09.03.1955
Sameinað þing: 44. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 716 í D-deild Alþingistíðinda. (3091)

215. mál, sparifjáruppbætur

Viðskmrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að eyða löngum tíma, en ég ætla aðeins að upplýsa það, að vegna þess að ég mundi eftir brtt. hv. þm., þá spurði ég, hvar væru hans umbótatill. á frv. þegar það var hér í smiðum á hv. Alþingi. Hann segir, að þetta séu nákvæmlega till. þjóðbankans, sem hann hafi flutt. Það er dálítið erfitt, af því að maður hefur ekki lögin við höndina, að bera saman breytingarnar við lögin og færa rök að því hér í stuttu máli, að till. hafi ekki verið til bóta, en 4 af nefndarmönnum fjhn. sáu sér ekki fært að fylgja þessum till., og þetta eru ekki till. þjóðbankans í heild, eins og hv. fyrirspyrjandi sagði. Lögin voru sett að lokum í samráði við þjóðbankann, og þjóðbankinn virtist vera fyllilega ánægður með afgreiðslu málsins eins og það varð að lokum. Ég held ég megi fullyrða það, að fjhn., form. hennar og fleiri fjhn.-menn, hafi verið í sambandi við þjóðbankann, þegar lögin voru sett.

Það var ekki í neinum niðrandi orðum, sem ég sagði það um hv. fyrirspyrjanda eða við hann: Hvar eru hans brtt. við frv., sem áttu að bæta úr þeim ágöllum, sem hann var að benda hér á áðan? Þær eru ekki hér í þessari bók, það eru ekki þær till., sem hann benti hér á. Kannske á hann aðra bók, sem greinilegar tekur þetta fram.

Hv. fyrirspyrjandi var að tala um það, að hann harmaði, að það væri ekki áfrýjunarréttur, að þeir, sem fengju ekki bætur, gætu ekki leitað réttar síns nema með málssókn. Ég vil upplýsa það, að núna að undanförnu hafa ýmsir, sem hefur verið neitað um uppbætur, komið til lögfræðinganefndarinnar og leitað upplýsinga og reynt að leita réttar síns. Þeir hafa núna, á meðan ekki er farið að greiða uppbæturnar, átt greiðan aðgang að nefndinni. En ef það væri settur á stofn sérstakur dómstóll eða sérstök nefnd, sem menn gætu skotið málum sínum til, þá sé ég ekki, hvernig ætti að fara að því að greiða uppbæturnar út. Það verður vitanlega, áður en byrjað er að greiða uppbæturnar út, að loka algerlega hringnum og gera sér fyllilega grein fyrir því, hvað há upphæðin er, sem á að bæta, hvað yrðu það mörg prósent, sem á að greiða. Ef það er ekki gert og hringurinn opinn, þá er ekkert fé fyrir hendi til þess að greiða þeim, sem á eftir koma eða kynnu að verða dæmdir það réttháir, að þeir ættu að fá uppbætur.

En eins og ég sagði áðan, hefur þessi lögfræðinganefnd hagað sínum verkum þannig, að hún hefur fylgt lögunum alveg nákvæmlega og gert sér fyllilega grein fyrir því, að það má ekki koma fyrir, að nokkur, sem vildi áfrýja eða kæra, gæti unnið mál, vegna þess að það er búið að gera ráðstafanir til þess að úthluta þessum 10 millj., sem til ráðstöfunar eru. Ég segi: Það getur ekki farið saman hjá hv. fyrirspyrjanda að vita það, hversu langur dráttur er á greiðslu uppbótanna, og fara samtímis fram á, að það verði sett upp sérstök nefnd, sem tæki við áfrýjunum og kærum með það fyrir augum að bæta mönnum síðar upp það, sem núverandi nefnd hefur ekki talið sér fært að gera, því að það yrði þá að bíða með greiðslur og bætur til allra enn um sinn og gefa nú upp ákveðinn frest til áfrýjunar, t. d. 3 eða 6 mánuði. En það hefur ekki verið talin þörf á því, vegna þess að sú nefnd, sem nú hefur unnið lengi, hefur talið, að framkvæmdin væri þannig, að þetta væri alveg pottþétt miðað við lagabókstafinn, og það verður ákaflega erfitt, held ég, og bezt að gera sér grein fyrir því, að það verður ekki hægt að bæta úr þeim sárindum og leiðindum, sem margir verða fyrir, vegna þess að þeir fá ekki uppbætur. Mér er alveg kunnugt um það eins og hv. fyrirspyrjanda, að það eru margir sárir og leiðir yfir þessu. En það er staðreynd, að lögin ákveða það, að sá, sem ekki taldi fram, getur ekki fengið uppbætur, og þetta er sárast þegar um gamalmenni er að ræða, sem lítið hafa átt til og ekki talið fram vegna sinnuleysis eða gleymsku. En eins og lögin eru og eins og lögin hefðu verið, þótt till. hv. fyrirspyrjanda hefðu verið samþ., hefðu þeir, sem ekki töldu fram, ekki fengið uppbætur. Í till. hv. fyrirspyrjanda er ekki farið fram á það, að menn skuli fá uppbætur, þótt þeir hafi ekki talið fram, en flestar neitanirnar eru byggðar á því.