23.03.1955
Sameinað þing: 48. fundur, 74. löggjafarþing.
Sjá dálk 722 í D-deild Alþingistíðinda. (3097)

174. mál, landshöfn í Rifi

Forsrh. (Ólafur Thors):

Herra forseti. Ég hefði haft gaman af því, meðan ég var ungur og orrustuglaður, að hitta svona kóna eins og þennan, sem var að fara héðan, og mega tukta hann dálítið. Nú er ég orðinn svo latur, alvörugefinn og málefnalegur, að ég nenni lítið við hann að tala.

Það voru þrjú aðalatriði í þessari viðleitni hans til að halda hér ræðu, sem hann bar fram og áttu að vera ógurlegir burðarásar í árásunum á ríkisstjórnina eða mig persónulega, sem hann taldi sér þó tæplega sæmandi að tala við.

Í fyrsta lagi eða síðasta var það, að í Morgunblaðinu stæði, í frétt frá Ólafsvík, að það væri skynsamlegra að bæta höfnina í Ólafsvík en í Rifi. Ja, mikil er nú spekin hjá þessum ágæta þm., ef honum þykir það nú tíðindum sæta, að sá, sem býr í Ólafsvík, vilji heldur láta byggja höfn í Ólafsvík en t. d. Herdísarvík eða jafnvel í Keflavík. Það er nú svona, að það eru fleiri eigingjarnir náungar í landinu en þessi. Þeir eru margir, og þykir öllum skynsamlegt eða mörgum að byggja höfn þar, sem þeir sjálfir búa.

Hitt atriðið, sem hann með mikilli speki spurði um, var það, hvort hafnaryfirvöldin, og þá bæði ríkisstjórn og vitamálastjórnin, hefðu aldrei reynt að gera sér grein fyrir því, að það væri nauðsynlegt, þegar búið væri að moka upp og fylltist aftur, að hindra, að slíkt endurtæki sig. Við erum nefnilega hérna að fást við íslenzk náttúruskilyrði og ráðum ekki alveg við þau. Það er rétt, að menn hafa heyrt brimbrjóta nefnda, og það eru til sterkari brimbrjótar en þessi, sem þarna situr, og brotna þó, t. d. brimbrjóturinn í Bolungavík. En það er nú forsjónin, sem hefur sett okkur niður á þetta land, og við unum því, sem okkur mætir þar, blíðu og stríðu. Við búum um margt við betra en aðrir, en við eigum um sumt við erfiðleika að stríða. Það eru aftur aðrir okkur miklu fróðari menn, sem áratugum saman, svo að ég segi ekki meira, hafa verið að glíma við þetta, hvernig hægt er að búa mannvirkin þannig úr garði, að þær hættur, sem jafnan sækja á, verði sem minnstar. Það afstýrir þeim enginn með öllu.

Þriðja meginárásarefnið, ef svo mætti segja, vax svo það, hvernig menn leyfðu sér, og það átti að bera vott um óskaplegt ábyrgðarleysi, að ráðast í mannvirki sem hafnargerð án þess að hafa gert sér fulla grein fyrir, hvað það kostaði. Ja, sér eru nú hver ósköpin! En hver skyldi hafa vitað það, — við skulum bara líta beint af augum, það þarf kannske að taka 2–3 hús í burtu, til þess að hv. þm. sjái út á Reykjavíkurhöfn, — hver skyldi t. d. hafa getað gert sér grein fyrir því í öndverðu, hvað hún mundi kosta? Það er ekki hægt að gera sér grein fyrir, hvað mannvirkin kosta, fyrr en maður sér fyrir, hvernig þau eigi að verða. Við ætlum að stíga áfanga og annan áfanga og þriðja áfanga. Reyndin sker svo úr, hve margir þeir verða. En því fleiri áfangarnir, því meiri framkvæmdirnar, því kostnaðarmeira.

Ég hygg, að hér með sé þessum þremur aðalárásarefnum hrundið, og ég held, að ég geti lofað hv. þm. því, að honum sé óhætt að vera talsvert gleiðgosalegur í sínu svari upp á það, að hann þurfi ekki að eiga á hættu, að ég fari neitt að skipta mér af honum meira í þessu máli.