

215. mál, sparifjáruppbætur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Fyrirspurn af þessu tagi var til umr. hér í hv. Alþ. að mig minnir á s. l. hausti og var þá vitanlega svarað. Hitt er ekkert óeðlilegt, þó að spurt sé um margt af því, sem er í þessari fyrirspurn, aftur, þar sem afgreiðslu málsins er ekki að fullu lokið. En ég var dálítið hissa á þeim rosta, sem var í hv. fyrirspyrjanda, og mér datt í hug: Hefur hann ekki verið hér í þinginu? Hvaðan kemur maðurinn? Sumt af því, sem hann var að tala um og jafnvel að spyrja um, var þannig, að það virtist ekki vera á því þörf. Og þegar þessi hv. þm. er hér að lesa upp úr lögum og finna að þeim, að þau hafi verið illa gerð, þá vil ég leyfa mér að spyrja: Hverjar voru brtt. þessa hv. þm. við l., þegar verið var að semja þau? Og hvers vegna reyndi hann ekki að sniða ágallana af frv., þegar það lá hér fyrir þingi? (Gripið fram í.) Ýtarlegar brtt., já, ekki till., sem voru til bóta, ekki til þess að sniða þá ágalla af því, sem við erum hér að ræða um, heldur till., sem hefðu jafnvel spillt lögunum. Ég spyr: Hvar eru þessar umbótatill. hv. þm. við frv. og við lögin? Það er allt of seint að verða vitur eftir á og segja nú, þegar lögin hafa staðið um fjögurra ára skeið, að þetta atriði hefði ekki átt að vera í l., þau hefðu átt að vera öðruvísi úr garði gerð til þess að gera framkvæmdina léttari. Hitt vita svo allir hv. þm., að það er alveg nýtt, ef það kæmi úr þessu horni, sem hv. fyrirspyrjandi situr í, till., sem gerði frv. eða lög einfaldari í framkvæmd en þau annars væru. Þetta vil ég nú leyfa mér að segja við hv. þm., og aðfinnslurnar við lögin koma of seint. Þær hefðu átt að koma fyrr. Hitt er svo ekki nema eðlilegt, að þeir menn, sem hafa átt sparifé á þessum tíma, en fá ekki uppbætur vegna einhverra galla, vegna þess að þeir hafa kannske gleymt að telja fram eða þá að umsóknin er eitthvað gölluð að einhverju leyti, verði sárir, ef þeir missa réttinn til sparifjárins.

Ég vil þá byrja á því að svara fyrirspurninni eins og hún liggur beint fyrir, og það er í fyrsta lagi: Landsbankanum bárust alls 11816 umsóknir. Umsækjendur voru nokkru færri, þar sem allmargir voru með fleiri en eina umsókn. Eins og kunnugt er, ber að verja 10 millj. kr. til uppbóta á sparifé samkvæmt þeim l., sem hér hafa verið nefnd. 6570 umsóknir eru bótaskyldar. Synjað hefur verið 5246 umsóknum, samtals að fjárhæð rúmlega 11 millj. kr. Nokkrar umsóknir munu enn bíða fullnaðarúrskurðar. Aðalorsök synjananna er sú, að innstæðan hefur ekki verið talin fram til skatts, en í l. um þetta efni segir berum orðum, að það sé skilyrði bóta, að innstæðufjárhæðin hafi verið talin fram til skatts. Þá hefur verzlunarinnstæðum verið synjað, þegar vextir hafa ekki verið greiddir af þeim eða lægri vextir en venjulegir innlánsvextir sparisjóða á bótatímabilinu, en í l. segir, að verzlunarinnstæður skuli bættar, ef venjulegir innlánsvextir sparisjóða hafi verið greiddir af þeim. Loks voru 800 umsóknir, sem ekki hlutu bætur, þar sem ekki var innstæða á því tímabili, sem máli skiptir. Við úrskurði hefur að sjálfsögðu verið farið nákvæmlega eftir ákvæðum laganna.

Hv. fyrirspyrjandi spurði að því, hvort menn gætu áfrýjað, ef þeim yrði neitað um bætur. Þetta er algerlega óþörf spurning, vegna þess að hvaða maður í þjóðfélaginu sem er getur kært, getur farið í mál og leitað réttar síns, ef honum hefur fundizt hans réttur vera fyrir borð borinn.

Þá spyr hv. þm., hvort uppbæturnar verði greiddar í peningum eða í ríkisskuldabréfum. Ég get nú ekki alveg fullyrt það enn þá, þar sem ríkisstj. hefur ekki enn ákveðið það, en það mun verða næstu daga, og það er ekki nokkur vafi á því, að einhver hluti uppbótanna verður greiddur í peningum, ef þær verða ekki allar greiddar í peningum.

Um það, að menn verði sárir, ef þeir fá ekki uppbætur á sparifé, sem þeir áttu á þessum tíma, þarf ekki að ræða. Það er út af fyrir sig eðlilegt, en það er ekki hægt annað en að styðjast við lagabókstafinn, því að n. hefur gert sér það ljóst, að óánægðir menn geta kært, og hún er á hálu svelli, nefndin, ef hún styður sig ekki algerlega við lagabókstafinn, og hún hefur reynt að haga framkvæmdinni þannig, að það gæti enginn, sem vildi kæra, unnið mál á hendur henni. Í þessari n. eru þrír lögfræðingar, sem bera ráð sín saman og rækja þetta starf af fullri samvizkusemi og í samræmi við lögin.

Ég ætla, að þetta sé nægilegt svar til handa hv. fyrirspyrjanda.